13.04.1950
Sameinað þing: 38. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (3906)

126. mál, útflutningur veiðiskipa

Finnur Jónsson:

Ég hjó eftir því, að í tilkynningu, sem hæstv. forseti las upp um erindi, sem borizt hafa Alþ., var áskorun frá nokkrum aðilum á Ísafirði um, að ríkisstj. leyfði ekki útflutning skipa Björgvins Bjarnasonar, nema því aðeins að hann borgi þeim vinnulaunaskuldir og annað slíkt, sem þeir ættu hjá honum. Í sambandi við þetta birtist í blaði í gær frásögn um það, að búið sé að veita útflutningsleyfi fyrir þessum skipum. — Ég sé, að hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur, og vildi þess vegna í þessu sambandi leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort honum sé kunnugt um, hvort þessi frétt sé á rökum byggð eða ekki, og ef svo væri, hvort ríkisstj. hefði áður en þetta leyfi var veitt, gengið úr skugga um, að þingvilji væri fyrir þessu. Ástæðan til þess, að ég spurði um þetta, er sú, að þetta mál liggur fyrir í þinginu til athugunar og afgreiðslu. Það hefur verið flutt um þetta þáltill., og sú till. er hjá allshn., sem sendi hana til umsagnar nokkrum aðilum og óskaði eftir, að umsagnir bærust fyrir 10. þ. m.

Nú er þingið svo nýkomið saman, að allshn. hefur ekki haft tíma til að taka till. til afgreiðslu, eftir að þessi frestur um umsagnir var liðinn. En þar sem mál þetta er nokkuð sérstaks eðlis og getur haft ákaflega alvarlegar afleiðingar og eftirköst og sérstaklega skapað fordæmi fyrir útflutning á atvinnufyrirtækjum úr landinu, sem margir munu telja mjög óheppilegt, þá vildi ég óska eftir, að hæstv. forsrh. upplýsti um það, hvort honum er þetta mál kunnugt, og ef svo væri, hvort ríkisstj. stæði öll að þessum einkennilega útflutningi atvinnutækja úr landinu eða hvort það er hæstv. atvmrh. einn.