19.12.1949
Sameinað þing: 11. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3487)

25. mál, uppbætur á laun opinberra starfsmanna

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það kenndi nokkuð margra grasa í framsöguræðu hv. frsm. fjvn. í dag, og ætla ég mér ekki að fara neitt að ráði út í þá sálma, en vil vekja athygli á því, sem aðallega skiptir máli í sambandi við gagnrýni þá, sem hann hafði frammi hér í málinu, að hann leggur annan skilning og þá væntanlega þeir líka, sem undir þetta nál. hafa skrifað með honum — í þetta mál, en efni standa til samkv. þál. frá 18. maí s. l. Þess vegna er gagnrýni hans í málinu að verulegu leyti á röngum forsendum byggð.

Það er dregið í efa í nál. meiri hl. fjvn., að úrskurður hæstv. fjmrh. hafi verið réttur, þegar hann kvað upp úr um það, eftir hvaða starfsreglum n. skyldi vinna, sem vann að því að athuga launamálin á grundvelli þál. frá í vor. En hæstv. ráðh. kvað upp þann úrskurð í því máli, sem vitanlega er sá eini rétti í framhaldi af þál., að það bæri að rannsaka þær launabreytingar, sem orðið hefðu hjá öðrum starfsstéttum frá því að launal. voru samþ. árið 1945. Hins vegar hefur form. fjvn. að verulegu leyti miðað mál sitt við það, að rétt hefði verið að rannsaka kjör opinberra starfsmanna og bera þau frá grunni saman við kjör annarra stétta og taka ákvörðun eftir að slík rannsókn hefði farið fram. En í þál. frá í vor, sem er fjarri því að vera grautarlega orðuð, eins og haldið var fram, segir, að n. eigi að rannsaka málið út frá því sjónarmiði, hvort kaup og kjör starfsmanna ríkisins, sem laun taka samkvæmt launal., séu nú mun lakari en annarra stétta vegna kauphækkana þeirra frá því að launal. voru sett. Á þessum grundvelli starfaði svo þessi n. og komst að þeirri niðurstöðu, sem vitnað hefur verið til bæði í grg. þáltill. og framsöguræðu hér í dag. En í aðalefni eru niðurstöðurnar þannig, að frá því að launal. voru sett, hefur kaup annarra stétta hækkað að meðaltali um rúmlega 22%. Ég vil biðja hv. þm. að veita því sérstaka athygli, því að það er að sjálfsögðu allt annað mál og miklu stærra að ræða um að bera saman kjör starfsstétta en hitt, hvort nú hefur raskazt hlutfallið milli einstakra stétta vegna þess, að opinberir starfsmenn hafa ekki fengið neinar launahækkanir frá 1945, á sama tíma og flestar eða allar aðrar starfsstéttir hafa fengið mjög miklar og margar kauphækkanir. Hitt atriði málsins, að rannsaka frá grunni kjör hinna opinberu starfsmanna — og þar undir fellur að sjálfsögðu að athuga lengd vinnutímans —, er annað mál, sem er nú í höndum sérstakrar nefndar, sem vinnur að endurskoðun launal., og kemur til kasta Alþ. að ræða það mál, þegar sú n. hefur skilað áliti sinu og sjálf endurskoðun launal. kemur hér á dagskrá.

