15.03.1950
Efri deild: 73. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

68. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við umr. hér í gær var beint til mín nokkrum orðum í sambandi við brtt., sumpart brtt. á þskj. 395 og sumpart út af brtt. minni á þskj. 331. Skal ég leyfa mér að svara þessu hér með nokkrum orðum.

Hv. 11. landsk. þm. (ÞÞ) þótti það sæta nokkrum undrum, að ég skyldi gerast meðflm: að 2. brtt. á þskj. 395, og hv. 1. þm. N-M. (PZ) hvíslaði því að mér, hvort ég hefði virkilega sofið á verðinum, þegar þessi brtt. var samin og samþ. í n. Út af þessu vil ég leyfa mér að taka fram, að till. sjálf er borin fram af mér í n. og það alls ekki gert í svefni. Hún var borin fram af mér með alveg fullkomlega opnum augum og þeim skilningi á þessu máli, að það sé mjög mikil þörf á, að till. verði samþ. og þessari stofnun tryggt það fé, sent hér er um að ræða, og vil ég í því sambandi vísa til þeirrar ræðu, sem ég hélt um þetta mál á fyrra stigi málsins, þar sem ég tók mjög skýrt fram, að ég teldi, að nauðsynlegt væri að tryggja þessari stofnun öruggan tekjustofn, sem ekki væri háður verðsveiflum eða afkomu ríkissjóðs á hverjum tíma. Og ég hef ekkert breytt um skoðun á því máli. — Hv. 11. landsk. þm. lét í ljós hér í hv. þd., að honum væri það nú ekki beinlínis mjög á móti skapi, þó að þessi till. væri samþ., eftir því sem mér skildist á hans ræðu, heldur þótti honum það sárast, að hér væri lagt til að breyta gamalli venju og taka gamla tekjustofna frá ríkissjóði, sem mjög lengi hefði verið tekjuliðir landssjóðs og hefðu þar áður runnið í jarðabótasjóð. Og þess vegna fannst honum óviðeigandi að raska nú þessari gömlu venju og taka þetta fé til annars en almennra ríkisþarfa. Ég met fastheldni þessa hv. þm, mjög, en vildi þá um leið beina því til hans, hvort hann vildi ekki horfa ofur lítið lengra aftur í tímann og minnast þess, að löngu fyrr en þessir sjóðir voru stofnaðir, sem hér er um að ræða, var það venja og ég held skylda, að saman færi framfærsla og arfur. Og það er einmitt meginástæðan fyrir því, að ég hef borið fram þessa brtt., að ég tel, að þessa gömlu venju eigi að taka upp. Ríkið hefur nú þegar tekið að sér framfærslu á þessum aðilum, sem eftir minni brtt. eiga að njóta þessa fjár, sem ríkið ekki gerði, þegar féð var látið ganga í þá sjóði, sem um hefur verið að ræða. Ríkið hefur tekið að sér að mjög verulegu leyti framfærslu þessara manna, sem ég legg til, að njóti þessa fjár, og þess vegna þarf að tryggja þessari stofnun nægilegar tekjur til að geta staðið undir þeim skyldum. Ég vil einnig leyfa mér að benda á, að samkv. till. á að nota þetta fé í varasjóð Tryggingastofnunar ríkisins, samanber 100. gr. laganna. Og hvað ákveður 100. gr. laganna? Hún tekur fram, að úr varasjóði megi til bráðabirgða greiða halla, sem verða kunni á tryggingasjóðnum. En ef ekki er til neitt fé í varasjóði þessarar stofnunar, hvert er þá leitað? Samkv. l. er þá leitað beint í ríkissjóð. Það er því raunverulega ekki verið að taka úr ríkissjóði þetta fé, sem hér er um að ræða, sem eyðslufé í neitt annað, heldur er því ráðstafað aðeins sem tryggingu fyrir því, að þessi stofnun þurfi ekki að leita í ríkissjóðinn beint, þegar hún þarf á þessu fé að