10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir það, að hv. fjhn. hefur leitazt við að sýna lit í þessu stórmáli, en hefði þó kannske átt að vona, að það hefði orðið fyrr, svo mikil áherzla sem var á það lögð af þingflokkunum, að ríkisstj. kæmi með till., jafnvel um sjálfa jólahelgina. Þá hefði einnig mátt ætla, að einhverjir mundu koma með till. um þetta efni, á þessum grundvelli, svo að þeir, sem við eiga að búa, gætu fengið tryggingu, er við mætti una.

Nú sýnist mér það ekki vera umdeilt, að undirbúningur ríkisstj. hafi verið á þann veg, að engan veginn hefur verið tekið undir fyllstu kröfur, er fyrir lágu, heldur hafi hún leitazt við að stilla þeim í hóf, áður en hún lagði þær fyrir hv. Alþ. Það virðist horfa þannig við, að hv. fjárhagsnefndarmenn, og líklega þá einnig þeir flokkar, sem að þeim standa, líti allmisjöfnum augum á þessa ábyrgð. Það hafa myndazt ýmsar samfylkingar um brtt. á hinum ýmsu þskj.: Alþfl.-menn og kommúnistar, framsóknarmenn og kommúnistar og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn á einstaka. Um þau atriði, sem n. hefur orðið sammála um, má heita, að sé fullt samkomulag í hv. d., og um þær breyt., sem hún leggur til, að gerðar verði, og birtast á þskj. 177 og teljast mega réttmætar eftir atvikum. En n. hefur komizt að þeirri niðurstöðu um ábyrgðarverð á saltfiski, að þar væri fullhart í reikningnum gengið, en upphaflega er við það miðað, að saltverð hafi minnkað, en flutningskostnaður hins vegar aukizt sem því nemur. Það mun þó sönnu nær að hafa ábyrgðina eins og lagt er til í brtt.

Þá er það sjálf ábyrgðin. Mér skilst, að hv. 2. þm. Reykv. vilji ganga lengst og láta ábyrgðina gilda fyrir allt árið. Þar næst er það svo frv. sjálft og till. hv. þm. V-Húnv., sem vill ganga jafnlangt og í frv. segir, hvað ábyrgðina áhrærir. Svo er það hv. form. fjhn., þm. V-Ísf. (ÁÁ), sem ekki vill taka lengri ábyrgð, en til 1. marz. Þó hefur hann gefið þá yfirlýsingu fyrir sjálfan sig og flokksbræður sína, að ef ekki væru á því tímabili komnar fram aðrar heildarráðstafanir, sem gerðu ábyrgðina óþarfa, þá mundi hann vera með áframhaldandi ábyrgð. Í samræmi við till. sína um, að 12. gr. félli niður, vill hann einnig láta fella 14. gr., en hún fjallar um tekjuöflun til þess að standa undir þessum skuldbindingum.

Mér skilst, að bæði hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. V-Húnv. vilji láta ábyrgðina standa áfram eftir 1. marz, hv. þm. V-Húnv. til vertíðarloka, 15. maí, en hinn allt árið. En báðir eru á því að fella í burtu 14. gr., og virðist þá sem þeir vilji láta lögfesta ábyrgð, láta Alþingi gefa fyrirheit um að styrkja bátaútveginn með milljónaframlagi, en gera hins vegar ekkert ráð fyrir neinni tekjuöflunarleið til þess að standa undir þessum útgjöldum. Í þessu sambandi vil ég minnast á till. um kjötábyrgðina og taka fram, að ég skal ekki hafa á móti henni.

Þegar um er að ræða að gera ráðstafanir til þess að gera það fært fyrir bátaútveginn að hefja veiðar, og á það hefur verið lögð mikil áherzla, bæði núna fyrir áramótin og fyrr, af Alþfl. og Framsfl., þá er það undarlegt, þegar sá þessara flokka, sem hvað mesta áherzlu lagði á skjóta úrlausn, vill kippa öllum fjárhagsgrundvellinum undan og sigla þannig í kjölfar hv. 2. þm. Reykv.

Hv. 2. þm. Reykv, minntist á afstöðu bankanna til þessa máls. Ég get sagt hv. þdm. það, að það hefur verið rætt við bankastjóra þjóðbankans af hv. n., og ég hef rætt við bankastjóra Útvegsbankans um lán til útgerðarinnar, og kom það þá í ljós mjög skýrt, sérstaklega þó hjá bankastjóra Útvegsbankans, að þeir mundu miða gerðir sínar við það, hvað Alþ. mundi gera í þessu máli. Það getur vel verið, að bönkunum þyki nægilega frá þessu gengið í frv., en hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. V-Húnv. vilja, að þingið lofi þessari ábyrgð án þess að tryggðar séu tekjur til þess að standa undir skuldbindingunum, en ég efast þó um, að bönkunum finnist nægilega og forsvaranlega frá þessu gengið.

