20.03.1950
Neðri deild: 71. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (2979)

85. mál, eyðing refa og minka

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég vil nú láta í ljós þakklæti mitt við hv. meiri hl. landbn. fyrir afgreiðslu hans á þessu frv., því að enda þótt hv. nm. hafi ekki fallizt á öll ákvæði frv., þá hefur meiri hl. fallizt á meginatriði þess og það, sem mestu máli skiptir, um verkanir þess í framtíðinni, ef verða mætti, að létt verði af þessari plágu, sem nú hefur breiðzt um allmikinn hluta landsins og líkur eru til, að breiðist um land allt, ef ekki verður unnið rækilega að útrýmingu þessara skaðræðisdýra.

Ég sé að vísu, að n. vill draga nokkuð úr kostnaði ríkissjóðs af útrýmingunni og færa lítið eitt niður það gjald, sem þeim mönnum er greitt, er dýrin vinna utan ráðningartíma síns. Þetta er ekki stórvægilegt og getur ekki skipt ýkja miklu máli. Hins vegar er ég sannfærður um það, að þeir menn, sem að útrýmingunni starfa, bera ekki úr býtum nema brot af því, sem svarar fyrirhöfn þeirra. Eigi að síður vil ég ekki gera of mikið úr þessu. Ég þykist ekki vera svo haldinn af því að gefa ekki fullar gætur að getu ríkissjóðs, en hann er nú svo staddur um skeið, að það er lítið, sem dregur hann. Og sú tilfærsla, sem hv. meiri hl. gerir hér, getur aldrei skipt höfuðmáli um tilgang þessa frv. Þeir, sem að útrýmingunni vinna, verða hvort sem er svo mikið í sölurnar að leggja, að þá munar ekki miklu, þótt hlutur þeirra sé með þessu svolítið skertur. Því miður sé ég, að landbn. hefur þó ekki getað haldið hópinn að fullu, og enn eru þar til menn, sem ekki geta fallizt á þá öryggisráðstöfun að banna minkaeldi í landinu. Frá þeirra sjónarmiði hefði þó ekki átt að gera þessa sparnaðartillögu. Þeir vita, að þeir, sem kunna að líða vegna þessarar plágu framvegis og hafa gert hingað til, búa við nógu rýran hlut, þótt hann sé ekki með þessu skertur. Og mér hefði fundizt frá þeirra sjónarmiði, að þeir hefðu ekki átt að leggja til, að rýrt væri framlag til þeirra, sem mesta fyrirhöfn þola af þessari plágu. En vitaskuld hafa þeir um þetta sínar skoðanir sem um annað, og er ekki um það að sakast. Ég mun nú, eins og ég hef látið í ljós, ekki gera þessi atriði frekar að umtalsefni né gera mjög mikið úr þeim. — Það fer að vísu saman, að þeir, sem verða fyrir mestu tjóni af þessari plágu, fá þarna rýrðan hlut. En vafalítið kemur líka öll þjóðin til með að líða fyrir það, ef þetta verður til þess, að miður gangi um útrýmingu á þeim vágesti, sem villiminkurinn er.

