15.05.1950
Efri deild: 106. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

49. mál, húsaleiga

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Það var margt rætt hér síðast, þegar þetta mál var til umr., á laugardaginn, og mætti ætla, að aðstandendur álits minni hl. n. ættu að baki sér stórar og miklar aðgerðir í húsnæðismálum þjóðarinnar. Það var á árunum 1944–1946, sem þessir flokkar sátu í svokallaðri nýsköpunarstjórn, þeir höfðu 4 ráðh. af 6. Þessi stjórn hafði til umráða meira fé, en nokkur önnur stjórn hafði haft til umráða á Íslandi áður eða hefur haft síðan. Það var til gjaldeyrir, sem skipti hundruðum milljóna, og fjármagnið flaut um landið. Við mættum trúa því, að á þessum árum hefðu þessir flokkar, svokallaðir vinstri flokkar, sem nú tala mikið um húsnæðismálin, látið báðar hendur vinna, bæði þá vinstri og hægri, og hefðu sannarlega tekið til höndunum í þessum málum. En hvað var gert í þessum málum? Það voru aðallega byggðar villubyggingar og sumarbústaðir, en verkamannabústaðir, sem höfðu þá komizt í l. á sínum tíma fyrir atbeina Framsfl., voru að mestu leyti látnir eiga sig. Samkv. því, sem hv. 1. landsk. upplýsti hér á laugardaginn, hafði farið fram rannsókn á húsnæðismálunum á árinu 1946, og sú rannsókn leiddi ýmislegt í ljós, og þær skýrslur sýndu, að húsnæðisástandið var slæmt, eins og hann sýndi fram á. Þessi skýrsla er gerð í lok starfstíma þessarar ríkisstj. og í lok þess tímabils, sem þessir flokkar höfðu til þess að vinna að bættum húsnæðismálum hér í þessu landi, og það ættu þeir að muna, þessir herrar, þegar þeir eru að lesa skýrslur sem þessar. Það er á árunum 1944–1949, sem ráðh. Alþfl. hafa yfirstjórn húsnæðismálanna í þessu landi, og á þessum árum er næsta lítið lagt til þessara mála, þannig að tölurnar tala, og mig langar til þess að spyrja hv. 6. landsk. þm., hvers vegna hann hvessti þá ekki augun á sína flokksmenn, — af hverju flutti hann þá ekki einhverja af sínum skeleggu ræðum um húsnæðismálin? Er það vegna þess, að hann geri meiri kröfur til annarra heldur en til sjálfs sín? Aldrei heyrði ég því líkar ræður til hans þá eins og hann þóttist vera maður til að flytja hér yfir framsóknarmönnum á laugardaginn, og ég geri ráð fyrir, að hafi hann þá brýnt sína ágætu flokksmenn á sama hátt og hann þóttist geta brýnt framsóknarmenn, þá hafi eitthvað verið gert. En það, sem hefur gerzt nú í sambandi við gengisskráningarl. fyrir atbeina Framsfl., sem þessir menn vilja troða niður í svaðið fyrir aðgerðir í húsnæðismálunum, er það, að það hefur verið innt af hendi stærra átak heldur en ráðh. þessara flokka höfðu látið eftir sig liggja alla sína ráðherratíð. Ég á þar við það fjármagn, sem tryggt er til íbúðarhúsabygginga í gengisskráningarl. Þetta vita þessir hv. þm., en þeir kjósa að þegja yfir því og nota aðra aðferð heldur en að láta sannleikann koma í ljós.

Hv. 1. landsk. þm. las upp grein úr Tímanum, sem lýsir húsnæðismálunum eins og þau voru eftir síðustu ánamót; það er mjög greinargóð lýsing og alveg sönn lýsing á því, hvernig þessir menn hafa skilið við þessi mál, og ég verð að segja, að skrif Tímans sæma sér prýðilega innan þess ramma, sem þau eru, annars vegar aðgerða hinna svokölluðu vinstri flokka og hins vegar aðgerða Framsfl., og aðstandendur þessa blaðs þurfa ekki að blygðast sín á nokkurn hátt fyrir það. Svo standa þessir menn hér, þessir farísear, berja sér á brjóst og þakka guði fyrir, að þeir séu ekki eins og aðrir menn, og koma með yfirborðstill. í sambandi við afgreiðslu fjárl., till., sem þeir þakka fyrir, að er ekki samþ. og er gerð í von um að verði ekki samþ., og gera svo hróp að mér fyrir, að ég vil ekki taka þátt í þessari auglýsingastarfsemi Þjóðviljans.

Ég ætla að lokum aðeins að minnast nokkrum orðum á þetta frv., sem fyrir liggur. Ég tel það á ýmsan hátt til bóta. Ég tel það rétta stefnu, að bæjarstjórnir eigi sem mest að hafa meðgerð með þessi mál, en á hinn bóginn liggur ekkert fyrir í þessu máli annað en fullyrðingar. Það liggja fyrir fullyrðingar um það, hvað húsaleigulöggjöfin sé óréttlát og hve illa hún komi niður á vissum aðilum, og það eru vissar staðreyndir, sem liggja fyrir í sambandi við það, sem hv. þm. Barð. sagði, svartur markaður og húsnæðisokur, sem húsaleigul. hefur ekki tekizt að afstýra. Á hinn bóginn liggja fyrir fullyrðingar og miklar getsakir um allt það öngþveiti, sem mundi skapast, ef húsaleigul. væru afnumin, en það er ekki til neinn grundvöllur fyrir neinu af þessu annað, en einstakar ágizkanir manna. Það er ekki hægt að sanna neitt af þessu með tölum, eins og stendur. Í sambandi við annað húsnæðismál, sem ég er viðriðin, frv. um stóríbúðaskatt, hefur það komið í ljós, að til þess að hægt sé að fá alhliða löggjöf um húsnæðismál, þá er nauðsynlegt, að á þeim sé gerð gagnger rannsókn. Það verður ekki gert öðruvísi, en það liggi fyrir skýrslur og greinargóð rannsókn. Ég geng ekki með þá bjartsýni, sem hv. 6. landsk. gerir, að það fáist skýrslur um það, hvað það kosti að fá húsnæði á svörtum markaði, en aðrar skýrslur eitthvað. Ég álít, þrátt fyrir það þó að þessir menn hafi nú ætlað öðrum en ríkisstj., sem þeir studdu, að framkvæma þá skýrslugerð, sem farið er fram á í nál. minni hl., að með samþykkt slíkrar till. mundi skapast grundvöllur fyrir starf í þessum málum. Þrátt fyrir það, þó að ég vilji ekki undirskrifa allar fullyrðingar, sem hér hafa verið gerðar um það, að öngþveiti mundi skapast við afnám húsaleigul., þá tel ég, að verið hafi grundvöllur fyrir því 1943, að löggjafinn hefði eitthvað að segja í þessu gagnvart bæjarstjórnum og öðrum, þegar húsaleigul. voru sett að hafi það verið nauðsynlegt þá, sé það ekki siður nauðsynlegt nú. Á hinn bóginn er ég sannfærð um, að húsaleigul., sem við búum við, eru óréttlát, og það er viðurkennt margsinnis, að þau eru alls ekki réttlát, en ég tel mig ekki geta verið fylgjandi því, að þau séu afnumin án þess að lagður sé grundvöllur að því, að annað komi í staðinn. Af þessum sökum mun ég greiða till. minni hl. atkv. við þessa umr., en vona að öðru leyti, að frv. það, sem hér liggur fyrir, nái fram að ganga.