04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3742)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Mér virðist eins og þeim hv. þm., er síðast talaði, að þessi till. þurfi að athugast af fjvn., en ekki fyrst og fremst af allshn.

Þeir Akureyringar, sem hann ber fyrir brjósti, sem von er, verkamenn á Akureyri, sem höfðu atvinnu af þessari smíði síldartunna, bera sig vitaskuld illa, að þessi iðngrein hefur ekki getað haldið áfram. En það eru ríkar ástæður fyrir því, að stj. Tunnuverksmiðja ríkisins og sjávarútvegsmálaráðuneytið hafa ekki getað ráðizt í að halda tunnusmíði uppi á Akureyri og Siglufirði nú upp á síðkastið.

Þetta mál byrjar í tíð þeirrar ríkisstj., þegar flokksbróðir hv. flm. þessarar till. var atvmrh. Nokkur ár á undan, jafnvel allmörg ár, hafði starfað tunnuverksmiðja á Siglufirði, og líka, þó líklega ekki eins langan tíma, höfðu Akureyringar ráðizt í tunnusmíði á vetrum, sérstaklega með það fyrir augum að nota þessa starfrækslu sem atvinnubót fyrir þá menn, sem við það gætu unnið, og var það eðlilegt, þar sem í þann tíð var auðvitað þörf fyrir talsverðan tunnuforða á sumrin.

