19.04.1950
Sameinað þing: 39. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3757)

73. mál, tunnuverksmiðja á Akureyri

Gísli Jónsson:

Hv. flm. heldur því fram, að dagskrártill. feli það í sér, að það megi ekki og eigi ekki að smíða tunnur á Akureyri. Ég skil ekki, hvernig hv. flm. getur látið þetta út úr sér. Það er einmitt undirstrikað, að gengið sé út frá því sem gefnu, að síldarútvegsn., sem hefur verið falið að hafa á hendi stj. tunnuverksmiðjanna, hagi rekstrinum þannig, að tunnurnar verði sem beztar og ódýrastar. Þá þykir Alþ. ekki ástæða til að gera ráðstafanir, sem raska þessum grundvelli. Ef stj. kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa hlustað á ræðu hv. flm. og kynnt sér rök hans í málinu og hlustað á óskir og lesið bréf bæjarstj. Akureyrar, að á Akureyri sé hægt að smiða jafngóðar og ódýrari tunnur þeim, sem smíðaðar eru á Siglufirði, þá ber henni eftir dagskrártill. skylda til að gera það. Það er hreinasta fjarstæða og ég mótmæli því, að meiri hl. leggi það til með þessari dagskrártill., að tunnur séu ekki smíðaðar á Akureyri. Akureyri ber hins vegar að keppa að því að búa svo um hnútana, að þar sé hægt að smíða jafnódýrar tunnur og annars staðar, og þegar svo er komið, þá ber stj. þessara mála að láta smíða þessar tunnur þar. Ég vildi aðeins taka þetta fram, eftir að hafa hlustað á hinar ósanngjörnu upplýsingar hv. flm. þáltill. um það, að ekki megi smíða tunnur á Akureyri, því að það er hreinasta fjarstæða.