20.01.1950
Efri deild: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3396)

98. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og grg. á þskj. 244 ber með sér, hefur hæstv. ríkisstj. óskað þess, að n, flytti þetta frv., og hefur hún orðið við þeim tilmælum. Eru einstakir nm. óbundnir um fylgi við frv. eða brtt., sem fram kunna að koma.

Í 1. gr. frv. er tekið fram, að frá 1. jan. 1950 til ársloka 1953 skuli „gjald það, er um ræðir í lögum nr. 47 19. maí 1930, um fiskveiðasjóðsgjald. renna til þess að greiða stofnkostnað byggingar til fiskiðnrannsókna og fiskifræðirannsókna, sem reist verður á vegum Háskóla Íslands.“ Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að l. nr. 47 19. maí 1930 eru úr gildi numin. Var það gert fyrir tæpum fjórum árum með l. nr. 41 29. apríl 1946, um stofnlánadeild sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands, í brb.- ákvæðum, en þar er þetta tekið upp orðrétt að heita má. En síðar, árið 1947, í l. nr. 81 5. júní, um útflutningsgjald af sjávarafurðum, í 4. gr., 1. tölul., b-lið, eru tekin upp ákvæði um, að gjöldin skv. 1. gr. þeirra l. renni m. a.: „Til að greiða stofnkostnað byggingar til fiskiðnrannsókna og fiskifræðirannsókna, sem reist verður á vegum Háskóla Íslands og á lóð hans, 1/8% fram til ársloka 1949, en eftir þann tíma fellur gjaldið niður, og lækkar þá útflutningsgjaldið samkv. 1. gr. sem þessu nemur.“ Þarf því sjáanlega að gera breyt. á 1. gr. frv., og mun n. athuga það fyrir næstu umr. Það er ekki ástæða til að fara að vísa málinu til n. En ég vil mælast til við hæstv. forseta, að hann taki ekki málið á dagskrá aftur, nema í samráði við mig, þar eð breyta þarf 1. gr. frv.

Tilgangur frv. er sá að leyfa atvinnudeild háskólans að halda umræddu gjaldi til ársloka 1953 til að standast kostnað við byggingu vegna tilrauna þeirra, sem hér er átt við, og er talað um, að hún þurfi að halda því áfram, til ársloka 1953.

Annars er eigi ástæða til að ræða málið lengur sökum hinnar löngu grg., sem frv. fylgir frá ráðuneytinu um þetta. Skal ég því ekki tefja lengur, en óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr., en endurtek, að engin ástæða er til að vísa því til n.