10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ef um það væri að ræða, eins og hv. þm. V-Húnv. (SkG) tók fram, að þessi lög yrðu aðeins til bráðabirgða, þá er enn minni ástæða til þess að lögfesta ákvæðin í brtt. hans. Hann segir, að aðalatriðið sé að ákveða, að Alþingi fjalli um þetta mál, því að hér sé raunverulega um gengisskráningu að ræða. Það má náttúrlega kalla þetta svo, en hér er þó alls ekki um gengisskráningu að ræða, heldur er þetta verðlagsframkvæmd, sem verðlagsyfirvöldin geta alveg haft í sínum höndum og fer þannig fram, að þeir, sem fá gjaldeyrinn, leggja á vöruna, sem nemur álagi gjaldeyrisins. Þetta er því heimild um, að leggja megi á vöruna sem álaginu nemur. Ég tel engan vafa á því, að þetta heyri undir vald verðlagsyfirvaldanna. Því finnst mér ástæðulítið og raunar ástæðulaust, að nú sé farið að lögfesta þessa framkvæmd, þar sem þetta er bráðabirgðaframkvæmd, sem e.t.v. gildir aðeins í tvo mánuði. Heldur tel ég, að þetta eigi að ganga í sama farvegi og undanfarið hjá fyrrv. hæstv. ríkisstj., og geri ég ráð fyrir, að núv. ríkisstj. muni framkvæma þetta á sama hátt, og breytir engu, þótt þetta sé lögfest, eins og hv. þm. V-Húnv. leggur til.