11.01.1950
Efri deild: 27. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

81. mál, ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að víkja með nokkrum orðum að brtt., sem hér hafa komið fram. Skal ég fyrst drepa á brtt. hv. 1. þm. N-M. um frílistann. Fyrst vildi ég segja það, að mér finnst, að þessi brtt., eins og hún er orðuð, beri vott um nokkru meira traust hv. 1. þm. N-M. á ríkisstj. en ætla mætti eftir orðum hans hér í hv. d., því að hann ætlast til þess eftir brtt., að það sé alveg á valdi ríkisstj. að verðleggja þær krónur, sem þar koma til greina, og mismunandi eftir því, um hverjar vörutegundir er að ræða. Ég tel þetta ekki lítið traust á réttlátri framkvæmd þessa máls í höndum ríkisstj. Ég get ekki greitt þessari brtt. atkv. mitt. Ég tel það ákaflega hæpna leið, sem farin hefur verið í þessum efnum til þessa, og að ógerlegt sé að veita ríkisstj. lagalegan eða siðferðislegan stuðning í þessum efnum. Ég skal játa, að það getur verið ástæða til að beita þessum aðferðum í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða vörur, sem annars mundu ekki verða veiddar eða hagnýttar, að viðhafa svona frílista, þannig að í þeim tilfellum séu sköpuð ný verðmæti, sem annars yrðu ekki til. Umfram þetta tel ég varla fært og ég vil segja enda óheimilt fyrir ríkisstj. að ganga í þessum efnum. Það má segja, að ef framleiðsla á hrognum og öðru, sem hér er nefnt, falli niður að öðrum kosti, þá geti verið rétt að gera petta. Hins vegar stendur að minni hyggju allt öðruvísi á um lifrina. Meðan fiskur er veiddur á annað borð, fellur lifrin til. Og með þeim tækjum, sem nú eru til, dettur engum í hug, að henni verði fleygt. Ég tek fram sem mína skoðun, að ég teldi óráð og lengra gengið, en rétt væri að taka lýsi inn á þennan frílista. Ég tel, að ekki sé heldur gerlegt að lögum að veita ríkisstj. það vald, sem ætlazt er til með þessari brtt. Auk þess tel ég alls ekki víst, eins og þessi brtt. er orðuð, að hún geti fyrirbyggt, að ríkisstj. gangi lengra í þessu efni, en brtt. gerir ráð fyrir. Hér hafa komið fram frá hv. 4. landsk. þm. (StgrA) tilmæli til ríkisstj. um það, að bætt yrði þennan frílista Norðurlands-sumarsaltsíld. Þá bættist ekki lítið við, og þá væri búið, ef það væri gert, að taka svo og svo mikið af vörum inn á þennan lista, sem ekki gæti fallið undir þá réttlætingu á þessum lista, sem er í því fólgin að hafa vörurnar á þessum frílista til þess að þær væru framleiddar og til þess að fyrirbyggja gjaldeyristap, sem kæmi fram, ef þær væru ekki framleiddar, miðað við, að þær væru ekki framleiddar, ef gjaldeyrir fyrir þær væri ekki frjáls. Ég áskil mér rétt til þess, hvenær sem ríkisstj. gengur lengra í þessum efnum, en ég tel rétt vera, að hreyfa málinu við þingið, þannig að það taki afstöðu til þess, hve langt megi ganga í þessum efnum. Ég get um rökstuðning í þessu efni vísað til ræðu hv. þm. Str.

Ég mun einnig greiða atkv. gegn brtt. hv. 2. þm. S-M. um að ábyrgjast fast verð á lifur, eða söluverð á lýsi, sem gefi einnar kr. og þrjátíu aura verð fyrir hvern lítra af lifur. Það hefur oft verið bent á það hér, að fyrst og fremst er ekkert fyrirsjáanlegt um það, hvað þetta mundi kosta, og í öðru, lagi, að hér er vara, sem er mjög mismunandi mikils virði eftir magni og mundi gefa mjög mismunandi mikið lýsi. Auk þess tel ég, að svo langt sé gengið til móts við óskir útvegsmanna yfirleitt, að ég fæ ekki trúað öðru en hæstv. ríkisstj. eigi þess kost að koma útgerðinni af stað án þess að gera viðbótarfyrirgreiðslu í þessu efni.

Brtt. hv. 4. landsk. þm. (StgrA) um að framlengja ábyrgðina til ársloka með verðákvörðun, sem gildi í framkvæmdinni, án þess þó að gera nokkuð til þess að afla fjár upp í ábyrgðina, get ég ekki greitt atkv., og liggur í augum uppi, hvaða ástæður valda því.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þessar brtt. En út af þeim orðum, sem í sambandi við þetta mál hafa í umr. fallið hjá hv. 1. landsk. þm. (BrB) um, að í raun og veru væri nú búið með alls konar skattaálögum að fella gengi íslenzku krónunnar mjög mikið, þá vil ég segja, að þótt í þessu kunni að vera eitthvert sannleiksbrot, þá er þetta ekki nema að mjög litlu leyti rétt, því að enda þótt í einstaka tilfelli hafi með tolla- og skattaálögum á vörum verið lækkað verðgildi peninga þeirra, sem varið er til kaupa á þeim, þá er mjög mikill hluti brýnustu lífsnauðsynja ekki það mikið skattlagður, að kalla megi gengislækkun. Skattar og tollar eru jafnframt helzt lagðir á þær vörur, sem ekki teljast til lífsnauðsynja. Króna, sem varið er til matvælakaupa, hefur litið eða ekkert verið verðfelld, en króna, sem notuð hefur verið til að kaupa óhófsvörur, svo sem tóbak og áfengi, hefur verið verðfelld geysilega. Í þessu liggur munurinn á því, sem áður hefur verið gert, og því, sem hæstv. ríkisstj. leggur nú til, því að söluskattur nær til allrar innfluttrar vöru, til hvers sem nota skal, og þýðir því verðfellingu á öllum krónum. Þetta vildi ég láta koma fram.

Ég vil svo beina því til hæstv. ríkisstj., að ákaflega æskilegt væri, að hún drægi ekki almenning lengi á ráðum sínum til að tryggja varanlega frambúðarlausn á þessum málum, eins og hún hefur komizt svo hógværlega að orði. Mér er ekki grunlaust um, að ekki óverulegur þáttur í þeirri tilhneigingu að heimta hærra kaup stafi af óttanum við gengisfall, og vilji menn því hrifsa sem mest til sin, áður en slíkt verður gert, og er hætt við, að sá órói muni enn aukast, ef ekki verður sem fyrst skýrt frá því, hvað fyrirhugað er í þessum efnum. Það er því vinsamleg bending mín til hæstv. ríkisstj., að hún birti sem fyrst hin gullnu úrræði, sem hún geymir í pokahorninu.