12.04.1950
Efri deild: 87. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (3218)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 1. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Virðulegi forseti. Það væri nú kannske réttara að geyma það til betri tíma að ræða þetta, því að umr. verður nú bráðlega frestað, eins og óskað hefur verið. En ég vil þó segja aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði í sinni ræðu. Hann benti á, að samþykkt frv. kallaði á meiri fjárveitingar, en frv. sjálft gerði ráð fyrir, ekki einasta, eins og ég benti á í minni fyrstu ræðu, vegna gengisbreytingarinnar, heldur, að því að mér skildist, vegna þess, að eftir því sem meira legðist á langlínurnar, þá þyrfti meira til þeirra. Þetta er út af fyrir sig alveg rétt, en ég sé ekki, að ákvæði, sem að þessu lúta, eigi heima í þessu frv. Ekki veit ég til þess, að hér í Rvík eða öðrum kaupstöðum komi ráð eða framlög frá þeim, sem kröfur gera um síma, hvernig langlínurnar eigi að standa undir aukningunni, og ég get ekki séð, að notendasímar í sveitum hafi þar nokkra sérstöðu, heldur eru þeir alveg hliðstæðir símanúmerum í kaupstöðum. Ég benti einnig á það í minni fyrstu ræðu, að því meiri sem notendasímafjöldinn er, því meiri eru tekjur símans, svo að ég get alls ekki verið sammála hv. þm. Barð. um, að ákvæði, sem lúta að þessu, eigi að koma inn í þetta frv. Í sambandi við 4. gr. sagði hv. þm. Barð., að sama væri, hvort hún væri samþ. eða framkvæmd þessara mála falin Framsfl. Það er nú alltaf svo með þennan hv. þm., að hann sér alls staðar Framsfl. og Framsfl. er sem grýla í hans augum. En ég get nú ekki séð, að þetta hafi við rök að styðjast hjá honum. Það kann að vera, að svo sé ástatt nú, að tveir af þessum mönnum, sem þarna eru nefndir í 4. gr. sem sjálfkjörnir í n. til að ákveða um þetta, séu framsóknarmenn. En slíkt er nú alltaf breytilegt, og hver er kominn til að segja, að þessir menn verði framsóknarmenn? Hvað Stéttarsamband bænda snertir, þá veit ég ekki annað en að sjálfstæðismenn séu í meiri hluta í stjórn þess. Formaðurinn er framsóknarmaður að vísu, en ef hann færi að beita pólitískri hlutdrægni þarna eða yfirleitt, þá skil ég ekki í því, að stjórnin, sem skipuð er að meiri hl. af sjálfstæðismönnum, mundi endurkjósa hann oft, en það mun vera kosið á hverju ári. Ég get huggað hv. þm. Barð. með því, að ég vildi alls ekki samþykkja það, að Framsfl. væri falið að úthluta notendasíma í sveitum. Ég bara lít svo á, að hér sé um opinbera starfsmenn að ræða og það komi ekki málinu við í þessu efni, í hvaða flokki þeir eru. Hv. þm. Barð. spurði um það, hver ætti að hafa úrslitavaldið í þessari n., ef skoðanamunur yrði þar. Ég tel víst, að það yrði eins og í öðrum n., að það yrði að vera þar meiri hl., sem réði, ef um ágreining væri að ræða, og ég sé ekkert á móti því. Ég held, að það sé ekki síður að fela ákveðnum flokki að ráða þessum málum, ef ráðh. á að hafa úrslitavaldið. Ráðh. er venjulega flokksmaður. Eins og nú horfir við, mundi það þýða, samkvæmt hugsunarhætti hv. þm. Barð., að Sjálfstæðisfl. væri falið að ráða þessu, þar sem sá ráðh., sem á að fara með símamálin, er Sjálfstfl.maður. Nú dettur mér ekki í hug að líta svo á, að Sjálfstfl. sé falið að ráða þessu máli, þó að flokksmaður í Sjálfstfl. sé hlutaðeigandi ráðh. Og mér finnst, að hv. þm. Barð. ætti nú að geta farið að skilja það, að það er oft, og sem betur fer í flestum tilfellum, sitt hvað að vera opinber starfsmaður eða flokksmaður. Að opinberum störfum starfa menn yfirleitt ekki sem flokksmenn, heldur reyna að gera skyldu sína og gera rétt; þannig eru flestir.

Hv. þm. Barð. spurði um það, hvort ég hefði ekki spurzt fyrir um það, hvað mundi valda þeirri hlutdrægni, sem einatt hefði átt sér stað í þessu máli. Jú, ég hef spurzt fyrir um það, og ég hef meira að segja bréf frá póst- og símamálastjóra, þar sem hann reynir að afsaka það, hvernig Eyjafjarðarsýsla hefur orðið út undan í þessum efnum. Að öðru leyti skal ég ekki fara langt út í það, en það ætla ég að segja, að ég held, að þessi hlutdrægni, sem hefur átt sér stað, sé ekki pólitísk hlutdrægni, heldur stafi það af öðrum ástæðum, að hér hefur verið mismunað eins og gert hefur verið. Það er t. d. kannske nokkur ástæða til þess fyrir menn, sem svo eru gerðir, að láta undan því, ef mjög freklega er að gengið. Sumir menn eru þannig gerðir, að þeir taka minna tillit til kurteisra manna, en hinna, o. s. frv. Ég get ekki útlistað þetta, hvorki sálfræðilega né á annan hátt. Ég bara bendi á staðreyndir.

Hv. þm. Barð. fannst um að ræða árekstra í 5. gr. frv., þar sem talað er um að hafa hliðsjón af því, hvar mest sé vöntun síma, og að hinu leytinu, að leitast við að skipuleggja framkvæmdir eftir því, sem hentast þykir fjárhagslega. Ég skal ekki neita því, að það kynni að geta orðið í einhverjum tilfellum, að illt yrði að sameina þetta tvennt, en ég held þó, að töluvert megi gera í þessu efni. T. d. ef athugað er fyrst, samkvæmt fyrri málslið gr., hvaða héruð vanti mest síma, þá sé fjárveitingunni fyrst og fremst beint þangað, en þar sé verkinu hagað svo, að sem hentugast verði fjárhagslega, t. d. að byggðarlög innan héraðsins séu tekin í einu, en aftur á móti ekki lagt á ýmsa bæi og sé langt á milli eða t. d. farið um alla sýsluna með einhverju káki, heldur sé tekinn ákveðinn hluti hennar, sem mundi þá undir öllum kringumstæðum verða ódýrara. Þetta var það, sem flm. frv. höfðu í huga. Það má á ýmsan hátt framkvæma þetta verk, eins og önnur, þannig að hagsýni í fjárútlátum sé gætt að svo miklu leyti sem mögulegt er.

Að öðru leyti get ég verið hv. þm. Barð. þakklátur fyrir það, að hann sýnir málinu ekki tómlæti, og mér virðist, að hann sé frv. meðmæltur í höfuðatriðum. Þó að hann vilji gera á því breyt., þá er hann því meðmæltur, að l. séu sett í þessa átt. Ég er honum einnig sammála um það, sem hann sagði um 6. gr. frv. Það getur sannarlega staðið svo á, að. héruð vilji vinna það til að ná í peninga til að lána í þessu skyni, gegn því að fá notendasíma um héraðið.