Mér þótti vænt um það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði. Honum hefur skilizt, að við verðum að gera okkar ýtrasta til þess að ráða bót á þessu og að svo búið má ekki lengur standa. Því fleiri sem átta sig á þeirri staðreynd, því betra. Hv. 2. þm. Skagf. vék hér nokkrum orðum að þessu. Hann gerir till. um það ásamt hæstv. forsrh. að banna ekki minkaeldi, og taldi hann, að frá því fyrst var um málið rætt, hefði ekkert nýtt komið fram í því. Þetta er ekki að öllu leyti rétt. Eftir því sem tíminn hefur liðið, hefur komið betur og betur í ljós, hvert skaðræði er að þessu dýri og hve útbreiðsla þess fer hraðvaxandi. Fyrst þegar byrjað var að ræða þetta mál, var útbreiðsla þess bundin við suðurlandið, Gullbringu- og Kjósarsýslu og aðeins nokkurn hluta Borgarfjarðar. Nú hefur þessi plága breiðzt út um allt Suður- og Vesturland, og jafnvel austur í Skaftafellssýslur, og ekki er víst, að það líði á löngu, að hún breiðist norður yfir heiðar Holtavörðuheiði og Tvídægru. Tíminn mun leiða í ljós, hvort Strandamenn og Húnvetningar verði eigi fljótlega dýranna varir. Það er staðhæft, að seinni árin hafi þetta dýr eigi sloppið út úr búrunum, þessi nýja tegund hafi eigi sloppið, þegar menn fóru að ganga betur frá henni í búrunum. Ég held þó, að þetta sé alveg rangt, og hv. meðflm. minn veit deili á því, að þessi seinni tegund hefur veiðzt. Ég er eigi sjálfur fróður um þetta, en eftir upplýsingum frá hv. þm. Snæf. um útbreiðslu tegundarinnar kemur í ljós, að tvö dýr, sem unnin voru heima hjá mér á s. l. sumri, voru af þessum nýja stofni. Eftir litnum og hárafarinu er það þessi dökkbrúna tegund. Hef ég heyrt fleiri tala um þetta, enda gefur auga leið, hversu mikil fjarstæða það er, að þau hafi ekki sloppið út. Bæði Norðmenn og Svíar vissu, hver hætta var á ferðum, ef dýrin slyppu út, þegar þeir fluttu þau inn. Nú horfir til vandræða í þessum löndum, og í Noregi ægir minkurinn hlunnindunum, svo að hann er nú kallaður landplága. Ég hef séð lýsingu á aðförum þessa dýrs í norsku tímariti, og segir þar, að það stefni til landplágu, ef eigi verði rönd við reist og það heppnist ekki að vinna bug á þessu dýri. Þar við bætist, að dýrið hefur þar, sem það hefur verið lengst, eyðilagt fuglalíf, að það hefur lagzt á sauðfé, unglömbin. Ég hef séð hér og þar í opinberum skýrslum, að engar sannanir séu fyrir slíku, en fávíslegt er af mönnum að bíða eftir því, þar sem hægt er að sanna hið gagnstæða. En seilzt er til að hindra það, að endi sé bundinn á eldi þessa dýrs í landinu. Það munu dæmi til þess hér á landi, að minkurinn hafi snert sauðfé. Annars finnst mér ekki nauðsynlegt að bíða eftir því. Ég ætla, að nóg sé það, sem komið er.

Hv. frsm. minni hl. gat þess, að loðdýraskinnasalan ætti nú erfitt uppdráttar. Við höfum séð það á opinberum skýrslum. En því þá að halda við þeim þættinum, er getur orsakað skemmdir á öðrum hlunnindum landsmanna? Það er hégómi að farga þessum dýrum nú, þegar borið er saman við það, sem þau geta spillt. Mundi t. d. eigi vera verðmæti í laxi? Íslendingar hafa haft tekjur af þeim útflutningi. Hvernig er með dúninn af landinu öllu? Þaðan koma verðmæti. Þessu er öllu stefnt í voða. Mundi eigi fara að skerðast um lax og silung í minni vötnum, þar sem eru hrygningarstaðirnir? Þetta er því enginn hégómi og áreiðanlega miklu meira virði, en nokkrir bjórar af loðdýrunum.

Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að hér væri um ofsatrú að ræða hjá okkur flm. Þetta hygg ég, að sé eigi rétt hjá honum: að við höfum staðhæft, að yrði lagt bann við minkaeldi í landinu, þá mundi útrýming dýranna heppnast. Hitt höfum við staðhæft, að til þess að menn vilji vinna að útrýmingu minka, þá sé eitt ráðið, að engin dýr séu í búrunum. Það eru eigi nema fullyrðingar, að minkurinn sleppi ekki út úr þeim, og eftir því, sem komið hefur í ljós um innfluttu tegundirnar, þá er sýnt um seinni tegundina, að hún hefur líka sloppið. Það er því eitt, þótt eigi sé þar bókstafleg sönnun, að draga má ýmsar ályktanir. Skyldum við verða „passasamari“ en Norðmenn og Svíar voru á sínum tíma? Hvernig fór það? Þeir ætluðu að gæta þess, að minkurinn slyppi ekki. Hér er um svo þaulsætið og vitiborið dýr að ræða, að það er hægara sagt en gert að hindra, að það sleppi út úr búrunum. Ég get nefnt dæmi. Maður einn í Árnesþingi átti hænsnabú. Hann hafði orðið fyrir heimsókn í húsið. Ætlaði hann nú að koma í veg fyrir það framvegis og gekk vel frá húsinu. M. a. klæddi hann það allt innan með vírneti. Hvergi var smuga, nema auðvitað þar, sem dyrnar voru, en frá þeim gekk hann rammbyggilega. Nú leið svo fullur hálfur mánuður, að ekkert bar til tíðinda. En einn morgun, þegar hann kemur í húsið, þá brá honum heldur en ekki í brún, mikið af hjörðinni dautt. Hann er stórvirkur og notinvirkur, minkurinn, um drápið, þar sem hann kemst til sláturstarfanna. Má hv. þm. Snæf. sanna það. Svo fer hann að rannsaka, hvernig dýrið hafi komizt inn, en finnur enga smugu, fyrr en hann sér í netinu á miðjum vegg í búrinu hleypimöskva, og þetta hefur minkurinn fundið. Þetta er sýnishorn af því, hvað dýrið er aðgætið og slungið að bjarga sér.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að hann sæi eigi ástæðu til að banna minkaeldi að svo stöddu. Það er gott, að þetta fylgdi með. En hvenær skyldi vera kominn tími til að banna minkaeldið? Hvað ætli hann þurfi að vera búinn að spilla miklu áður? Þeir segja, að dýrin séu í búrum. En þær staðhæfingar eru einskisverðar, — og ég undirstrika það. Þetta er búið að sýna sig, og menn eiga ekki að vera að veifa því, sem ekkert gildi hefur.

