28.11.1949
Sameinað þing: 5. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki draga það í efa, að hlutfallið milli launa opinberra starfsmanna og tekna annarra stétta hafi breytzt opinberum starfsmönnum í óhag síðan 1945. Það kann vel að vera. En ég get ekki annað en notað tækifærið nú þegar til þess að láta í ljós nokkra undrun yfir því, hvernig málið hefur verið rekið, og þeirri stefnu, er tekin hefur verið. Síðastliðið vor rétt fyrir þinglok, var samþ. þáltill. í Sþ. um að heimila stj. að verja 4 millj. kr. í uppbætur á þessu ári. Ég ætla, að fjmrh. hafi þá lýst yfir því, að þessi heimild yrði því aðeins notuð, að fjárhagur ríkissjóðs væri þannig, að hann gæti staðið straum af henni. Ég man ekki nákvæmlega, hvernig hann orðaði þetta, en það var svo skilið af ýmsum, að uppbætur yrðu ekki greiddar, nema greiðsluafgangur yrði í ríkissjóði. Mun ýmsum ekki hafa þótt þetta óeðlilegt skilyrði af hálfu fjmrh. Nú hefur heimildin verið notuð, en ekki veit ég, hvort afgangur hefur orðið í ríkissjóði. Hitt er víst, að heimildin hefur verið framkvæmd með einkennilegum hætti.

Í stað þess að greiða þetta í heilu lagi hefur það verið greitt mánaðarlega, svo að opinberir starfsmenn hafa farið að líta svo á, að hér væri um hækkuð mánaðarlaun að ræða. Svo þegar féð er þrotið, er Alþ. ekki saman komið, og er þá horfið að því ráði að halda mánaðargreiðslunum áfram í einn mánuð. Þessi aðferð virðist nokkuð gölluð, og ég vildi þegar á þessu stigi málsins vekja athygli á því.

Í öðru lagi vildi ég, áður en málið fer til n., beina nokkrum orðum til n., er fær það til meðferðar. Ég hef vanizt því í sveit, er kærð voru útsvör og menn báru sig saman við aðra gjaldendur, að hreppsn. kallaði kæranda og samanburðarmann á sinn fund, til þess að athuga, hvort réttmætur samanburður hefði verið gerður. Nú virðast þeir, er sátu á rökstólum í sumar, hafa fengið í hendur ýmis gögn frá kæranda, opinberum starfsmönnum, er þeir telja að sanni það, að laun þeirra hafi lækkað miðað við aðrar launastéttir og einnig miðað við laun bænda og hlutarsjómanna. Í grg. eru teknar upp tölur, er byggðar eru á þessum gögnum. Ég efa ekki, að reynt hefur verið að gera allt sem réttast, en það kann að vera, að einhver gögn skorti svo að rétt sé. Ég vil skora á n., er fær málið til meðferðar, að kynna sér, hvort fulltrúar annarra stétta telja samanburðinn réttan. Ég hef fyrir mitt leyti ekki kynnt mér málið til hlítar, en hygg þó, að hann sé ekki réttur að öllu leyti, hvað sumar stéttir snertir. Það kom líka fram í ræðu hv. 1. flm., að villa er í tölu grg. um hækkun á kaupi bænda. Ég gæti trúað, að sú skekkja sé meiri, en hann heldur. Það má kannske segja, að kauptrygging hlutarsjómanna hafi hækkað um 50–60%, en hún er misjöfn í hinum ýmsu samningum og þess ber að gæta, að enn þá hafa þó hásetar á skipum ekki nema 1.800–1.900 kr. kauptryggingu á mánuði. Það þætti ekki úr hófi hátt hjá embættismanni.

Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er í fyrsta lagi sú, að mig furðar á því, hvernig framkvæmd þessa máls hefur verið, og í öðru lagi vildi ég beina því til n., sem fær málið til meðferðar, að hún athugi tölurnar í grg. og spyrji þær stéttir, sem borið er saman við, hvort þær viðurkenni, að samanburðurinn sé réttur.