04.01.1950
Sameinað þing: 13. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í D-deild Alþingistíðinda. (3812)

72. mál, innlausn lífeyristrygginga

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Þetta mál er þannig til komið, að snemma á stríðstímanum var það ákveðið, að nokkur hluti af því bátafé, sem átti að greiða foreldrum og ekkjum manna, er létust af stríðsvöldum, skyldi notaður til að kaupa fyrir það fastan lífeyri, er mun í flestum tilfellum hafa verið 10 þús. kr. fyrir hvern Íslending. Þetta var í sjálfu sér ekki óeðlilegt fyrirkomulag, en skilyrðið til þess, að þetta kæmi að gagni, var, að ekki yrði veruleg breyting á gildi peninga, en sú varð raunin á, þegar á stríðið leið. Enda fór þetta þannig, að aðstandendur sjómanna, sem fórust af völdum stríðsins, hafa liðið mjög fyrir það, að þessir peningar, sem á þennan hátt eru bundnir, hafa lækkað mjög í verðgildi og komið því fólki, sem hér er rætt um, að minna gagni heldur, en ef það hefði t. d. getað keypt hús yfir höfuð sér eða ráðstafað þeim á annan hátt, svo að þeir hefðu haldið verðmæti sínu. Þegar l. um innlenda endurtryggingu voru sett, var eitt af ákvæðum þeirra að heimila félaginu að innleysa þessar lífeyristryggingar. Þær voru keyptar hjá ýmsum vátryggingarfélögum, Sjóvátryggingafélagi Íslands o. fl. En þessi félög, sem tóku að sér þessa lífeyristryggingu, höfðu ráðstafað þeim peningum, sem þau tóku fyrir þær, í skuldabréf, ríkisskuldabréf og skuldabréf Reykjavíkurbæjar. Þegar átti svo að fara að endurgreiða þetta, þá stóð ekki á því að láta þessa tryggingu falla niður, að öðru leyti en því, að peningarnir voru bundnir. Þetta fólk hefur svo orðið að taka við þessum skuldabréfum, og segir sig sjálft, að þetta fólk er mjög litlu betur sett með þessi skuldabréf, en líftrygginguna og fær almennt ekki annað en vexti af þeim. En tilgangur þeirra l., sem sett voru um þetta 1947, var sá, að þetta fólk fengi út peninga sína, þó að enn þá hafi ekki orðið úr framkvæmd þess. Sumir hafa ef til vill getað komið þessum skuldabréfum í peninga, annaðhvort með því að greiða með þeim skuldir eða þeir hafa selt þau, en flest af þessu fólki situr með þau enn þá og getur ekki selt þau. Það mun vera búið að innleysa um 800 þús. kr., og það má búast við, að allir þeir, sem ætla sér að hagnýta sér heimild þessara l., til þess að fá innleysta líftryggingu sína, séu búnir að því. Það mun aðallega vera yngra fólk, sem óskar eftir að fá innleystan lífeyrinn, en ekki eldra fólk, og eru eðlilegar ástæður til þess. Ég hef áætlað, að um ¼ þessa fólks sé búíð að fá greiðslu með skuldabréfum og sé búið að koma þeim fyrir, annaðhvort með því að greiða með þeim skuldir eða því hefur tekizt að selja þau. Þetta er þó aðeins áætlun. Þá ættu það að vera um 600 þús. kr., sem þyrfti að innleysa, til þess að þetta fólk geti fengið í peningum endurgjald þessara lífeyristrygginga, sem því voru keyptar á sínum tíma. Ég held, að það muni vera hámarkstala. Það skal tekið fram, að þegar skuldabréfin voru afgreidd, þá var það nákvæmlega skráð, hvaða skuldabréf voru afhent hverjum einstökum. Skuldabréfin voru merkt, þannig að það er alveg útilokað, að hægt sé að framvísa öðrum skuldabréfum en þeim, sem raunverulega hafa verið afhent frá tryggingastofnunum í þessu skyni. Þetta er mjög aðkallandi mál fyrir margar ekkjur og aðstandendur þeirra manna, sem fórust af völdum stríðsins, og mér er kunnugt um, að margt af þessu fólki er í mestu vandræðum með þessi skuldabréf, það getur ekki notað þau, en þarf nauðsynlega á fé að halda, vegna þess að það er að berjast við að eignast húsnæði yfir höfuð sér.

Ég legg til, að till. verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.