Hv. þm. Snæf. var úti áðan, þegar ég minntist á tegundirnar, sem eru tvær. En hann lýsti þeim, hvernig þær væru útlits. Þá kemur í ljós, eftir lýsingu hans, að á mínu heimili hafa tvö dýr verið drepin af þessari nýju tegund, dökkbrún á lit. Þetta var ég búinn að heyra. En sjón er sögu ríkari. Ég hef þá séð með eigin augum það dýr, sem aldrei átti að sleppa. Þarf ég því eigi að taka trúanlegt það, sem aðrir hafa sagt um þessi efni. — Hv. þm. Snæf. bætti við, að verið hefði að undanförnu hallarekstur á loðdýraræktinni. Nú virtist mér hann álíta, að hann færi að verða betri. Ég skal ekkert segja um það. Eitt er víst, að það verður hallarekstur að halda þessu dýri við varðandi aðrar nytjar landsmanna — á kostnað þeirra. Mér finnst rétt af okkur að vernda það, sem er víst til vinnings og skiptir máli fyrir þjóðarbúskap vorn, en vera eigi að tefla á tvær hættur, þótt hins vegar sé vonin veik um, að á honum verði ekki hallarekstur.

Ég mun svo eigi fjölyrða frekar um þetta mál.

Menn verða að velja sér þau viðhorf, sem þeir telja, að við eigi. Hv. þm. Snæf. mundi spara ríkissjóði mikið fé í bætur, ef allt minkaeldi í landinu yrði bannað. Ég hef þá von, að segja má trú, að þeir peningar borguðu sig vel, að verja þeim fyrst til upprætingar í búrunum og síðan til þeirra manna, sem vinna að útrýmingu minkanna á eftir. Í héraði mínu verða menn ófúsir til að leggja á sig að eltast við dýr þetta, meðan svo standa sakir, að minkar eru enn þá í búrunum, því að mikla þaulsætni þarf til að uppræta það. Þá er og aldrei hægt að segja, hvort það heppnast eða ekki. En eina vonin til þess er sú, að þeir, sem vinna að eyðingunni, eigi ekki von á því að fá þennan stefnivarg yfir sig þegar að nýju. Skoðun mín er sú, að forða eigi mönnum frá því. Nóg er um skemmdarverkin, þótt það sé gert. Eins og nú er ástatt í landinu, er ég undrandi yfir hv. þm., að þeir skuli mæla þessu bót. Er furðulegt, að sagt skuli vera, um leið og því er lýst yfir. að hér eigi menn ekki hagsmuna að gæta, að halda eigi þessu við. Ég held, að þá væri rétt að taka sér eitthvað þarfara fyrir hendur en það, sem gerir þeim tjón, sem stunda þennan atvinnurekstur, og öðrum margfalt meira. Ríkið hefur orðið að borga tugþúsundir króna á ári við útrýmingu minkanna og kemur til með að gera það, á meðan eigi er aðhafzt.

Ég vænti þess, að hv. d. samþykki frv. okkar hv. þm. Borgf., og til samkomulags mundi ég ekkert segja, þótt brtt. hv. meiri hl. n. væru samþ. Það mundi ég eigi gera að neinu ágreiningsatriði.

Sé ég svo eigi ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta.