27.04.1950
Efri deild: 94. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í C-deild Alþingistíðinda. (3251)

60. mál, notendasímar í sveitum

Frsm. 2. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég heyrði ekki upphaf ræðu hv. 1. þm. N-M., en ég þykist vita, hvað hann muni hafa sagt. En eins og sakir standa nú, virðist mér, að það hafi verið meira, sem bjó í huga hans, breyt., sem hann er búinn að boða fyrir löngu á 1. gr. frv., að það ætti að greiða eitthvað úr jöfnunarsjóði, en ekki beint úr ríkissjóði, en þegar af þeirri ástæðu finnst mér ekki hægt að afgr. málið eins og það liggur fyrir, fyrr en vitað er um það. Enn fremur finnst rnér brtt. hans algerð fjarstæða, þar sem ákveðið er, að tveir menn skulu kosnir af Sþ. til að ákveða, hvar skuli leggja síma ár hvert, en sá þriðji skuli vera póst- og símamálastjóri. Ég tel ná engri átt, að símamálaráðh. skuli þannig vera settur utan garða og hafa engan tillögurétt, þó að hann sé sá maður, sem Alþingi hefur valið til að vera yfirmann þessara mála.

Það hefur aldrei átt sér stað fyrr, að farið hafi verið fram á að taka menn gersamlega út úr „funktion“ í því verkefni, sem þeim er ætlað. Mér finnst það ekki koma til mála. Þess vegna hefur mér dottið í hug, af því að við hv. 1. þm. N-M. erum jafnan kærir hvor öðrum, að betrumbæta hans till. og koma með skriflega brtt. við hana. Hv. þm. leggur til, að þessir menn skuli kosnir af Sþ. Það verður ekki skilið öðruvísi, en þeir skuli kosnir með einföldum meiri hluta, en það finnst mér ekki geta átt sér stað. Slíkar kosningar eru alltaf hlutfallskosningar, en einfaldur meiri hluti ekki látinn ráða báðum mönnunum. Þess vegna vil ég leggja fram skriflega brtt., svo hljóðandi:

„Tillagan orðist svo: Sameinað Alþingi kýs tvo menn hlutfallskosningu til tveggja ára í senn, og gera þeir tillögur til póst- og símamálastjórnarinnar um lagningu notendasíma í sveitum, og skulu þeir skila póst- og símamálastjóra tillögum sínum fyrir 1. apríl ár hvert.“

Ég held, að þetta sé hugsun þessa hv. þm., þó að hún hafi ekki komizt á pappírinn. Hann hefur ætlazt til, að hlutfallskosning yrði viðhöfð, og hann hefur ekki ætlazt til að kippa símamálaráðherra burt út úr þessu máli: Ég ætlast til, að þetta séu leiðbeinandi menn frá þinginu og þeir komi fram með sínar till., en völdunum sé ekki kippt úr höndum ráðh. og símamálastjórnin yrði í minni hluta, eins og orðið gæti samkv. till. hv. 1. þm. N-M.

Ég held satt að segja, að það sé ekki rétt að orðlengja um þetta mál nú. N. verður bæði með tilliti til 1. gr. og eins þessarar breyt. að athuga málið og einkum ef hv. þm. vildi koma fram með brtt. við 1. gr. eða skýra, hvernig þessum málum horfir, sem við erum ekki búnir að kynna okkur. Þess vegna finnst mér, að n. þyrfti að athuga þetta mál í samráði við hæstv. ríkisstj., og ef hæstv. ríkisstj. er ófáanleg til að koma á fund okkar, þá fengist skýrari og nákvæmari skýrsla um málið frá hv. þm., þar sem hann virðist vera milliliður. Úrlausn á þessu máli þarf n. að fá og koma svo með sínar till., soðnar upp úr því, sem liggur fyrir henni, og á þann hátt, sem hún kann sjálf að ákveða, eftir því sem gögn liggja fyrir.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv, forseta þessa skriflegu brtt.