23.11.1949
Neðri deild: 4. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

19. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmrh:

(Bjarni Benediktsson): Herra forseti. Frv. það til l. um meðferð opinberra mála, sem hér er lagt fram, var lagt fyrir þessa hv. d. í fyrra og mun hafa legið mestan hluta þingtímans hjá hv. allshn. Ég taldi sjálfsagt að leggja þetta frv. aftur fyrir hæstv. Alþ. að þessu sinni og læt mér nægja að vísa til grg. og þeirra ummæla, sem ég hafði um þetta mál á síðasta Alþ. Ég vil einungis ítreka það, að ég tel mjög brýna nauðsyn á því, að ný löggjöf verði sett um meðferð opinberra mála. Það sést glögglega, ef litið er á 207. gr. þessa frv., hversu úrelt þau l. eru, sem nú gilda um þessi i Ákvæðin í þeim eru allt frá dönsku lögum Kristjáns V., sem sett voru á 17. öld, og einnig eru þar ákvæði, sem sagt er að séu frá því um 1800 og fyrri hluta 19. aldar. Öll þessi fyrirmæli eru svo gölluð og fjarri hugmyndum manna nú á dögum, að það má telja mikla furðu, að ekki skuli hafa tekizt fyrr en þetta að fá þeim breytt og nýja skipan setta. Það var, eins og menn vita, gerð tilraun til þess að fá ný l. um þetta efni sett fyrir hér um bil 10 árum. Þá var samið frv. um þetta, og þótt það frv. sé að vissu leyti bót frá því, sem áður var, þá var sú breyt. engan veginn fullnægjandi. Aðallega var það skrá og skýrsla um þau ákvæði, sem áður giltu, en fáar verulegar breyt. eða nýjungar. Í frv. því, sem samið var í fyrra að tilhlutun dómsmrn., voru hins vegar gerðar till. um gagngerðar breyt. í nýmælaátt á meðferð þessara mála, — breyt., sem tryggja verulega frá því, sem verið hefur, réttarstöðu borgaranna og gera líklegt, að meiri, hraðari og öruggari úrlausn verði í þessum málum heldur en fram að þessu hefur verið: Það er að vísu rétt, og ég veit, að það er fært á móti þessu frv., að því er samfara nokkur kostnaður, en þegar á það er litið, að það skipulag, sem við búum við, er nærri því 300 ára gamalt að verulegu leyti og fjarri því að fullnægja frumstæðum hugmyndum, sem aðrar þjóðir hafa um réttarskipun þessara mála, þá hygg ég, að ýmis kostnaður hafi verið upp tekinn á seinni árum, sem minni þörf væri heldur en að koma þessum málum í skaplegt horf. Þar að auki er svo það, að ég tel enga frágangssök að samþykkja þetta frv. að mestu leyti, jafnvel þótt flest þau atriði, sem hafa í sér fólginn aukinn kostnað, væru úr því numin. Það væri stór bót að því að samþykkja frv., jafnvel þótt ákvæðin t. d. um saksóknara ríkisins væru úr því felld og ákærurétturinn eftir sem áður í höndum dómsmrn. Eins er það, að það er ekkert höfuðatriði í þessu frv., hvort það eru fleiri, en einn sakadómari hér í Reykjavík. Því sem eru kostnaðaratriði, er því auðvelt að kippa úr frv., en láta meginbálk frv. ná fram að ganga. Ég tel þetta mál svo mikilsvert, að hvert það Alþ., sem það samþ., mundi verða talið merkilegt, þótt það afrekaði lítið annað. Svo brýn þörf er að fá betri skipan þessara mála, en verið hefur, og svo úrelt er það fyrirkomulag, sem við nú búum við, að ég tel það ekki vansalaust fyrir íslenzkt þjóðfélag að una þeirri skipan áfram, sem við höfum. Hitt má deila um, hvort sú skipan, sem hér eru gerðar till. um, henti bezt að öllu leyti. En um það hef ég einungis það að segja, að þetta frv. er samið af þrem hinum færustu mönnum í þessum efnum, þeim Einari Arnórssyni, Gissuri Bergsteinssyni og Jónatan Hallvarðssyni, og ég veit, að þeir ganga að verkum sínum með miklum áhuga og dugnaði. Ég tel frv. í heild mjög vel samið, og ætti það ekki verulega að þurfa að standa í mönnum, nema þá þessi kostnaðaratriði, sem, eins og ég sagði, á að vera auðvelt að kippa úr frv., ef menn treysta sér ekki til að taka þessar byrðar á ríkissjóð.

Ég hef farið þessum orðum um frv. til þess að hvetja hv. d. og þá n., sem fær málið til meðferðar, til þess að afgreiða málið á þessu þingi, og sú meðferð, sem málið fékk hjá hv. n. í fyrra, hlýtur að geta orðið góður grundvöllur til þess, að hún geti skjótlega afgr. málið frá sér að þessu sinni. Ég legg til, að málinu sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.