28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

58. mál, ríkisborgararéttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mig langar til að fá gleggri upplýsingar hjá hv. frsm. allshn. um það úrval, sem n. hefur gert á umsóknum þeim, sem fyrir hafa legið. Hann talaði um, að menn þeir, sem væru af þýzkum uppruna, væru aðeins menn, sem hefðu hið bezta orð á sér, og varðandi hina, sem skildir hefðu verið eftir af þeim, sem sótt hefðu um ríkisborgararétt, þá væri þar um menn að ræða, sem eitthvað athugavert væri við, dvalartími þeirra hefði slitnað sundur eða þ. u. l. Ég er hræddur um, að þetta mál þurfi betri rannsóknar með. Ég vil t. d. spyrja um, hvernig á því standi, að sá aðili, sem er nr. 11 í nál. á þskj. 487, Max Keil, skuli fá íslenzkan ríkisborgararétt. Ég býst ekki við, að hann hafi verið allan þann tíma hér á landi, sem krafizt er, og vildi vita, hvers konar upplýsingar hafi legið fyrir í umsókn hans.

Þá talaði hv. frsm. allshn. um það, að fyrir flestum þeirra, sem n. hafi verið sammála um að veita ríkisborgararétt, hefði Ísland verið föðurland. Ég vil nú spyrja, hvort það yrði rétt, ef á reyndi. Ég held, að við verðum að vera ofurlítið gætnir í þessu, og satt að segja hefur verið sýnd svo mikil gætni eða íhaldssemi af hv. allshn., að undanfarin ár hefur hún ekki fengizt til að leggja til, að menn, er dvalizt hafa hér á landi í 10–12 ár, eigi gert sig seka um neitt, lifað sem Íslendingar og tala málið, fengju ríkisborgararétt. Þeim hefur verið neitað um hann. Ég býst við, að sumar umsóknir, sem legið hafa fyrir, hafi verið frá þessu fólki, og þætti mér vænt um að fá upplýsingar um það. Það getur ekki gengið að gera þannig upp á milli manna, að sé einhver maður þekktur sem nazisti, þá sé sjálfsagt að veita honum ríkisborgararétt, en sé hann verkamaður og innan verkalýðshreyfingarinnar, þá eigi að útiloka hann frá honum, þó að hann annars uppfylli öll skilyrði. A. m. k. hagar svo til um þann mann, er ég nefndi, að rétt er, að slitnað hefur sundur dvöl hans hér á landi, og ég held, að þetta mál þyrfti að athuga vel, áður en lagt sé til um þá menn, sem sérstaklega stendur á um, að þeim sé veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. Við vitum, að margir umsækjendur hafa bætzt við af þýzkum uppruna. Mér hefur verið sagt, að upp undir 40 þýzkar stúlkur, sem komið hafa hingað til lands á vegum búnaðarsamtakanna og eru nú giftar, hafi öðlazt íslenzkan ríkisborgararétt, og það er full ástæða til fyrir okkur, þótt ég vilji engan veginn taka afstöðu á móti Þjóðverjum almennt, að athuga þessi mál. En það er ekki ánægjulegt að vera á fundi í deildinni að ræða persónulega afstöðu einstakra manna, og yrði það heldur kosið, þá vildi ég ræða við hv. allshn. um þær till., sem þar liggja fyrir. Svo er hitt, að það er alltaf leiðinlegt að taka persónuleg mál til meðferðar á opinberum vettvangi. Ég vildi m. ö. o. ræða um þessa menn, áður en greidd verða atkv. um þá. Það fer eftir upplýsingum hv. n. um þessa menn, hvort legið hafi fyrir þær upplýsingar, sem ættu að liggja fyrir frá íslenzkum stjórnarvöldum. Getur hv. form. n. upplýst þetta. Ég vildi þó leggja til, að einn til tveir menn yrðu felldir brott og aðrir teknir í staðinn, þeir er öðlazt hafa alveg ótvíræðan rétt, sem 10–12 ára dvöl veitir, unnið hér og starfað og þar með öðlazt rétt til að verða íslenzkir ríkisborgarar.

Mér þætti því vænt um að fá þessar upplýsingar. En sé ekki talið heppilegt að ræða þessa menn hér sérstaklega, er ég viðbúinn til að ræða u.m þá við form. n. eða n. alla.