07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (3729)

70. mál, uppbætur á ellilífeyri o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Út af því, sem frsm. minni hl. sagði, vil ég taka það fram, að fullt samkomulag hefur náðst um að tryggja framgang málsins eftir dagskrártill., en hv. þm. virðist alls ekki kæra sig um slíka tryggingu. Frsm. minni hl. hefur ekki getið um þá röskun á hlutfallinu, sem greitt er eftir til trygginganna, ef aðaltill. verður samþ. Hér á að bæta við 6 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði, án þess að nokkur viðbótargjöld séu lögð á aðra, sem til trygginganna eiga að greiða. Ef fara á inn á þá leið að auka eða hækka greiðslur til bótaþega, þá á sá kostnaður, sem af því leiðir, að skiptast eftir þeim reglum, sem lögin mæla fyrir. Ég tel algerlega óviðeigandi, eins og kom fram hjá einum hv. þm., að brigzla Alþingi um, að það sé með þessari dagskrártill. að ráðast á garðinn þar sem hann sé lægstur. Vilji Alþingis er, að þetta fólk, sem hér um ræðir, þurfi ekki að líða, og það er í hæsta máta ósanngjarnt að ásaka hv. Alþingi nú fyrir það að greiða ellilífeyri og fleiri bætur eftir vísitölu 315 stig, þegar launþegum var ekki greitt nema eftir vísitölu 300. Slíkar ásakanir ber enginn fram nema hann sé rökþrota.