Fyrir utan þetta eru svo aðeins nokkur atriði í nál. meiri hl., sem ég tel nauðsynlegt að leiðrétta, þar sem þau eru ýmist röng eða á misskilningi byggð. Því er haldið fram í nál., að mál þetta hafi komizt á það stig undir meðferð þess. að starfsmenn ríkisins telji sig eiga kröfu á 20% hækkun í stað 8,33% hækkun samkvæmt hámarksákvæðum þál. frá í vor. Ekkert liggur fyrir í þessu máli. og eins og málið stendur í dag er aðeins búið að greiða 8,30% launauppbót. Í öðru lagi er það að sjálfsögðu ekki krafa opinberra starfsmanna. að þessi 20% verði áframhaldandi mælikvarði á þessar launauppbætur, heldur verður í framtíðinni úr því skorið með endurskoðun launal. Þetta hefur komið skýrt fram í málflutningi opinberra starfsmanna og ætti að liggja ljóst fyrir. Það er þess vegna alls ekki um það að ræða, — þó að þáltill. verði samþ. hér nú, eins og sagt er í nál. meiri hl., — að haldið verði áfram allt næsta ár að greiða 20% á laun starfsmanna ríkisins. Þetta getur orðið meira og það getur orðið minna. Komist meiri hl. Alþ. að þeirri niðurstöðu, að greitt skuli minna en 20%, þá verður það að sjálfsögðu niðurstaðan. Segja má í þessu sambandi, að óvíst sé um framgang þessa máls, og ekki er vitað, hvaða tíma það tekur að endurskoða launal., en það hefur verið unnið að því af n., sem ég gat um áðan. Ég hef heyrt, að vænta megi álits n. í janúarmánuði, og þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að Alþ. geti bráðlega tekið málið til meðferðar. Í öðru lagi miðar þessi þáltill., sem hér er til umr., við það, að þessum uppbótum verði haldið áfram eins og verið hefur, þar til fjárl. verða afgreidd. Og það liggur fyrir Alþ. nú að heimila greiðslu úr ríkissjóði meðan ekki er búið að afgreiða fjárl. Í frv., sem fjhn. hefur flutt eftir ósk hæstv. fjmrh., er miðað við 1. apríl. Síðan hafa komið brtt. um að miða þessa heimild við 1. marz. Fjmrh. hefur lýst því yfir, að hann leggi enga áherzlu á, að lengra tímatakmarkinu sé haldið og vill hraða afgreiðslu fjárl. sem mest. Þá kemur það til umr. við afgreiðslu fjárl., hvort þessar uppbótargreiðslur verða áfram hafðar. Verði svo hraðað endurskoðun launal., þá kann vel að vera, að saman kunni að fara endurskoðun þeirra og afgreiðsla fjárl., þannig að málið verði þá komið í þann endanlega búning, að laun opinberra starfsmanna séu ákveðin í launal. En það hefur oft komið fram hjá okkur, sem höfum flutt þetta mál, að það er gripið til þessarar óvenjulegu meðferðar, af því að alveg sérstaklega stendur á í þessu efni. Hér er aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, meðan endurskoðun launal. er ekki lokið.

Þá er því haldið fram í nál., að slík almenn launahækkun starfsmanna ríkisins mundi óhjákvæmilega kalla á almenna launahækkun í landinu til samræmingar við kjör þessara manna og á þann hátt torvelda stórkostlega lækkun dýrtíðarinnar. Nú er farið fram á þessa hækkun til opinberra starfsmanna til þess að samræma kjör þeirra við kjör annarra stétta, sem hafa fengið hækkun eftir að launal. voru sett. Þess vegna er ekki með rökum hægt að halda því fram, að þessi hækkun valdi nýju dýrtíðarfláði, eins og talað hefur verið um hér í dag. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því, að stjórn Bandalags ríkis og bæja hafði í höndum á s. l. vori yfirlýsingu frá stjórn Alþýðusambands Íslands um, að það mundi ekki skapa kröfur eða grundvöll til nýrra hækkana og ekki framkalla nýjar kaupkröfur stéttarfélaga, þó að hækkuð yrðu um 25% laun opinberra starfsmanna, eins og fulltrúar þeirra fóru þá fram á. M. ö. o., þegar fyrir lá að hækka meira en nú er farið fram á, þá lá fyrir yfirlýsing frá stjórn Alþýðusambandsins, að málið væri þannig vaxið — og það verða menn að gera sér ljóst —, að það mundi ekki skapa nýjar kröfur stéttarfélaga til hækkunar til samræmis við þetta. Til viðbótar þessu er svo það, að um leið og hér er farið fram á minni hækkun en á sér stað hjá ýmsum öðrum, þá hafa ýmis stéttarfélög fengið verulega hækkun, 15–16% grunnkaupshækkun, frá því að málið var á döfinni áður. Það er mjög rangur og villandi skilningur, að hér sé verið að koma af stað nýrri flóðöldu kauphækkana, þegar ekki er um annað að ræða, en að samræma laun opinberra starfsmanna við laun annarra stétta, vegna þess að þeir höfðu þá aðstöðu, að þeir höfðu ekki fengið neinar launahækkanir frá 1945. Og eins og þessum málum er komið, þá er það í höndum löggjafans á hverjum tíma, hvaða laun þeim eru skömmtuð, en stéttarfélög, sem hafa frjálsan samningsrétt, hafa á þessu tímabili meira og minna, og oftar en einu sinni á ári stundum, hækkað laun sín, svo að verulega hefur um munað. Það er því algerlega rangt, sem fram kemur í niðurlagi nál., að það sé eina kjaraskerðingin, sem starfsmenn ríkisins hafi orðið fyrir síðan 1945, að vísitalan hafi verið bundin við 300 stig. Binding vísitölunnar við 300 stig gekk jafnt yfir allar stéttir, en kjaraskerðing opinberra starfsmanna felst í því, að þeir hafa ekki aðstöðu til að fá sín laun hækkuð, þegar allar aðrar stéttir hafa hækkað laun sín meira og minna eftir vísitölubindinguna, sem svo á hinn bóginn hefur valdið margvíslegri verðhækkun í landinu. Í því felst kjaraskerðing opinberra starfsmanna, að þeirra laun haldast óbreytt á sama tíma og aðrar stéttir hafa hækkað sitt kaup og verðlag hefur farið ört vaxandi í landinu, þannig að það verður minni og minni kaupmáttur í því kaupi, sem óbreytt er að krónutölu til.

