08.05.1950
Efri deild: 102. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3438)

158. mál, tilraunir í þágu landbúnaðarins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér sýnist það vera upplýst, að þetta mál sé alls ekki flutt af landbn., heldur hafi einn maður tekið þar einræðisvald og skírt sjálfan sig landbúnaðarnefnd. Og skal ég játa, að hann hefur af sumum öðrum mönnum borið í þeirri hv. n. en mér virðist hann samt gera nokkuð mikið úr sér að telja nm. alla í sér einum fólgna. Hann hefði getað komið máli þessu, fram, þó að það hefði verið með öðrum hætti.

Mér hefur ekki gefizt tími til þess að bera þetta frv. saman til hlítar við eldri ákvæði. En ég vildi benda hv. landbn., ef hún skyldi halda fundi, eða þá a. m. k. þeim, sem telur sig ímynd n. og er hér viðstaddur, á þau atriði, sem mér virðast varhugaverð í frv. Á fyrstu síðu frv. stendur hér: „b. (20. gr.). Sérhverjum innflytjanda eða framleiðanda landbúnaðarvéla og verkfæra skal skylt að afhenda nefndinni til reynslu eina vél eða verkfæri af nýrri eða. breyttri gerð, er þeir flytja inn eða framleiða.“ Er þetta til eignar? Eða er þetta bara til meðferðar stuttan tíma, þannig að n. eigi að láta prófun á vélunum eða verkfærunum fara fram og skila tækjunum aftur? Mér sýnist alls ekki koma fram í frvgr., hvort heldur af þessu tvennu á að vera. Mér virðist því, að það taki því ekki að samþ. þetta ákvæði, nema þetta liggi ljóst fyrir, enda ef menn ættu að vera skyldir til þess að afhenda n. beinlínis til eignar slík tæki, þá væri ákaflega hæpið, að slíkt gæti staðizt, ef menn ættu að gera það án þess að fá endurgreiðslu fyrir, enda er hugsanlegt; að hér geti verið um stórverðmæt tæki að ræða, sem jafnvel kostuðu hundruð þúsunda króna. Mér virðist því, að þetta ákvæði þyrfti nánari skýringa við, áður en hægt sé að samþ. það.

Þá vil ég benda á, að í e-lið stendur: „Selji innflytjandi eða framleiðandi, eða láti af hendi til afnota, vél eða verkfæri af þeirri tegund, sem ekki hefur fengið viðurkenningu verkfæranefndar, skal viðkomandi vél eða verkfæri gert upptækt til handa ríkissjóði.“ Hér virðist mér vera allt of langt gengið. Mér fyndist það sök sér, ef viðkomandi aðila væri þá bannað að selja þá vél, sem þannig stæði á um eins og í þessari gr. getur, þannig að hún væri tekin úr umferð og honum væri skylt að sjá til þess; að hún væri ekki framar til sölu. En að hafa það svo, að þó að einhver nefnd vilji ekki viðurkenna gæði vélarinnar, þá verði hún þar fyrir beinlínis gerð upptæk og ríkið megi kasta á hana eign sinni, þó að maðurinn vilji losna við hana, það finnst mér ganga mjög úr hófi, enda veit ég ekki, hvort sú nefnd — sem skipuð yrði vafalaust fyrirtaks mönnum —, sem kallast verkfæranefnd ríkisins, mundi hafa þá þekkingu, að það hæfði að fela henni slíkt alræðisvald yfir eignum manna. Og mér virðist, að það mætti koma á annan hátt fyrir sæmilegum ákvæðum um sölu á þeim verkfærum og vélum, sem verkfæranefndin teldi óheppileg tæki.