21.02.1950
Neðri deild: 49. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

37. mál, sveitarstjórar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. (GÞG) talaði hér áðan. Hann sagði, að ég hefði brugðið á leik. Ekki segi ég það sama um hann, því að alvaran er alltaf ofan á hjá honum, og hún réð hér eins og venjulega. Hann fór að reyna að draga markalínu milli hreppa og kaupstaða, og hann sagði, að það væri tvennt ólíkt, venjuleg framkvæmdastörf í sveitarfélögum og pólitísk umboðsstörf og það gæti verið eðlilegt, að væntanlegir sveitarstjórar væru fastráðnir starfsmenn, en ekki ráðnir aðeins fyrir eitt kjörtímabil í senn. Það gæti verið eðlilegt vegna þess, að þar væri um svo lítið starf að ræða, að það væri ekki verk nema fyrir einn mann, framkvæmdarstörfin og pólitísk umboðsstörf jafnframt. Öðru máli væri að gegna um kaupstaðina, því að þar væri eðlilegt, að þessu væri skipt niður á fleiri starfsmenn, en einn. Nú held ég, að þarna sé ákaflega erfitt að draga glögga markalínu á milli. Ég skal taka dæmi um það. Á þessu þingi var verið að setja l. um nýjan kaupstað, Húsavík. Ég býst við, að það hafi ekki fjölgað mjög fólki þar frá þeirri stund, sem þetta var samþ. hér, a. m. k. ekki til stórra muna, og þau störf, sem bæjarstjóri hefur þar að gegna fyrst um sinn, séu svipuð og það, sem oddviti hefur haft áður. Ég sé því ekki, að aðstaðan hafi breytzt mikið, þótt hreppur sé gerður að kaupstað.

Ég skal taka annað dæmi þessu til skýringar. Ég held, að það sé áreiðanlegt, að fámennustu kaupstaðirnir, a. m. k. fámennasti kaupstaðurinn, hafi færri íbúa en sumir kauptúnahreppar, og ég geri ekki ráð fyrir, að bæjarstjórastarfið í fámennasta kaupstaðnum sé umfangsmeira en oddvitastarfið í kauptúnahreppum, sem eru fjölmennari en minnstu bæjarfélögin. Ég held sem sagt, að þessi markalína hljóti að vera mjög óglögg. Ég heyrði ekkert í ræðu hv. 3. landsk., sem hnekkir þeirri skoðun, sem ég hélt fram, að það sé eðlilegt, ef sveitarráðsmenn eiga að vera ráðnir til lífstíðar, að þá ætti það einnig að gilda um bæjarstjóra.

Annars skal ég ekki fara út í frekari rökræður, en leyfa mér að afhenda hæstv. forseta skriflega brtt. Hún er við 4. brtt. n. á þskj. 337 og hljóðar svo: „Við 4. brtt. Orðin „Ekki er heimilt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil hreppsnefndar né önnur ákveðin tímamörk“ falli niður.“ Þessi málsliður brtt. er alveg samhljóða ákvæðum 3. gr. frv., eins og það liggur fyrir frá fyrrv. ríkisstj. Ég hef áður talað um það, að ég álít óeðlilegt, að sett sé ákvæði um ráðningartíma þessa væntanlegt sveitarstjóra, en allt annað ætti að gilda, þegar um kaupstaði er að ræða. Þess vegna tel ég það réttara að fella þennan málslið niður. Hins vegar tel ég rétt, að ákvæðið um 6 mánaða uppsagnarfrest verði látið standa, því að þá er fyrirbyggt, að hreppsnefnd geti ráðið sveitarstjóra til lengri tíma, svo að ekki sé hægt fyrir nýja hreppsnefnd að rifta því.

Ég fæ ekki heldur séð, að þessi næstsíðasti málsliður, sem ég vil fella niður, hafi mikla þýðingu, vegna þess sem á eftir kemur, því að þar er sagt, að segja megi upp með 6 mánaða fyrirvara. Ég tel því eðlilegt, að þessi málsliður sé ekki samþ., heldur felldur niður.