02.05.1950
Efri deild: 95. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

104. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég á hér brtt. á þskj. 373, og er sú till. algerlega í samræmi við 1. gr. frv. míns á þskj: 86. Ástæðan til, að ég ber þennan hluta frv. míns hér sérstaklega fram, er ekki sú, að ég álíti málin svo skyld eða sé á móti frv., heldur sú, að hér er um að ræða breytingar við sömu grein skattalaganna, og væri það undarlegt af Alþ., ef það afgreiddi ekki í sama skipti breytingar við einu og sömu grein laganna. Frv. mitt er nú búið að vera mánuðum saman hjá fjhn. án þess að það komi fram, og vildi ég því freista, hverju ég gæti komið fram af því með brtt. við þetta frv. Ég get því ekki dregið aftur till. mínar, enda sé ég ekki, að það geti orðið frv. þessu fjötur um fót, eins og hv. frsm. vildi þó vera láta. Ég reifaði á sínum tíma ástæðuna fyrir mínu. frv., en ástæðan er sú, að það er geipikostnaður fyrir konur þær, sem vinna utan heimilis, að fá hjálp, en sá frádráttur, sem skattal. heimila, er 900 kr., en það er eins og dropi í hafinu af kostnaði þeim, sem af því leiðir að hafa konu til heimilisstarfa, og tel ég ekki of í lagt, þó að kostnaðurinn við að hafa ráðskonu sé vona 10 þús. kr. á ári. Þetta er alltilfinnanlegt fyrir heimili, þar sem konan vinnur úti og er kannske menntuð á þessu sviði og hefur eytt miklum hluta ævinnar til að fullnuma sig í, en kaup hennar verður með þessu móti að frádregnum kostnaði afar lítið, svo að þetta er nokkurs konar hegning fyrir að hafa reynt að ná menntun og þroska í starfi sínu. Ég vona því, að hv. d. sjái sér fært að samþ. brtt. mínar og eins frv. mitt í heild. Þá vil ég segja hinum hv. orðhaga frsm. til að fyrirbyggja vafninga í framtíðinni, að konur eru líka menn.