13.01.1950
Efri deild: 31. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (3339)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Í gærdag hélt hv. þm. Barð. því fram, að þessi eftirgjöf á tollum, sem þetta frv. ræðir um, stæði í einhverju sambandi við þá, sem hefðu flutt inn húsin, og framsóknarmaður hefði flutt inn í mikið af húsunum og þess vegna sæktu framsóknarmenn þetta eins fast eins og þeir gerðu. Þeir, sem fluttu inn húsin, voru þessir:

Haukur Björnsson .................. 30 hús

H. Claessen .......... ............. 22

Byggingarsamvinnufél. Reykjavíkur 20

Orka h/f. ................... .. ... 16

S. Í. S. ............................8

Haukur Claessen ................. .. 7

Magnús Sigmundsson ........ ...... 1

Hilmar Stefánsson ............. ... 1

Áskell Löve ...... .............. 1

Valur Einarsson .................... 1

Gísli Magnússon ....... .. .. .. 1

Hver er þessi framsóknarmaður? Er það Haukur Claessen, eða Orka? — Ég þori ekki að fullyrða neitt um það, ég held, að þetta sé fullyrðing út í bláinn.

Í sambandi við það, að hann talar um skatta, sem verka aftur fyrir sig, vil ég benda honum á, að fyrst þegar samþ. voru l. um tekju- og eignarskatt, og þau undirbjó Magnús sál. Guðmundsson, þá var tekin upp sú aðferð hér á landi að reikna tekju- og eignarskatt af tekjum ársins á undan og eignir við áramót næst á undan að skattur er lagður. Þeirri aðferð hefur verið haldið, og þar af leiðandi hefur skatturinn alltaf verið fyrir árið á undan og komið eftir sig á, og þegar skattstiganum hefur verið breytt til hækkunar, hefur það að sjálfsögðu gert það líka, og aldrei talað um að leggja skattinn á sama mánuðinn og teknanna er aflað. En það er vel til athugunar, hvort hægt er að koma þessu þannig fyrir, að skattar séu lagðir á tekjur manna sama árið sem þeirra er aflað. En þetta var það kerfi, sem við mynduðum okkur þegar fyrst voru samþ. l. um tekju- og eignarskatt rétt eftir 1920, og því hefur alltaf verið fylgt síðan. Hitt hefur ekki tíðkazt fyrr en upp á síðkastið, að með brbl. séu settir tollar á vöru, sem búið er að selja frá 1. jan. fram á hálft árið. Svo vil ég endurtaka það, að nú er verið að koma með breyt. á l. um tollskrá, vegna þess að það hefur fallið niður að framlengja þau l. um áramótin, það verður sjálfsagt mánuður, sem þau l. verka aftur fyrir sig. Þetta er nýtt um tolla. En hvað tekjuskattinn snertir er hér aðeins um að ræða framkvæmd á sama kerfi, sem alltaf hefur gilt hér á landi, frá því sett voru lög um tekju- og eignarskatt.

Ég benti á það í gær, hvernig þessi heimild í l. væri til orðin, að hún kom fram sem brtt. frá mér við brtt., sem felldi tollinn alveg niður. En menn vildu ganga mislangt í því að gefa eftir tollinn, sumir vildu ekki gefa eftir tollinn, en þeir voru fáir, fjöldinn var með því að gefa hann eftir, sumir alveg, en sumir að nokkru leyti. Þetta benti ég á í gær. Síðan var því komið til leiðar, að n. var skipuð, og hún sagði sem sitt álit, að húsin væru óheppileg og dýr. Hafi verið ástæða til að gefa eftir tollinn, þegar þingið samþ. l. og setti þetta ákvæði inn, þá var því meiri ástæða eftir að það lá fyrir, að húsin voru óhagstæðari heldur en önnur hús.

Hafi ríkisstj. ekki viljað hafa þessi hús, gat hún bannað að flytja fleiri inn, en það gerði hún ekki, það voru pöntuð 30–40 hús eftir það. Það var farið þveröfugt að við það, sem hefði átt að vera, það átti að nota heimildina, en stöðva frekari innflutning.

Þá var hv. þm. Barð. að tala um, að af því að minn sonur ætti eitt húsið, þá berðist ég fyrir þessari tollaeftirgjöf. Hann má segja hvað hann vill í því efni. Við áttum báðir syni í Ameríku, ég 2 en hann 1, og nú vil ég bjóða honum að rannsaka, hvað mínir 2 synir hafa fengið yfirfært á ári, og ég skal fyrir fram segja niðurstöðuna, að hans sonur hefur fengið meira, en helmingi meira, en mínir synir báðir. Hvort hann hefur eytt því öllu, skal ósagt. Má vera, að eitthvað hafi verið yfirfært í öðru skyni. En úr því hann er að drótta því að mér, að ég sé með málinu af því að sonur minn eigi eitt húsið, þá vil ég benda á, hvernig framkoma okkar er gagnvart þessum sonum okkar, sem stunda nám í annarri heimsálfu; ég vil gjarnan að það komi fram í dagsins ljós. Ég get komið með nákvæmar tölur, en geri það ekki nú. Svona lagað er óheiðarlegt í alla staði, og mér hefði ekki komið til hugar að draga syni mína inn í umr. um deilumál á Alþ., hefði ekki hv. þm. Barð. látið sér sæma að vera með svona aðdróttanir. Þeir koma málinu ekkert við. En frekja okkar beggja til að mata krókinn fyrir okkur sést af því, sem ég nefndi. Og 300 þús. kr. fyrir eftirlit með byggingu togaranna sýnir það kannske líka.

Ég tók það fram í gær og geri það aftur nú, að það, sem gerir það, að ég fylgi þessu máli, er að ég vil ekki láta Alþingi komast undan að halda sín orð. Það er nóg komið af því með okkar þjóð, að einstaklingar haldi ekki það, sem þeir lofa, og jafnvel ríkisstj., þó að Alþ. geri það ekki líka. Það hefur alla tíð verið skoðað sem heit, sem ætlazt er til að sé framfylgt, þegar inn í fjárl. er sett svona heimild. Það kemur fyrir, að sett er inn í fjárl. heimild, sem ekki er ætlazt til að ríkissjóður borgi fyrr en búið er að rannsaka eitthvert mál betur en liggur fyrir þegar slíkt er sett inn í fjárl., en þegar sett er svona heimild inn í l., þá er ætlazt til, að heimildin sé notuð. Það er það, sem ég vil láta Alþ. standa við. Þetta er aðalatriðið fyrir mér, og ég gleðst yfir frv., sem hér er fram komið, af því að það var, eins og heimildin var samþ., óljóst, hvað tollurinn átti að vera mikill á því efni, sem ekki var sundurliðað á farmskírteini. Þetta var ástæða, sem ríkisstj. gat fært fram, að hún vissi ekki, hvað mikið það væri, en væri fús til að verða við vilja Alþ. En þessi ástæða fellur burt með frv., sem gerir ráð fyrir endurgreiðslu, og það hlýtur að vera fyllri stoð að þurfa ekki að fara eftir orðalagi heimildar í l. Þess vegna gleðst ég yfir þessu frv., og þó að hv. þm. Barð. og kannske fleiri séu þess eðlis, að þeim sé sama, hvort hægt er að segja, að Alþ., sem ég tel virðulegustu stofnun þjóðarinnar, standi við það, sem það lofar, eða ekki, þá er ég svo sómakær fyrir Alþ. hönd, að mér er ekki sama um það, og ég geri ráð fyrir meiri hl. af þm.