14.12.1949
Sameinað þing: 10. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3800)

62. mál, kaup sjómanna síldveiðiflotans

Pétur Ottesen:

Síðasti ræðumaður hefur tekið af mér ómakið að taka til máls, því að ég vildi vekja athygli á, að afgreiðsla þessa máls fari að eðlilegu fram sem þáttur í stjfrv. á þskj. 63, sem liggur fyrir og benti á það við 1. umr. þess máls. Ég lagði þá til, að því yrði vísað til sjútvn., því að ég taldi það fremur verk þeirrar n. en fjhn. Vissi ég, að sú n. mundi beita sér fyrir, að þetta mál yrði tekið til athugunar í sambandi við afgreiðslu málsins. Fjhn. mun líka ræða þessa hlið málsins, og L. Í. Ú. mun fyrst og fremst beina tilmælum til fjhn. um að taka þetta upp og í frv.

Vegna þess, sem kom fram hjá hæstv. atvmrh. o. fl. varðandi umræður um innlausn sjóveðanna, að sjútvmrn. hefði eigi borizt till. um þetta og eigi skilan., er þess að geta, að það stafar af því, að sá aðili, sem hefur málið með höndum fyrir útgerðarmenn, hefur ekki haldið fund fyrr en nú, en er nú að undirbúa málið. Munu plöggin ganga til skilan. Ég vil því taka undir þáltill., sem áréttar, að þessu verði sinnt, en ég tel sjálfsagt, að það verði gert við afgreiðslu frv. Vil ég því beina því til n., að hún fylgist með störfum fjhn. og hagi afgreiðslu málsins með hliðsjón af því. — Þetta vildi ég, að kæmi fram í þessari umr.