09.01.1950
Neðri deild: 24. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2954)

74. mál, verkamannabústaðir

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég get í raun og veru þakkað hæstv. fjmrh. fyrir vinsamlegar undirtektir við meginefni þess frv., sem hér liggur fyrir. Sem fjmrh. vill hann að vísu benda á þau vandkvæði, sem kynnu að vera til staðar við framkvæmd þessarar löggjafar. Hann nefndi sem dæmi, að nú væri gagnslítið að leita til opinberra sjóða um lán til byggingarsamvinnufélaga. Mér er kunnugt um, að þetta er rétt. Á þessu hafa verið mjög miklir, erfiðleikar og farið vaxandi. En hvað sem líður ágæti samvinnubyggingarfélaga, — sem ég vil ekki draga í efa, — þá álít ég þó, að af þjóðfélagslegum ástæðum, — ef flokka ætti íbúðir niður, — þá ættu verkamannabústaðirnir að vera í fyrsta flokki. Þeir hafa reynzt ódýrastir og hentugastir og eru alveg lausir við þá ágalla, sem hafa fylgt mörgum öðrum byggingum og ég hef áður minnzt á. Ég hygg, að ég tali þar af nokkurri reynslu; að hverri ríkisstj, ætti að vera það kærkomið að fá í sínar hendur heimild til að hafa áhrif á að láta lánveitingar úr þessum sjóðum og stofnunum ganga fyrst og fremst til jafnhagnýtra og nauðsynlegra framkvæmda eins og bygging verkamannabústaða er. Ég hygg það rétt vera, að of lítið eftirlit hafi verið haft af hálfu ríkisvaldsins með þeim sjóðum og stofnunum, sem samkvæmt eðli sínu og starfsemi fást við útlán, og þetta, sem hér er lagt til, ætti að geta orðið eitt skref í þá átt, að aukið yrði það eftirlit. Að öðru leyti þarf ég ekki í tilefni af ræðu hæstv. ráðh. að ræða þetta meir, en mér þótti vænt um, að hann hefur lýst yfir velvild til málsins, og vona ég, að undirtektir annarra verði á líka lund og ekki lakari.