17.04.1950
Efri deild: 89. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

60. mál, notendasímar í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Forseti. Ég held, að ég sé alveg sammála hv. 1. þm. Eyf., form. n., um það, að nefndarminnihluti, jafnvel þótt það sé aðeins einn maður, eigi rétt á að fá mál afgreitt, þótt aðrir nm. skili ekki nál., ef óeðlilega langur tími er liðinn frá afgreiðslu þess í n. Og ég skal bæta því við, að ég tel mjög miður, að hinir nm. skuli ekki vera búnir að skila nál. í þessu máli. En um mína afstöðu hef ég gefið svo skýlausa yfirlýsingu í ræðu hér áður að ég tel mig ekki þurfa að endurtaka hana nú. Þessi formsatriði eru nálega þau einu, sem ég er sammála hv. 1. þm. Eyf. um. En áður en ég vík að málinu í einstökum atriðum, get ég ekki látið hjá líða að lýsa þeirri skoðun minni, að mér finnst sumir hv. þm., jafnvel hæstv. forseti einnig, vera dálítið á eftir tímanum með það, hvernig umræður milli þeirra hafa fallið. Ég ætla, að hv. 1. þm. Eyf. hafi orðað það svo, að það færi fyrir hv. þm. Barð. og 11. landsk. eins og þegar ákveðinni skepnu væri sýnd rauð dula, ef minnzt væri á það að veita framsóknarmanni embætti. Ég veit nú ekki betur en báðir þessir hv. þm. styðji mjög eindregið ásamt 1. þm. Eyf. hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., að ég nú ekki tali um hæstv. forsrh. Allir styðja þeir þessa hæstv. ráðh. af sömu einlægninni. Ég verð því að segja, að ég er mjög undrandi á þessu orðalagi hjá þm. þeirra flokka, sem sameiginlega stjórna nú málum landsins. Ég hefði því vissa tilhneigingu til þess að láta þá gera út um þetta frv. sem heimilismál og í mesta bróðerni sín á milli. En um frv. sjálft vildi ég þó segja þetta: Mér þætti mjög gott, ef hæstv. fjmrh. vildi láta hér við umr. sína skoðun í ljós um það, hvort hann væri sammála frv. og teldi það fært, að ákveða skuli nú með l. að fimmfalda framlagið frá því, sem gert er nú ráð fyrir í fjárlfrv., að varið skuli til þessara mála, og þetta skyldi gert, hvernig sem á stæði með fjármál ríkisins. Eftir því, sem mér hefur heyrzt á hæstv. fjmrh. um aðstæður ríkissjóðs, hygg ég, að hann sé ekki sammála þessu, en það væri æskilegt að heyra hans álit á þessu máli, áður en það er afgreitt við þessa umr. Ég ber ekki brigður á, að mikil þörf er á því að fá síma inn á hvern bæ í strjálbýli landsins. Það er sjálfsagt gott og nauðsynlegt, en það kostar óhemju fé, borið saman við allar aðstæður. Svo má ekki gleyma því, að fleiri vantar síma en þá, sem í strjálbýlinu búa. Í Rvík vantar þúsundir manna síma, og það mundi kosta mun minna fé að veita því fólki símann og borga sig miklu betur, því að það fé, sem í þetta yrði lagt, kæmi fljótt aftur í ýmiss konar gjöldum, en með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að ríkið verði að greiða um 78 af kostnaðinum við símann. Ég tel, að þegar fjárhagsvandræði steðja að, líkt og nú, þá eigi einmitt að veita framkvæmdum sem þessum þangað, sem flestra vandræði verða leyst með sem minnstum tilkostnaði. Fyrst og fremst á að leggja áherzlu á að leysa þarfir sem flestra og bæta einnig fjárhag símans um leið. Það er og alveg óhjákvæmileg nauðsyn að fjölga til muna símunum hér í Reykjavík, þar sem þörfin er svo geysimikil. Til hvers er svo líka að vera að tengja svo og svo margar notendasímalínur við aðallínurnar, ef þær eru alls ekki í lagi og þurfa svo til algerrar endurnýjunar við, ef þetta frv. verður samþ., sem kostar stórfé, auk þeirra fjárveitinga, sem frv. gerir ráð fyrir. Undir slíkum fjárveitingum sé ég alls ekki, að við getum staðið eins og nú árar. Nei, það á að byrja á aukningu símans í þéttbýlinu og auðvitað að færa sig svo, þegar ástæður leyfa, út í strjálbýlið. Þetta er eina skynsamlega aðferðin, sem á að hafa á þessum málum, því að eftir því, sem tekjur símans eru meiri í þéttbýlinu, höfum við betur efni á því að leggja í hinar tiltölulega mjög kostnaðarsömu lagnir úti um dreifbýlið. Það væri því að byrja á öfugum enda að leggja fram þær upphæðir í þessu skyni, sem frv. gerir ráð fyrir, og ég verð að segja, að eins og gjaldeyrisástandið er, þá furðar mig á því, að í 2. gr. skuli sagt eins og þar segir: „Á innflutningsáætlun hvers árs skal áætla nægilega fjárhæð til þess, að hægt sé að flytja það efni til landsins, er þarf til að leggja þá notendasíma, er um getur í 1. gr. Gjaldeyrisleyfi fyrir þeim innflutningi ber að veita það snemma árs, að efnið geti verið komið til landsins, þegar framkvæmdir eiga að hefjast.“ Hvernig sem ástandið er, þá skal alltaf taka fyrst frá efni í þessar símalínur, sem hér um ræðir. Þó að lyf eða matvæli þyrfti að takmarka, þá má ekki takmarka þetta. Ég hygg, að hv. flm. hafi spennt sinn boga allt of hátt og sýnt ósanngirni.

Ég skal ekki blanda mér í þær umr., sem hér hafa farið fram um þá nefndarskipun, sem hér er lagt til, að upp verði tekin samkv. 4. gr. Annað er það, að ég tel hana fráleita. Að slíkt framkvæmdaratriði sem hér um ræðir sé tekið úr höndum Alþ. og hlutaðeigandi embættismanns og lagt í hendur slíkrar n., virðist vera gert með ákveðið sjónarmið fyrir augum. En hvað sem því líður, þá er að minni hyggju skakkt að taka ákvörðunarvaldið í þessum efnum úr höndum Alþ. og þess ráðh., sem nú fer með þessi mál, og leggja það í hendur óábyrgri n. sem engum á að standa reikningsskap sinnar ráðsmennsku. Ég mun þess vegna af þeim ástæðum, sem ég hef nefnt, greiða atkv. gegn þessu frv. og tel, að það sé alveg rétt aðferð að veita í fjárl. á hverju ári þá upphæð, sem meiri hl.. Alþ. telur fært á hverjum tíma til þessara framkvæmda, en vildi vænta þess, að það sjónarmið, sem ég gerði að umtalsefni, mætti verða meira ráðandi í meðferð fjárframlaga til opinberra framkvæmda en verið hefur.