halda, heldur sem sagt geti hún haft þetta fé sjálf, til þess að þurfa ekki að leita á náðir ríkissjóðs og gera þá ábyrga fyrir því, sem þar standa í ábyrgð fyrir, til þess að mæta útgjöldunum. — Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að þessi sjóður sé notaður til þess að hjálpa sveitarfélögunum til þess m. a. að koma upp elliheimilum, og það er eitthvert mesta vandamál í sveitum og kaupstöðum að standa undir þeim kostnaði, sem það óhjákvæmilega hefur í för með sér að koma upp elliheimilum í landinu, nægilega stórum til þess að geta tekið við því fólki, sem þangað vill fara, og til að gera þau nægilega ódýr, til þess að vera á þeim kosti ekki meira fyrir hvern einstakling, en ellilífeyrisgjaldið er frá tryggingunum, og því takmarki verður að ná. Nú er gefin heimild í l. um að greiða allt að 50% í ofanálag á ellilaun til þeirra gamalmenna, sem eru einstæðingar og hafa ekki neitt fjármagn sjálfir fram að leggja. En því takmarki þarf að ná að koma upp elliheimilum í landinu, eins og til er ætlazt, og koma þeim þannig fyrir, að hægt sé að reka þau svo, að vist á þeim kosti ekki meira, en ellilífeyririnn er á hverju ári. En þá eiga þessir aðilar, sem ellilífeyris eiga að njóta, ekki að þurfa að leita á náðir annarra, en Tryggingastofnunarinnar né heldur hafa áhyggjur fyrir sinni elli. Og þetta fé, sem hér er um að ræða, á að notast til þess að ná þessu takmarki. Og ég er alveg viss um, að þegar hv. 11. landsk. þm. athugar þetta nákvæmlega, verður hann mér sammála um, að rétt sé stefnt með því að taka þetta fé beint inn í tryggingarnar. Ég skal viðurkenna það sjónarmið hv. 11. landsk. þm., þegar hann segir, að hagur ríkissjóðs sé þannig í dag, að sem minnst megi nema í burt það, sem eru tekjur á fjárl. Það er rétt. En ég vil benda á, að það eru fjöldamargir liðir á fjárl., sem eiga að víkja fyrir þessu. Ég háði harða baráttu í Sþ. fyrir því að hækka ekki laun embættismanna um allt að 15 millj. kr. á þessu ári. Meiri hl. Alþ. áleit, að rétt væri að standa að þeim till. að hækka launin, og það var gert. Þetta kostaði tryggingarnar nærri 6 millj. kr. á ári. Og það var svo stórt áfall fyrir Tryggingastofnunina, að Alþ. ber skylda til þess að láta fé koma þar á móti, þegar búið er að gera slíkar ráðstafanir, og það fyrsta til þess að uppfylla þessa skyldu ætti að vera að samþ. þessa brtt., sem hér er borin fram. Ég vil líka benda á, að hér er á ferð og til umr. nú í dag annað mál, 87. mál, sem mundi kosta ríkissjóð mikið fé, ef það væri samþ. Ég segi þetta ekki af því að ég haldi, að hv. 11. landsk. þm. sé því máli fylgjandi, en ég er ekki alveg viss um, að meiri hl. hv. alþm. sé á okkar mál þar. Og meðan svona er sótt að ríkissjóði um alls konar greiðslur, hvers vegna ætti þá að víkja til hliðar því, sem miklu nauðsynlegra er, að greiðist af því opinbera, þ. e. framlag til trygginganna til þess að tryggja greiðslur ellilauna? Því að það verður að metast, þegar afgr. eru fjárl., hvað er nauðsynlegt að láta vera á fjárl. og hvað á að víkja og hverju þjóðin hefur tjón af, að látið sé falla niður. Og ég er ekki í vafa um, að ef þessar nauðsynlegu greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins verða látnar falla niður, er það svo stórkostlegt áfall