Mér er það fyllilega ljóst — og það kom einnig fram í viðræðum, sem ég átti við form. fjvn. og hann vitnaði til —, að sé málið fært inn á það víðari grundvöll að taka samanburð á kjörum stéttanna, þá verður málið miklu víðtækara, og er áreiðanlega til of mikils mælzt að finna bráðabirgðalausn á málinu, ef menn ætla að fara inn á þá leið. En menn verða að líta á málið eins og það hefur að borið, þannig, að þessir opinberu starfsmenn eru langt aftur úr öðrum stéttum, miðað við þann grundvöll, sem settur var með launal. 1945.

Á þskj. 131 hafa 2 hv. þm. Framsfl. flutt brtt., sem er að efni til slík, að þeir vilja veita þessa uppbót fyrir desembermánuð og láta þar við sitja. Það er út af fyrir sig nokkurs virði, að slík brtt. skuli vera komin úr þessum herbúðum, vegna þess, hve þunglega hefur verið tekið á þessu máli af hálfu fulltrúa Framsfl. En ég held, því miður, að þótt menn vildu sameinast eitthvað um lausn þessa máls, þá næðist ekki sá árangur, sem nauðsynlegur er, með því að taka aðeins ákvörðun um launagreiðslur fyrir desembermánuð, enda er það óeðlilegt, að byrjað sé á að greiða mánaðarlega uppbætur á laun opinberra starfsmanna og láta það síðan falla niður um óákveðinn tíma, meðan endurskoðun launal. fer fram. Og miðað við það, að horfur eru á því taldar, að endurskoðun l. geti komið fram á Alþ. í næsta mánuði, þá ætti þessi bráðabirgðalausn aðeins að þurfa að standa mjög skamman tíma, ef hv. þm. hafa þá vilja til að vinna að allsherjarendurskoðun þessa máls, og er sannarlega ástæða til að mega vænta þess, svo mjög sem menn hafa talað um, að óeðlileg væri þessi bráðabirgðalausn í málinu, sem nú er stefnt að. Af þessum sökum tel ég ekki nægilegt í þessu máli að ganga inn á þessa brtt., en er henni andvígur. Hins vegar met ég það, að fram er komin till. úr þessari átt, sem fer að því marki að sýna á því lit að rétta hlut þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli.

Um brtt. hv. 5. landsk. þm. (ÁS), um að greiða uppbótina misjafnt á launin, vil ég segja það, að ég tel ekki, að svo komnu máli, ástæðu til að hverfa að þeirri lausn málsins, þar sem hér er aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, sem úr því sem nú er komið verður að ætla, að standi mjög skamman tíma, þegar það er líka vitað, samkv. upplýsingum frá atvmrh., að fulltrúaráð hinna opinberu starfsmanna hefur sjálft lagt til, að a. m. k. meðan þessi bráðabirgðalausn stendur, verði greidd jöfn uppbót á öll laun. Og þegar slíkar till. liggja fyrir, álit ég óþarft á þessu stigi málsins að breyta um, en greiða heldur, eins og í þáltill. segir, sömu uppbót á öll laun.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta mál. Ég taldi nauðsynlegt að koma með þessar aths., sem ég nú hef flutt hér fram, til þess að leiðrétta misskilning og ranghermi, sem er í nál. meiri hl. fjvn. Ég vil þó alvarlega biðja hv. þm. að taka það til athugunar, að hér er um að ræða bráðabirgðalausn í málinu, á meðan ekki er búið að taka launamál opinberra starfsmanna til heildarmeðferðar, sem gert verður við endurskoðun launal. Segi ég þetta sérstaklega í tilefni af ræðu hv. frsm. meiri hl. fjvn.