07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að við vildum binda skilning Alþingis á 116. gr. við það að svipta þetta fólk launum. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefur fengið þetta inn í höfuðið. Ég hef skýrt það, að það hefur þegar verið greidd til þessa fólks 5% hærri launauppbót (með hærri vísitölu) en til annarra launamanna, og er þetta viðurkennt af hv. frsm. Það er ljóst, að á þeim tíma, sem dýrtíðarl. voru sett, þá hefur þótt rétt að láta ekki þessa lægst launuðu þjóðfélagsþegna taka á sig sömu byrðar og aðra launþega með festingu vísitölunnar. Því verður ekki neitað, að þetta fólk hefur fengið 10% hærri uppbót en þeir, sem ekki gátu hækkað sin laun. Þessi 10% eru það sama og embættismenn ríkisins fengu í uppbót 1949, svo að ef dagskrártill. okkar er samþ. og till., sem samkomulag er um í sambandi við afgreiðslu fjárl., þá er betur gert við þetta fólk, en aðra launþega. Það er að vísu óljóst, hvað greitt verður í uppbætur á laun embættismanna þetta ár, og engin trygging er fyrir því, að það verði 20% allt árið, og ef þessi till. er afgr. eins og meiri hl. leggur til, þá er tryggt, að þetta fólk fær þessa uppbót, hvað sem öðrum líður, en það virðast hv. flm. ekki vilja. Þessi till. var borin fram sem auglýsing fyrir jólin, enda fann hv. frsm. minni hl. engin rök fyrir henni í n., og það er eingöngu af þráa, að hann berst nú gegn þeirri afgreiðslu á till., sem við leggjum til og mundi bezt tryggja afkomu gamla fólksins.

Að lokum vil ég segja það, að það er ákveðið samkomulag í heilbr.- og félmn. um breyt. á l. um almannatryggingar, þannig að öruggt sé, að Tryggingastofnunin haldi sínum tekjum, og um það að greiða 10% uppbætur á ellilaun og örorkubætur, en það verður allra bezt tryggt með því að afgr. þessa till. eins og meiri hl. hefur lagt til.