01.03.1950
Sameinað þing: 29. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3608)

124. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Menn hafa heyrt nokkuð samkomulagið hjá þeim herrum, sem standa að þessari vantrauststill., og eru þessar umr. góður vitnisburður — og betri en Sjálfstfl. getur lýst — um ábyrgðarleysi þeirra manna, sem standa að því að steypa ríkisstj., þegar samkomulag þeirra sjálfra er nú ekki burðugra, en hefur lýst sér hér í umræðum þeirra hér í kvöld og vafalaust á eftir að lýsa sér í framhaldi umr.

Hv. 1. þm. S-M., Eysteinn Jónsson, sagði, að ég hefði gert of mikið úr því, að aðalforsendan í ritgerð Benjamíns Eiríkssonar á s. l. sumri hafi verið nauðsynin á frjálsri verzlun. En það er staðreynd, að svo var. Hann sýndi glögglega fram á, að viðskiptahöftin eru og hafa verið til ills, og til þeirra rekur hann mestan þátt ófarnaðarins í íslenzku fjármálalífi, í valdatíð Framsóknar, þegar hv. 1. þm. S-M. kom töluvert við sögu, og eftir styrjöldina. Það er skiljanlegt, að hv. 1. þm. S-M. vilji láta þetta liggja í þagnargildi, en mér finnst óskiljanlegt, að hann skuli ræða hér til áfellis Sjálfstfl., að hagfræðingarnir sýna fram á og sanna, að fjárfestingin eftir stríðið hafi verið of ör. Sjálfsagt er enginn af stjórnmálaflokkunum syndlaus í þeim efnum, en allra sízt ætti Framsfl. að kasta steinum úr því glerhúsi, sem hann býr í, þar sem það liggur fyrir í prentuðum þingtíðindum, að þegar aðrir flokkar, þáverandi stjórnarflokkar, stuðningsmenn nýsköpunarstjórnarinnar, vildu láta verja 300 millj. kr. af stríðsgróðanum í þessu skyni, þá vildi Framsfl. láta verja 500 millj. til þessara hluta. Ég held því, að Framsfl. gæti í þessu svo sem mörgu öðru sparað sér að vera með ávítur til annarra, því að margir eru nú kámugir, en fáir verri en þeir, ef við eigum að fara að rifja upp alla landsins sögu. Og í kosningunum í haust mótmælti Framsókn því harðlega, að dregið væri úr fjárfestingunni, þó að þá væri sannað, að hún var meiri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar, þar sem skýrslur ná til, og vitað væri, að nauðsynlegu jafnvægi varð ekki komið á nema þetta væri fært til betri vegar.

Hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, gat um einstaka annmarka á frv. og nefndi í því sambandi laun yfirmanna á togurum, sem mundu hækka. Ef hann hermir rétt frá, mundi vera hægt að laga slíka galla í meðferð þingsins. En einmitt þess háttar minni háttar aðfinnslur, sem þm. Alþfl. voru með, benda til þess, að Alþfl. hefði samkvæmt sinni fyrri ábyrgu afstöðu átt að snúast á sveif með þessu frv. og reyna að fá sniðna af því þá annmarka. sem hann telur, að á því séu, en fara ekki út í tilgangslaust kapphlaup við kommúnista.

Sennilega verður vantrauststillaga sú, sem hér liggur fyrir, samþykkt. Það er að vísu óvenjulegt, þegar ríkisstjórn flytur höfuðmál, sem í meginatriðum hefur stuðning yfirgnæfandi meiri hluta þingmanna, að þá skuli hún vegna flutnings þess hljóta vantraust. En í umræðum þeim, sem orðið hafa um dýrtíðarfrv. stjórnarinnar, hefur komið í ljós, að Framsfl. er sammála Sjálfstfl. um það, sem mestu máli skiptir í frv. ríkisstjórnarinnar. Sumum hefur þess vegna e. t. v. komið á óvart, að Framsfl. launaði ríkisstj. svo forustu um gott mál, að hann lýsti á henni vantrausti. En við, sem þekkjum Framsókn og vitum, hvað hún er einkennileg, erum hreint ekkert hissa á þessu. Við vissum, að hún mundi veita okkur vantraust við fyrsta tækifæri. Ef við stæðum okkur illa, mundi hún segja, að við værum of sterkir og verða að fara þess vegna. Og ef við stæðum okkur vel, mundi hún segja okkur of veika til að koma góðum málum fram og því yrðum við sem fyrst að fara, enda lýsti Ólafur Thors forsætisráðherra yfir því, þegar stjórnin var mynduð, að hún væri viðbúin vantrausti, hvenær sem væri.

En þótt ríkisstj. sé og hafi verið veik í þingfylgi, er hún ekki veik i viljanum til að láta gott af sér leiða.

Fjöregg fjármálalífs þjóðarinnar er fólgið í dýrtíðarfrv. stjórnarinnar. Sjálfstfl. hefur ætíð talið, að það fjöregg væri of mikils virði, til þess að flokkarnir mættu henda því á milli sín til að ná góðu skoti hver á öðrum, á sama veg og sagt var, að tröllin hefðu leikið sér að fjöregginu áður fyrri.