fyrir einstök bæjarfélög og þjóðfélagið í heild. — Hv. 11. landsk. þm. sagði, að þetta mundi koma fram á verklegum framkvæmdum, ef fé þetta væri látið renna til þess, sem ég hef lagt til. Ég er honum ekki sammála um það. Ég stend engu síður fast utan um það, að verklegar framkvæmdir séu látnar halda áfram í landinu heldur en hv. 11. landsk. þm. Og ég mun standa mjög fast á því, að hvorki greiðsla þessa fjár samkv. minni brtt., ef hún verður samþ., né fjárupphæðin til verklegra framkvæmda sé látin víkja fyrir auknum rekstrarkostnaði í rekstri ríkisins hvað snertir mannahald og ýmsar aðrar óþarfar greiðslur, sem sumar eru komnar gersamlega út fyrir þau takmörk, sem vera ætti í þjóðfélaginu. Ég gerði í fyrra harða sókn til að fá framgengt því að skera niður 6 millj. kr. í þeim rekstri. Nokkuð af þeim till. hélt velli, en nokkuð féll. En það þarf að gera í þessu efni miklu harðari sókn. Og ef minnkaður er sá kostnaður til muna, þá virðist það ekki vera nein goðgá, þó að þær 300 þús. kr., sem hér er um að ræða, séu látnar renna í stofnun, sem er í raun og veru einn hluti ríkissjóðs. — Hér var líka á ferð nýlega annað mál, um að ákveða með sérstökum lögum fyrir tíu ár fram í tímann að taka eina millj. kr. á ári í vissu augnamiði, hvort sem það væri tekið inn á fjárlög eða ekki. Meiri hl. þessarar hv. d. áleit, að það væri rétt, og ég get ekki skilið, að sá meiri hl. telji það ranglátt, þó að Tryggingastofnuninni séu á þennan hátt tryggðar þær 300 þús. kr., sem hér er um að ræða. Ég minnist þess ekki, að hv. 11. landsk. þm. minntist á að stöðva það mál og senda það aftur til fjhn., eins og hann gerir nú í sambandi við þetta mál. Þykir mér það dálítið undarlegt, að það mál, sem ég áðan minntist á, skuli hafa farið hér í gegn, án þess að krafa hafi komið um það, að það færi til fjhn., hliðstæð þeirri kröfu, sem nú hefur komið fram viðkomandi þessu máli, um að það fari til fjhn. nú. Hins vegar er ég ekkert á móti því fyrir mitt leyti og get vel fylgt því, ef till. um það kemur fram, að þetta atriði sé sent til hv. fjhn. til athugunar, ef það mætti verða til þess, að hv. 11. landsk. þm. léði málinu lið á eftir og hv. n. fengist til að mæla með þessari till. En ekki hugsa ég, að jafnsamvizkusamur maður og hv. 11. landsk. þm. sé að bera fram þessa ósk bara til þess að tefja málið. Það er engan veginn honum líkt. — Sé ég ekki ástæðu til að ræða meir um þetta atriði. Ég hef tekið skýrt fram, að brtt. þessi er borin fram af mér fyrst og fremst, og er það í samræmi við þá skoðun, sem ég hafði á þessu máli í fyrra. Þegar erfðalögin voru til umr., bar ég fram till. um, að arfar þessir gengju til Tryggingastofnunarinnar, og ég mun halda uppi þeirri ósk í þessu efni, hvenær sem tækifæri er til, og fylgja hverjum þeim aðila, sem vill bera það fram eða fylgja því. Og það er ekki af því, að ég vilji ráðast þar á garðinn, sem hann er lægstur, eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði í dag, en það er af því, að það er mín skoðun, að því fé, sem menn hafa safnað og láta eftir sig, sé engan veginn öðruvísi betur varið að þeim látnum, en til þess að standa undir þeim verkefnum, sem Tryggingastofnunin á hér að inna af hendi. Og ég ber engan kinnroða fyrir að halda því fram.

Hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) skoraði á hv. þdm. að fella brtt. mína á þskj. 331 og aðallega vegna þess, að hún hélt því fram, að með þessari brtt. minni væri ég að ráðast á garðinn þar, sem hann væri lægstur. Ég mótmæli þessari fullyrðingu og tel mig ekki eiga það skilið í sambandi við afgreiðslu tryggingal. fyrr og síðar. Það er mér óhætt að segja hv. 8. þm. Reykv., að sú löggjöf væri öðruvísi en hún er í dag og verr séð fyrir þeim smæstu í þjóðfélaginu, ef flokkur hv. 8. þm. Reykv. hefði ráðið meiru, en ég um setningu þeirrar löggjafar, en það var áður en hún kom á þing. En það er hart, ef taka á alvarlega það, sem hv. 8. þm. Reykv. segir — að hún segir, að ég sé að ráðast á þá smæstu. En í raun og veru hefur hv. 8. þm. Reykv. verið að verulegu leyti sammála öðrum í n. um þetta mál, þó þannig, að hún vildi hækka þetta um nokkrar kr. Hv. 8. þm. Reykv. var tilbúin til að gera samþykkt um þetta, ef fæðingarstyrkurinn væri hækkaður þannig, að öll upphæðin, sem nú er greidd í þessu skyni til allra kvenna í landinu, skiptist þannig, að grunnurinn hækkaði úr 200 kr. í 230 kr., eða alls úr 600 kr. í 720 kr. Þessu marglýsti hún yfir í n. En ég sá ekki ástæðu til þess að hækka þetta. Þó væri hægt að spara nokkrar krónur með því réttlæti, sem hennar flokkur hefur heimtað í mörg ár, því að hennar flokksmenn hafa heimtað, að því réttlæti væri komið í kring, að allar mæður fengju sama fæðingarstyrk. En þegar ekkert samkomulag varð um það, varð eiginlega samkomulag um það í n., að mín till. yrði samþ. gegn því, að þeim mæðrum, sem hér er um að ræða, yrði tryggður rétturinn til greiðslna í þessu efni annars staðar frá, og eins og hugsað var að gera með breyt. á l. um skyldur foreldra til barna, þannig að það væri lögð á barnsföður sú skylda að greiða í eitt skipti fyrir öll þessar 900 kr. sem fæðingarstyrk, en láta þetta ekki greiðast af tryggingunum. Um þetta var í rauninni nokkurn veginn samkomulag í n., og hv. 8. þm. Reykv. var með því, en svo snerist henni hugur, af því að hún var ekki sammála um það, að sett yrði inn það ákvæði, sem ég og hv. 4. þm. Reykv. flytjum till. um á þskj. 428. Hún vildi gefa konum, sem hvorki vita um föðurinn né segja til hans, þótt þær viti um hann, þennan rétt. Þegar svo var komið, varð ekki úr samkomulagi. Ég skal viðurkenna það, að hún vildi hækka fæðingarstyrkinn upp í 1.400 kr. til allra kvenna, en hún féll frá því, þegar á það var bent, að þá yrði líka að hækka allar aðrar greiðslur trygginganna í samræmi við það.

Ég mun fylgja till. hv. 8. þm. Reykv., ef till. mín og hv. 4. þm. Reykv., um að lagður sé fram úrskurður á hendur barnsföður fyrir barnsfararkostnaði, verður samþ. Ég sé ekki, af hverju hv. þm. þarf að deila um þetta. Með þessu er þetta öllum tryggt nema í einstaka tilfellum, sem eru svo fá, að ekki er hægt að láta þau ráða afgreiðslu málsins.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða aðrar till. nema till. hv. 7. landsk., því að ég er að nokkru leyti á annarri skoðun en hann. Ég mun fylgja 1. brtt. Ég get ekki fallizt á, að það verði erfitt fyrir Tryggingastofnunina að hafa þá tilhögun. Ég mun hins vegar ekki fylgja 2. brtt., og vísa ég í því sambandi til hv. frsm. Ég er með 4., 5. og 6. brtt., en ekki 3. brtt. við 22. gr. Varðandi það atriði hef ég ásamt öðrum nm. borið fram sérstaka till. á þskj. 427. Ég tel, að hv. 7. landsk. megi vel við una, að málið verði leyst á þann veg. Það er full viðurkenning á hans sjónarmiði, og nm. hafa fullan vilja á því, að horfið verði að því að skipuleggja þessi mál. Ég treysti því, að Tryggingastofnunin láti framkvæma þessa athugun og leggi fram till. um ráðstafanir fyrir næsta þing. Það er enginn efi á því, að hér er um nauðsynjamál að ræða, en þetta er líka mörgum erfiðleikum bundið, eins og hv. frsm. talaði um. Ég tel, að stórt spor sé stigið, þar sem n. er sammála um, að þörf sé á sérstökum ráðstöfunum í þessu efni. Það er því ekki af andúð við málið, að ég fylgi ekki 3. brtt., heldur tel ég réttara, að sú leið sé farin, sem gert er ráð fyrir í till. á þskj. 427.

Ég sé svo ekki ástæðu til að tefja umr. frekar, og læt því lokið máli mínu.