Við 1. umr. þessa máls var mikið mál í það borið, að í frv. væri ofreiknaður sá kostnaður, sem af ábyrgðinni stafaði. Ég sagði það þá, að við skyldum ekki eyða of miklum tíma í það í d. að ræða það, því að hv. fjhn. mundi verða séð fyrir öllum gögnum, sem ríkisstj. hefði haft undir höndum, og gæti þá hv. fjhn. gengið úr skugga um, hvort of í lagt væri. Ég ætla nú, að það hafi komið fram á fundum hv. fjhn., að engin ástæða var til þess að vefengja þær tölur, sem ég lét eftir mér hafa við 1. umr. málsins. Enn fremur mikluðu sumir hv. þm. það mjög fyrir sér við 1. umr., hversu þung skattakrafa sú væri, er lögfesta skyldi til þess að standa straum af þeim útgjöldum, sem mæta átti, og gekk það svo langt, að einn hv. þm. fullyrti, að ríkisstj. væri þarna að heimta þrefaldar tekjur á við það, sem ábyrgzt væri. Eins og hv. þm. vita, er ekki í fjárlfrv., eins og það liggur fyrir, gert ráð fyrir neinum útgjöldum vegna fiskábyrgðarinnar. Þess vegna var fyllilega réttmætt að ganga út frá því, ef á að taka þá ábyrgð, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að gera ráð fyrir fiskábyrgðinni eins og hún var á s.l. ári, að viðbættri þeirri hækkun, sem menn hafa orðið sannfærðir um, að væri það minnsta, sem bátaflotinn, hraðfrystihúsin og saltendur þyrftu að fá. Það var talið, að þetta mundi nema 42 millj. kr. Þessi tala mun láta nærri að vera rétt, og hv. fjhn. hefur nú haft tækifæri til þess að sannfærast um það rétta í málinu. Þá var einnig við 1. umr. málsins reynt að færa rök að því, að söluskatturinn í frv. því, sem fyrir liggur, væri allur ætlaður til að standa undir fiskábyrgðinni. En svo er ekki. Í fjárlfrv. er stór tekjuliður miðaður við þann söluskatt, sem var í gildi s.l. ár, sem er 6% af tollverði innfluttrar vöru. Hann er talinn þar í tekjum, og útgjöld frv. eru miðuð við, að hann sé áframhaldandi í gildi, og í útgjaldaliðum fjárlfrv. er enginn eyrir fyrir fiskábyrgðinni. Þess vegna er það, að þegar talað var um söluskattinn, eins og ráð var fyrir gert, að hann þyrfti að vera, þá hefði réttmæt gagnrýni átt að draga frá þau, 6%, sem þegar eru komin í fjárlfrv. Það var ekki gert, heldur var hafður í frammi áróður til að gera skattaálögurnar miklu meiri í augum fólksins, en þær í raun og veru voru og til að skapa andúð gegn frv. Þetta liggur nú allt skýrara fyrir, og eins og ég minntist á, þá hafa nm., að undanskildum fulltrúum Sjálfstfl., lagt það til, að ábyrgðin héldist, en að fjáröflunarmöguleikunum væri kippt í burtu. Sjálfstæðismenn vilja hins vegar fylgja sinni stj. í því að freista þess að afgreiða þetta mál á ábyrgan hátt eins og venja hefur verið eða eins og gerð var tilraun til að gera á síðasta Alþ. Ríkisstj. hefur ekki bolmagn til þess að lögfesta sínar kröfur eingöngu með tilstyrk síns eigin flokks, og verður það þess vegna Alþingis að taka ábyrgð á því, sem hér kann fram að fara. Ef Alþ. velur þann kost að samþykkja ábyrgðina fyrir allt árið, án þess að gera neinar ráðstafanir til þess að standa undir kostnaðarhliðinni, eins og hv. 2. þm. Reykv. leggur til og að því er mér virðist hv. þm. V-Húnv. líka, þá verður það fram að fara. Ég skal á þessu stigi málsins engu um það spá, hvort fulltrúar útvegsmanna telja sig bættari með þá afgreiðslu málsins, sem hér virðist vera stefnt að. Í viðtölum sínum við ríkisstj. héldu þeir því fast fram, að ábyrgðin a.m.k. gilti til miðs maímánaðar. Þeir létu svo auðvitað ríkisstj. hitt eftir, að gera till. um það, á hvern hátt yrði undir slíkum ábyrgðum staðið, og hún hefur sýnt viðleitni í því efni, eins og fyrir liggur í frv. því, sem er hér til umr. Verður það nú Alþingis að kveða á um það, hver afdrif frv. verða, hvað það snertir.

Ég sé ekki ástæðu til að gera að umræðuefni hina löngu og heimspekilegu markaðsræðu hv. 2. þm. Reykv. við þessa umr., því að það gæti orðið til að tefja mjög afgreiðslu málsins, sem ég og ríkisstj. öll hefur lagt áherzlu, á að tefja ekki og sömuleiðis lagt áherzlu á að undirbúa svo forsvaranlega fyrir Alþ., að það gæti tekið sínar ákvarðanir fljótlega, og svo fljótt, að engin stöðvun hlytist af drætti málsins hér á Alþ. Hitt er svo annað mál, að fyrir ríkisstj. hefur það ávallt vakað, að þetta væri bráðabirgðalausn, sem borin er fram jafnhliða von um, að heildarlausn náist, eins og margsinnis hefur komið fram. Mér heyrist líka á ræðum ýmissa þm. nú, að það liggi í loftinu eða sé nokkuð fast í hugum manna, að slík heildarlausn þurfi að nást. Hitt var samt sem áður álit okkar í ríkisstj., að jafnvel þótt um bráðabirgðaráðstöfun væri að ræða eða ráðstöfun, sem við vildum láta verða bráðabirgðaráðstöfun, þá væri það ekki verjandi að leggja þessar till. fram, svo þýðingarmiklar sem þær eru fyrir þennan stóra atvinnuveg, án þess að á það væri bent, hvernig sá kostnaður yrði uppi borinn, sem ríkissjóður augsýnilega þyrfti á sig að taka.