28.04.1950
Neðri deild: 90. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (2474)

93. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Einar Olgeirsson:

Ég þakka hæstv. fjmrh. upplýsingarnar í þessu máli. Hann drap á það, að hér hefði verið byrjað á máli, sem er þýðingarmikið. Það er rétt. En nú er svo, að fleira þarf til, að hægt verði að halda þessu fram, en hinar nýju vélar. Ég veit eigi betur en til þess, að svo geti orðið, þ. e. af aukinni ræktun, þá þurfi að tryggja mikinn innflutning á áburði til landsins, og því meira sem flutt sé inn af vélum, því meiri áburðar sé þörf og til því fleiri hluta landsins. Í ýmsum hlutum landsins hefur þegar verið unnið mikið með nýju tækjunum og ráðizt í stórvirkar framkvæmdir. Nú heyri ég sagt, að svo sé sums staðar ástatt úti um sveitirnar, að menn, sem þegar hafa pantað áburð á þau svæði, er ræktuð hafa verið, hafi jafnvel endursent áburðinn eftir hina gífurlegu hækkun sökum gengislækkunarinnar og treysti sér eigi til að leysa hann út. Nú vil ég spyrja: Þurfa eigi þessir hlutir að fylgjast að, þegar land er ræktað með vélum og áburðar er þörf? Er nægilegt að tryggja innflutning á vélum og standa síðan uppi án nokkurs áburðar? Hver er hugsun þeirra manna, sem segja, að bændum sé brýn nauðsyn að fá þessar vélar, en hækka síðan áburðarverðið, svo að allmörgum bændum finnst ókleift að standa undir þessu? Mér þykir sem verið sé að stöðva ræktunina í miðju kafi. Það er ekki nema eðlilegt, þegar Alþ. er ætlað að veita millj. kr. til nýrra tækja, að þá vilji þ. vita fyrir víst, að áfram verði haldið með ræktunina. — Ég vildi minna á þetta, því að ég lít svo á, að þróunina eigi ekki að stöðva. En annað virðist vera gert með gengislækkunarl.