07.03.1950
Efri deild: 69. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3345)

87. mál, endurgreiðsla tolla af tilbúnum timburhúsum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég verð að byrja mál mitt með því að skýra afstöðu mína til þessa máls, er kann að líta út sem vanræksla. Fundur var boðaður í fjhn. um þetta mál strax að afloknum deildarfundi, en ég hafði þá tilkynnt staðgengli hæstv. forseta, að ég yrði að hverfa af deildarfundi vegna kveðjuathafnar. Þegar ég kom frá kveðjuathöfninni, var mér sagt, að fundur n. væri búinn og störfum n. lokið. Ég verð að segja þótt hv. form. n. sé prýðilegur maður yfirleitt, þá fannst mér þetta ekki bera vott um sérstaka nákvæmni eða skyldurækni. — Mér er kunnugt, að eftir atkvgr. á Alþ. 1946, er heimildin var veitt, lét stj. fara fram nákvæma athugun á þessu máli, og eru skjöl varðandi þá athugun til í stjórnarráðinu. N. hefði átt að athuga þau skjöl. Bæði fjmrh. og atvmrh. stóðu að þessari athugun. Nokkrar upplýsingar munu hafa komið fram síðar, og afleiðingin varð sú, að þegar málið var næst borið upp, var heimildin felld með jöfnum atkv. Síðan fara ekki miklar sögur af málinu, en mér er tjáð, að maður utan þings hafi verið á sveimi með skjal varðandi þetta mál og að 31 þm. hafi skrifað upp á skjalið. Ég tel, að það hefði verið heppilegast að minnast ekki á þetta í grg. að árásir hafi verið gerðar á þm. til þess að fá þá til að skrifa undir skuldbindingar, en það hefur stundum þótt heppilegra að tala við þm. einn og einn heldur en að tala við þá sameiginlega. Ég vænti þess, að hæstv. forseti, sem jafnframt er form. fjhn., fresti umr. og geymi að láta ganga atkv. um málið þar til næsta fimmtudag, svo að við tvímenningarnir fáum tækifæri til að athuga málið og gera grein fyrir atkv. okkar. Jafnvel þótt rétt hefði verið að mæla með þessu 1946, sjá allir, að málið horfir öðruvísi nú. Það vita allir, að húsin hafa hækkað í verði, en annað mál er það, hvort þyngzt hefur í ríkiskassanum að sama skapi. Það verður erfitt fyrir ríkið að greiða nú nær 1 millj. kr. í þessu skyni, og verði það gert, geri ég ráð fyrir, að það komi harðast niður á fjárframlögum til verklegra framkvæmda. Á sama tíma og þessi hús voru keypt inn voru sænsku bátarnir keyptir. Eigendur þeirra hafa orðið fyrir miklum áföllum. Ef þetta verður samþ., þá má búast við, að fram komi kröfur um, að tollur verði endurgreiddur af sænsku bátunum. Þeir hafa fallið í verði, en húsin hafa stórhækkað í verði. Ég vil ekkert mein gera þessu fólki, margt af því eru kunningjar mínir og vinir, en margt af því hefur góða aðstöðu og þægileg lán með lágum afborgunum og vöxtum, ég man ekki hvort vextirnir eru 4% eða 4½%. Það stendur því vel að vígi, og er ekki fremur ástæða til að vorkenna því, en bátaeigendum.

Ég vænti þess, að hæstv. forseti fresti málinu og gefi okkur tíma til að athuga það. Æskilegt væri, að hann kallaði okkur aftur á fund, og það veit ég, að hann gerir, slíkur heiðursmaður sem hann er. Í trausti þess get ég lokið máli mínu nú, en þau atriði, sem ég hef nefnt, mæla öll á móti því, að gengið verði inn á þessa óhappatill.