Um það leyti, sem stríðið var á enda, kom í ljós, að talsverð tregða var á því að fá nægilegar síldartunnur, og það reyndist náttúrlega líka erfitt í ófriðnum. Þetta mál var tekið upp í síldarútvegsn. árið 1945, og átti ég þá sæti í n. Þar var málið mikið rætt bæði út frá þeim forsendum að styðja þennan innlenda iðnað, sem hafinn var á báðum þessum stöðum, Siglufirði og Akureyri, og líka með það fyrir augum að tryggja nokkurn innlendan tunnuforða, þannig að við værum ekki að öllu leyti komnir upp á tunnukaup hjá keppinautum okkar í síldarsölumálum, t. d. Norðmönnum og Svíum, enda var, eins og ég lýsti áðan, allmikil tregða á að tryggja nægar tunnur til landsins eða það, sem maður taldi nægilegt í þann tíð. Ef ég man rétt, varð niðurstaða þeirra athugana og bollalegginga, sem síldarútvegsn. á þessum tíma hafði með höndum, að rétta skrefið í þessu máli mundi vera að styðja þann vísi til sjálfstæðs iðnaðar, sem í þessu efni var kominn á fót bæði á Siglufirði og Akureyri. Og þetta hafði síldarútvegsn. hugsað hér að gera með því að gera samninga við þessar tunnuverksmiðjur hvora fyrir sig, samninga, sem stæðu til nokkurra ára, um ákveðin tunnukaup. Þetta, að hafa það til nokkurra ára, var sérstaklega við það miðað, að við það fengju verksmiðjurnar nokkurt öryggi í starfsemi sinni. Að sjálfsögðu varð að hafa það í huga, enda var það haft í huga, að tunnur, sem keyptar væru handa síldaratvinnuveginum fyrir milligöngu síldarútvegsn., eins og hugsað var og gert var, af íslenzkum verkstæðum, að þær væru sem næst því að vera samkeppnisfærar bæði hvað gæði og verð snerti. Nú var síldarútvegsn. ljóst, að hún gat ekki ráðizt í að skuldbinda sig í þessu efni án samþykkis ráðuneytisins. Þar af leiðandi var næsta sporið það, eftir að þessi samþykkt hafði verið gerð í n. um hennar stefnu í málinu, sem sé þá stefnu að styðja þessa atvinnugrein og styðja framleiðslu á síldartunnum á þann hátt, sem ég lýsti, að sjávarútvegsmálaráðh. eða atvmrh., sem þá var, núverandi hv. þm. Siglf., var ritað um þetta mál frá síldarútvegsn. og farið fram á, að hann veitti n. heimild, því að atvmrh. er yfirmaður síldarútvegsn., — að hann veitti henni heimild til þess að viðhafa þessa aðferð hvað tunnukaup áhrærði, sem ég nú nefndi. Ég held ég megi fullyrða, að svar við málaleitun síldarútvegsn. barst henni aldrei, a. m. k. ekki meðan ég var þar. Aftur á móti var lagt fram á árinu 1945 fyrir atbeina sama hæstv. ráðh. frv. um tunnusmíði, sem fram skyldi fara af hálfu ríkisstj. Í 1. gr. þessa frv. er tekið fram, að ríkinu skuli vera heimilt að starfrækja tunnuverksmiðjur á Akureyri og Siglufirði, þegar leitt hafi verið í ljós, að Íslendingar séu samkeppnisfærir við erlenda aðila bæði hvað verð og gæði snertir. M. ö. o., þar sem síldarútvegsn. lagði til að fara þá leið að hlynna að því framtaki, sem fyrir var á hverjum stað, hvarf stj. á þá braut, að ríkið tæki að sér að starfrækja síldartunnuverksmiðju á hvorum stað, en fyrir henni sýnist hafa vakað sama grundvallarreglan, að því er samkeppnishæfni snerti, eins og fyrir síldarútvegsn. hafði vakað, enda er það tekið fram í 1. gr. frv., að þetta skuli gert, þegar rannsókn hafi leitt í 1jós, að tunnurnar séu samkeppnisfærar hvað verð og gæði snertir. Þetta var samþ. á Alþingi og stj. sett til að starfrækja þessar verksmiðjur og reisa þær. Hún mun strax hafa tekið til starfa við framleiðslu þeirra, en það er saga, sem of langt væri að rekja hér, en ég efast samt um, að ákvæðum l. hafi verið fullnægt að því er snerti rannsókn á samkeppnishæfni, áður en í þetta var ráðizt. En stj. tunnuverksmiðjanna efndi til stórfelldra efniskaupa til tunnusmíðis, og auk þess voru pöntuð hús í útlöndum, svo kölluð tilbúin stálhús voru pöntuð í Englandi. Aðalgallinn, sem við þessar ráðstafanir var, fyrir utan prinsipið að breyta þessu í ríkisrekstur úr bæjar- eða einstaklingsrekstri, sem áður hafði verið, var sá, að það var engan veginn séð fyrir neinu fé í þessu efni. Og þegar ég kom í sæti ráðh., þá var búið að gera margs konar ráðstafanir, fjárfrekar, skuldbinda ríkið við kaup á efni og kaup á stálhúsum o. s. frv., en peningana vantaði til þess að standa straum af þessum framkvæmdum. Til þess að gera langa sögu stutta skal ég geta þess, að ég hef staðið í miklu stappi við lánsstofnanir þann tíma, sem ég hef verið í rn., sérstaklega Landsbankann, að leggja þessari starfsemi til fé, því að bæði vantaði allt stofnfé, og einnig þurfti hún rekstrarfé. Það varð að samkomulagi, að hún fengi nokkurt lán til að eignast annað þetta hús, sem pantað hafði verið frá útlöndum, en við sluppum við að kaupa hitt húsið, án þess að skaðabætur þyrftu til að koma. Um efnið er það að segja, að það var lagt fram af ríkissjóði stórfé til að kaupa það, eins og eðlilegt var, þar sem ekkert lánsfé fékkst, en við bundnir við kaup á þessu efni. Ég skal á engan hátt fordæma þá ráðstöfun út af fyrir sig að festa kaup á tunnuefni, en gallinn var sá, að það var ekki séð fyrir neinu fé í upphafi til að standa straum af þessu.

