27.03.1950
Efri deild: 81. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2720)

37. mál, sveitarstjórar

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þegar frv. þetta var fyrst borið fram á Alþ., þá var í 1. gr. þess ákvæði um, að það skyldi vera skylda þeirra kauptúnshreppa, sem hefðu fleiri en 500 íbúa, að ráða sérstakan sveitarráðsmann, eins og þetta embætti var nefnt í frv. fyrst. Meginatriði frv. og allar aðrar gr. þess mörkuðust af fyrirmælum þessarar 1. gr. Í meðferð hv. Nd. á frv. var þessu breytt þannig, að í 1. gr. er tekin út skyldan um að hafa sveitarráðsmann — eða sveitarstjóra, eins og það nú er kallað þar — fyrir þá hreppa, sem hafa yfir 500 íbúa, og sett í staðinn það ákvæði, að þetta skuli vera heimilt. Með þessu er frv. í raun og veru gerbreytt, og þegar svo er komið, þá er ekki lengur ástæða til að halda ýmsum ákvæðum, sem voru í upphaflega frv., þegar búið er að breyta svona þessu meginákvæði frv. Það er ekki lengur ástæða til að halda ýmsum ákvæðum þess eins og gert er á þskj. 387 og eins og gengið er frá því af hv. Nd. Hér er nú um heimild að ræða aðeins, og því er ekki ástæða til að halda þessari heimild einungis fyrir þá hreppa, sem hafa yfir 500 íbúa, heldur á að taka þetta almennt og gefa heimild þessa almennt til allra hreppa í landinu. Það segir sig sjálft, að þegar heimild er um að ræða í þessu efni, en ekki skyldu, þá er ekki ástæða til að binda þetta einungis við þessa tölu, 500, því að hreppur með 499 íbúa getur haft meiri þörf fyrir þetta en hreppur með 501 íbúa. 1. tölul. brtt. minni hl. n. er því sá, að 1. gr. frv. verði breytt þannig, að hún hljóði svo: „Heimilt er hreppsnefnd að fela sérstökum sveitarstjóra stjórn og framkvæmd hreppsmála,“ þannig að þetta sé almenn heimild fyrir hvaða hrepp sem er í landinu, sem hreppsnefnd geti ráðið, hvort hún notar eða ekki. Minni hl. n. telur, að þetta sé rétt og nauðsynlegt og að engin ástæða sé til þess að binda þetta við 500 íbúa. Ég vænti þess, að þessi brtt. verði samþ. Þegar málið er komið í það horf, er að áliti minni hl. n. ekki þörf á að gera allar þær ráðstafanir aðrar, sem gert er ráð fyrir í frv. Þess vegna leggur minni hl. n. til, að ýmis þau ákvæði, sem eru í frv. á þskj. 387, verði felld niður. Skal ég nokkuð koma að því.

