28.03.1950
Neðri deild: 76. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

58. mál, ríkisborgararéttur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það mun vera rétt, sem hv. frsm. minntist á um 10 ára búsetu þeirra, sem hér er lagt til, að öðlist íslenzkan ríkisborgararétt. Hinu tók ég ekki eftir, að hann leiddi athygli að því, að búseta þriggja umsækjendanna sennilega hefur slitnað í sundur um alllangt skeið, þannig að þeir uppfylla alls ekki það, sem gert er ráð fyrir í l., að þeir þurfi að uppfylla, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Veita má mönnum ríkisborgararétt með lögum, en þó því aðeins, að þeir hafi verið búsettir hér á landi samfleytt 10 ár hin næstu áður, en þeir beiddust ríkisborgararéttar.“ Með því að leggja til, að þessir þrír sem ég gat um áðan, fái hér ríkisborgararétt, þá er Alþ. að víkja frá reglu í þessum l. Það er ekki til neins fyrir hv. frsm. að neita því. Annað mál er það, hvort honum finnst ákaflega áríðandi fyrir íslenzka ríkið eða af öðrum ástæðum nauðsynlegt að víkja frá þessari reglu, eða rétt af því, að þessir menn voru fluttir úr landi, ekki fríviljuglega. En út frá þessari reglu er verið að víkja, og það þýðir ekki að reyna að draga dul á það, þó að hv. frsm. þyki kannske rétt, að það sé gert.