13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

100. mál, lóðakaup í Reykjavík

Frsm. (Finnur Jónsson):

Allshn. hefur haft þetta mál til meðferðar og sent það til umsagnar skipulagsstjóra, bæjarráði Reykjavíkur og þjóðminjaverði. Frá bæjarráði Reykjavíkur hefur ekki borizt neitt svar enn þá, en frá skipulagsstjóra hefur borizt svar, sem prentað er í nál. Af umsögn þjóðminjavarðar virðist mega telja víst, að gamli Reykjavíkurbærinn hafi staðið á þeim stað, sem tilgreint er í till., og telur þjóðminjavörður jafnvel sennilegt, að bærinn hafi frá öndverðu staðið þarna, m. ö. o., þar sé um að ræða fyrstu byggð, sem sett hafi verið á Íslandi síðan Íslendingar hófu hér landnám. Í umsögn skipulagsstjóra má benda á það, að hann telur, að til þess að gengið verði úr skugga um þetta, þá mundi þurfa að rannsaka þetta með uppgrefti, og mundi þá vera fyrsta verkefni að tryggja sér eignirnar á þessum stað til niðurrifs og rannsókna.

Nefndin er sammála um að leggja til, að þessi till. verði samþ. með þeirri breyt., að í staðinn fyrir orðið „fela“ á tveim stöðum í tillgr. komi: heimila. Ég held, að það sé sameiginlegt álit n., að hún telur að það sé rétt og sjálfsagt að sýna þessum stað, þar sem fyrsti landnámsbærinn stóð, allan þann sóma, sem unnt er, og í því skyni leggur n. til einróma, að ríkisstj. fái heimildir þær, sem um ræðir í till.