En svo þegar farið er að athuga útkomuna á þessari tunnugerð, þar sem hún hefur aðallega farið fram, sem sé á Siglufirði, þá hefur komið í ljós, því miður, að þessar fyrrnefndu tunnur eru svo geysilega dýrar, og þeir, sem þær þurfa að nota hér á landi, kvarta — og ekki að ástæðulausu, — þegar það er sýnt og sannað, að í mörgum tilfellum hafa hinar innlendu tunnur kostað 4–5 sinnum meira en sams konar útlendar tunnur. Ég er ekki að segja, að þeir, sem smíðuðu þessar tunnur, hafi verið of sælir af að vinna verkið, en ég dreg aðeins fram þær bláköldu staðreyndir um þessa starfsemi. Um galla á smíðinu skal ég ekki fella neinn úrskurð, en margvíslegar kvartanir hafa komið fram, ekki sízt s. l. haust frá Suðurlandi, vegna þess að þær tunnur, sem flyttust frá Norðurlandi og suður, hefðu ekki verið af heppilegri gerð, en ég vil ekki fullyrða, að allar þær kvartanir séu á rökum reistar, en býst þó við, að þær séu ekki með öllu ástæðulausar.

Hér við bætist agnúi, sem er óviðráðanlegur og enginn hefur getað séð fyrir, að þörfin fyrir tunnur hefur sökum aflaleysis fyrir norðan engan veginn reynzt sú, sem bæði sennilega ríkisstj. á sínum tíma og aðrir, þar á meðal ég, gerðum okkur vonir um, að yrði fyrir hendi.

Þessi samningur, sem hv. þm. vitnar í, að gerður hafi verið á Akureyri við eigendur tunnuverksmiðjunnar þar, hefur sennilega verið gerður af þeirri stj., sem í fyrstu var sett yfir tunnusmíðið. Ég skal játa það, að samningsrétt þeirra, sem að þessu standa, eigi vitaskuld að halda í heiðri. En til þess að hægt sé að halda þessari starfsemi við, verður samt sem áður að sjá fyrir fé í þessu efni. Og fyrir þeirra hluta sakir tel ég, að till. eigi heima í fjvn., því að það er nauðsynlegt, að þetta mál sé gaumgæfilega athugað, ekki aðeins það, sem ég hef drepið lauslega á um forsögu málsins í stórum dráttum og gang þess í stórum dráttum, heldur líka að hve miklu leyti það er æskilegt fyrir þá, sem eiga að nota þessar tunnur, að lagt sé kapp á að hafa tvær verksmiðjur starfandi, sína á hvorum stað á Norðurlandi, til að framleiða þær.

Ég skal samt sem áður taka það fram, að ég álít, að það sé nauðsynlegt, að nokkur tunnusmíði eigi sér stað hér á landi, og þá helzt fyrir norðan, til þess að vera sem öruggastur gegn því, sem sýndi síg, að gat verið erfitt við að eiga einmitt á þessu ári, sem tunnusmíðarnar voru fyrirhugaðar, að útlendingar settu okkur stólinn fyrir dyrnar hvað kaup á þessari vöru snerti. En hér verður hins vegar að líta nokkuð til beggja hliða, á rétt þeirra, sem hv. þm. hefur hér bent á, og aðstöðu hinna, sem eiga að taka við framleiðslunni, og vil ég í því sambandi benda á það, að mér þykir ótrúlegt, að sú tunnuverksmiðjustj., sem samdi á sínum tíma við Akureyri að sögn hv. þm., málflytjandans hér, hafi í samningnum getað gengið fram hjá því grundvallaratriði, sem er í 1. gr. l. um tunnusmíðarnar, þar sem gert er að skilyrði, að þessar tunnur eigi að vera hvað verð og gæði snertir samkeppnisfærar.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta mál. Ég hef bent á, hvers vegna ég álít, að það eigi heima í fjvn. En ég get ekki stillt mig um að láta í ljós þá skoðun mína, að ég hygg, að það hafi verið rétt braut, sem síldarútvegsn. á sínum tíma vildi fara út á í þessu efni, sem sé að aðstoða að nokkru tunnuframleiðendur á hverjum stað á skynsamlegan hátt, og það hefði reynzt farsælla, en sá ríkisrekstur, sem hefur verið stofnað til, þó að ég efist engan veginn um, að góður tilgangur hafi verið fyrir hendi hjá hæstv. ráðh. á sinni tíð, eins og hann var líka hjá síldarútvegsn.