Í brtt. minni hl. n. er gert ráð fyrir því, að 3. málsl. 3. gr. frv. falli niður, þ. e. árslaunaákvæðið, um að laun sveitarstjóranna séu ekki lægri en 5 þús. kr., auk lögboðinnar verðlagsuppbótar, o. s. frv. Þetta sér minni hl. n. ekki ástæðu til, að sé látið haldast í frv. eða hafa í l., og telur beinlínis rangt að hafa það þar. Og það er að sjálfsögðu alveg rangt að hafa það þar, ef heimildin er rýmkuð þannig, að hún nái til allra hreppa, án tillits til fólksfjölda sérstaklega. Eins og nú eru ákvæði 3. gr., þá er tiltekið þar, að launakjörin skuli ákveðin með ráðningarsamningi. Og þegar þetta er tekið fram í l., að slíkt skuli gera í ráðningarsamningi, er ekki ástæða til að hafa ákvæði í sömu l. um, að launin megi ekki fara niður fyrir eitthvert lágmark, því að þetta er samningsatriði á milli sveitarstjóra annars vegar og hreppsn. hins vegar, hvaða laun eru ákveðin þarna. Minni hl. n. leggur til, að þessi liður falli niður. — Sömuleiðis leggur minni hl. n. til, að 4. málsl. falli niður úr þessari 3. gr. frv.: „Ekki er skylt að binda ráðningu sveitarstjóra við kjörtímabil hreppsnefndar eða önnur tímatakmörk.“ Minni hl. n. sér ekki heldur ástæðu til að hafa þetta í l. Þetta atriði er hægt og líka eðlilegt að taka upp í ráðningarsamninginn, og því er ekki ástæða til að setja þetta inn í l., enda stendur í gr., að uppsagnarfrestur sé sex mánuðir, og þá er ekki ástæða til að setja aðrar takmarkanir í þessu efni í l. sjálf. Minni hl. n. væntir þess, að þessar brtt. verði samþ. — Þá leggur minni hl. til, í 3. tölul. brtt. sinna við 4. gr., að síðari málsgr. falli niður, sem er svo hljóðandi: „Að öðru leyti skal starfssvið sveitarstjóra og verkaskipting milli hans og oddvita nánar ákveðin í samþykkt um stjórn málefna hreppsins, sem hreppsnefnd semur, en félagsmálaráðuneytið staðfestir. Birta skal slíka samþykkt í B-deild Stjórnartíðinda.“ Minni hl. sér ekki ástæðu til að taka þetta inn í l., heldur telur hann, að þetta sé atriði, sem ákveðið eigi að vera með samningi samkv. 3. gr. Þetta ákvæði í frv. hér, um að þessa samninga skuli birta í B-deild Stjtíð., telur minni hl. n. alveg óþarft, að fylla dálka Stjtíð. með slíkum samningum, sem gerðir eru á milli hreppa annars vegar og viðkomandi aðila hins vegar, eins og hér er gert ráð fyrir, og telur, að ekki þurfi að birta þessa samninga þar, heldur nægi að gera þá án þess, og leggur því til, að þessi málsgr. falli niður. — 4. liður í brtt. minni hl. n. er við 5. gr. frv., um að síðari málsgr. falli niður, en hún hljóðar svo: „Nú er hreppsnefndarmaður kjörinn sveitarstjóri, og fellur þá niður umboð hans sem hreppsnefndarmanns þann tíma, er hann gegnir sveitarstjórastarfi, en varamaður hans tekur sæti í hreppsnefndinni.“ Minni hl. n. lítur svo á, að hér sé um hreinustu fjarstæðu að ræða, að gera kröfu um, að þó að einum hreppsnefndarmanninum sé falið að gegna sveitarstjórastarfi, þá skuli hann ekki lengur mega hafa rétt til að vera í hreppsnefnd eða hafa atkv. í hreppsn. Minni hl. n. lítur svo á, að þessi maður sé miklu færari til þess að gera út um málefni hreppsins en hinir, sem eru í hreppsnefndinni, enda átti hér í Reykjavík í mörg ár borgarstjórinn sæti í bæjarstjórninni og átti atkvæðisrétt þar um öll mál. Við í minni hl. n. sjáum því ekki ástæðu til að hafa þetta ákvæði í l. og álítum, að það sé til hins lakara, og leggjum til, að það verði fellt niður. — Við 7. gr. er brtt. frá minni hl. n., um að sú gr. verði alveg felld niður, en sú gr. hljóðar þannig:

„Nú verður sveitarstjóri sekur um stórfellda eða ítrekaða vanrækslu eða hirðuleysi í starfa sinum eða skeytir ekki áminningu hreppsnefndar, og getur hún þá með fundarsamþykkt vikið honum frá störfum, en tilkynna skal félagsmálaráðuneytinu þegar frávikninguna. Oddviti tekur þá við störfum sveitarstjóra til bráðabirgða, meðan ráðuneytið rannsakar misklíðarefnið, og gegnir oddviti starfanum, unz sveitarstjóri hefur tekið við starfa sínum aftur eða nýr sveitarstjóri hefur verið ráðinn.“

Við teljum, að þetta sé samningsatriði á milli þeirra tveggja aðila, sem hér er um að ræða, og megi binda það í samningi og eigi að binda það í samningi samkv. 3. gr., fyrir hvaða sakir slíkum aðila skuli víkja úr starfi. Og við sjáum ekki ástæðu til, að þetta ákvæði 7. gr. sé sett í þessi l. frekar en almennt um embættismenn. Við viljum því láta þessa gr. falla niður.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta nánar. Þetta er ekki stórmál. Ef brtt. okkar í minni hl. n. verða samþ., liggur það hreint fyrir, að þetta eru heimildarlög fyrir hreppana til að mega ráða til sín sveitarstjóra, eftir því sem þörf krefur, og það teljum við nægilegt, án þess að það þurfi meiri umbúðir um þau mál. Og það var óskað eftir því á sínum tíma, að hrepparnir fengju leyfi til að ráða til sín þennan mann og þeir væru sjálfráðir um, hvaða samninga þeir gerðu við hann hjá sér. Nú hefði kannske verið ástæða til þess, að þetta hefði verið borið fram sem breyt. við sveitarstjórnarl., en hér hefur nú verið flutt sérstakt frv. um þetta, og minni hl. n. sér ekki ástæðu til að ákveða frekar um þetta, en eftir okkar brtt.