Sjálfstfl. hefur markvisst undirbúið framtíðarlausn dýrtíðarmálanna nú um nærri ársbil. Hann hefur fordæmt aðra flokka fyrir að láta pólitíska stundarhagsmuni ráða meira um gerðir sínar í þeim efnum, en tillitið til málefnisins sjálfs. Sjálfstfl. hvorki vill né ætlar að gerast sjálfur sekur um slíkt hið sama.

Ég veit, að kommúnistar munu í þessum efnum sem öðrum gera það eitt, sem þeir telja greiða fyrir upplausn og niðurrifi hins íslenzka þjóðfélags. Ég veit, að Alþfl. er nú haldinn þeim mannlega breyskleika að gera ekki hið góða, sem hann vill, heldur hið illa, sem hann vill ekki. Þetta á eftir að koma flokknum í koll. En hver er sinnar eigin gæfu smiður, jafnt Alþfl. sem aðrir. Framsfl. hefur hins vegar lýst fylgi sínu við meginatriði hins mikla máls, en vill blanda inn í það ýmsu, sem talsmenn hans orða fallega, en ekki er jafngott inni við beinið.

Sjálfstfl. efar ekki, að samningar um sum óþurftarmál Framsóknar verði erfiðir. Hann telur þó óhjákvæmilegt að freista þess að reyna í lengstu lög að semja um framgang hins mikla máls. Ef slíkir samningar væru ekki reyndir, mundi af því leiða meira öngþveiti og upplausn en áður hefur þekkzt í íslenzkum stjórnmálum. Með slíku væri engum unnið gagn öðrum en kommúnistum og upplausnaráformum þeirra. Hinu aðkallandi verkefni: lækningu á hinu sjúka fjármálalífi íslenzku þjóðarinnar, væri stefnt í beinan voða. Þessi lækning verður ekki gerð með valdboði einu héðan frá Alþingi. Til þess þarf samstarf sem allra flestra, ekki aðeins á þingi og í ríkisstjórn, heldur hjá þjóðinni allri. Í lengstu lög verður að vona, að nógu víðtækt samstarf komist á, til að settu marki verði náð. Ef sú von lætur sér til skammar verða, verður að taka þeim ósigri, þegar þar að kemur. En það væri ekki ósigur neins eins flokks eða stefnu, heldur allrar íslenzku þjóðarinnar.

Eitt er víst, að ekkert er skaðlegra en ef nú yrðu hafnar illvígar deilur og endalaus togstreita milli þeirra, sem eru þó sammála um aðalatriði málsins. Af þessum sökum mun Sjálfstfl. ekki láta þetta vantraust hrekja sig af réttri braut.

Eftir réttum þingræðisreglum má að vísu segja, að þeir, sem nú sameinast um að fella ríkisstj., taki sér á herðar skyldu til að sjá landi og þjóð fyrir annarri ríkisstjórn, sem styðjist við meiri hluta þings, en þessi stjórn hefur stuðzt við. Umræðurnar í kvöld og undanfarna daga á Alþingi hafa hins vegar sýnt, að enginn slíkur samningavilji er meðal stuðningsmanna þessarar vantrauststillögu. Þvert á móti. Í öllu því, sem mestu máli skiptir, greinir þá á. Sjálfstfl. hefur þess vegna, þrátt fyrir þessa hvatvíslegu vantrauststillögu, enn von um, að betur rætist úr, en á horfist um hið mikla mál. Hann hefur enn von um, að á síðustu stundu sameinist menn um það, sem mestu máli skiptir, og setji smærri sjónarmiðin til hliðar. Til þess að svo geti orðið, þurfa þeir, sem fram að þessu hafa deilt harðlega, að taka höndum saman. Því aðeins hefur íslenzka þjóðin kosið okkur á þing, að hún hefur treyst okkur til að fara þannig að, þegar mest á ríður. Ef þannig fer, hefur núverandi ríkisstj. náð því marki, sem hún setti sér og lýsti yfir með stefnuyfirlýsingu sinni, er hún tók við völdum. Þótt til þess þurfi að fara óvenjulegar leiðir, er að taka því.

En hvort sem þetta tekst eða ekki, hefur ríkisstj. gert skyldu sína. Hún hefur við erfiðar aðstæður, undir sífelldu aðkasti, á skömmum tíma undirbúið betur, en áður þekkist lausn hins mest aðkallandi vandamáls íslenzku þjóðarinnar. Með þessu eru sköpuð skilyrði áframhaldandi velmegunar íslenzku þjóðarinnar, atvinnu og framfara öllum til góðs.

Ef illa fer, mun starfstími þessarar stjórnar og ferill hennar þó ætíð verða talið öruggt vitni þess, að stærsti flokkur þjóðarinnar sá og skildi, hvað gera þurfti, og hafði þrek og manndóm til að flytja þær tillögur, sem einar gátu orðið til bjargar.

Fari hins vegar vel, sem við skulum örugglega treysta í allra lengstu lög, þá mun þess ætíð verða minnzt, að núverandi ríkisstj. hafi að vísu átt skemmri setu en flestar aðrar stjórnir á Íslandi fyrr og síðar, en þó unnið betra starf en ýmsar þeirra, sem við völdin hafa verið árum saman.