10.01.1950
Neðri deild: 25. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði í sambandi við brtt. mína við 1. gr. frv., um það, að ábyrgðin gilti allt árið, vil ég segja, að ég efast ekki um góðan vilja hjá stj. og að hún muni efna þann góða vilja, því að hún vill jafna allt og greiða úr öllu. En setjum nú svo, að stjórnarskipti yrðu og önnur stjórn, sem ekki væri eins góðviljuð, tæki við og sú nýja stjórn vildi ekki framlengja ábyrgðina. Slík stöðvun gæti haft alvarlegar afleiðingar. Hugsanlegt væri líka, að upp kæmi sundrung, sem leiddi til kosninga, þing væri rofið og ekkert gert nema með brbl. Ráðh. væru ef til vill sammála um nauðsyn á að framlengja ábyrgðina, nema fjmrh. Hann væri kannske dálítið íhaldssamur og teldi sig ekki geta framlengt ábyrgðina. Í því tilfelli nægði ekki hinn góði vilji, sem hæstv. atvmrh. var að tala um. Nei, það er tækifæri til að tryggja hinn góða vilja með því að samþ. brtt. mína við 1. gr. frv., en það er alls ekki víst, að það tækifæri gefist síðar. Þetta vona ég, að hæstv. atvmrh. athugi og tefli ekki hinum góða vilja í hættu, heldur styðji að lögbindingu ársábyrgðar með því að samþ. brtt. mína. — Hæstv. ráðh. minntist á, að ábyrgðina mætti framlengja, þegar þar að kæmi, en í því sambandi örlaði þó aðeins á hinni nýju leið, sem ríkisstj. hefur í undirbúningi, og á þeirri leið var engin fiskábyrgð, því að hún á að hverfa úr sögunni. Ráðh. fór að vísu fínt í þetta, en þó mátti heyra, hvað við var átt. (Atvmrh.: Sagði ég ekki, að ég vonaði, að fiskábyrgðin hyrfi úr sögunni?) Var það ekki dálítið ákveðnara? Það má vel vera, að nýja leiðin greiði svo fyrir bátaútveginum, að ekki verði þörf ábyrgðar, þegar hún hefur verið lögfest. En brygðist þessi lausn eða fyrirfærist, væri hlutur útvegsmanna austanlands og norðan alveg fyrir borð borinn, því að aðalvertíð þeirra er á vorin og sumrin, en eftir frv., eins og það er nú, nær ábyrgðin ekki nema til 15. maí. Þessi brtt. mín er því ekki nema réttlætiskrafa, og ætti engu að spilla, þó að ábyrgðin hverfi úr sögunni með nýju leiðinni, því að þá fellur þessi framlenging niður eins og önnur ákvæði frv.

Varðandi brtt. þm. V-Húnv. í sambandi við þann frjálsa gjaldeyri, sem útvegsmenn hafa fengið, vil ég taka það fram, að ég er ekki ánægður með þá breytingu, en mun þó fylgja henni til 3. umr. Hins vegar mun ég freista að finna heppilegra form á breytingu þessara ákvæða við 3. umr., ef einhver byr er fyrir slíkum breytingum.