18.01.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í D-deild Alþingistíðinda. (4033)

902. mál, leigumáli á húseign

Atvmrh. (Jóhann Jósefsson):

Ég get því miður ekki linað þann harm hjá hv. þm., sem af þessu hefur orðið. En viðvíkjandi því, hvers vegna fólkið, sem hafði búið lengi í þessum mjög svo leiðinlega kjallara, fékk hæðina, þegar hún losnaði, er það að segja, að þá lá engin ósk fyrir frá neinum opinberum aðila að fá húsið eða part af húsinu. Það getur vel verið, ef hún hefði legið fyrir, að það hefði verið gert eitthvað annað í þessu, en hins vegar kom ósk um það, þegar Þórhalla Friðriksdóttir var að fara, að fá kjallarann, en þá var búið að leigja hann sjúkri konu, sem bjó við erfið skilyrði og hafði búið á annarlegum stað, og var ekki gengið á þau loforð fyrir þá tiltölulega hégómlegu ósk að fá hann handa Landsspítalanum, sérstaklega þegar óskin kom frá mönnum, sem á sínum tíma eyðilögðu með opnum augum kjallarann undir fæðingadeildinni. Ég hef glöggar upplýsingar um það, að 1945 var fæðingadeildin fullsteypt upp. Og þeir, sem líta á það hús, geta gert sér í hugarlund, hvað geysilega mikið húspláss það er að flatarmáli. Þá var tekið það snjallræði af húsameistara ríkisins og landlækni að keyra grjót í kjallarann og gera hann þannig óhæfan að mestu leyti til að nota hann nokkuð og eyðileggja þar með þá möguleika, sem voru fyrir hendi að búa til mannabústað í helmingi kjallarans, en það var vel hægt í þeim helmingi, sem veit að brekkunni. Þar hefði mátt koma fyrir íbúð fyrir ekki fimm, heldur fimmtíu manns. Þetta sama fólk er svo að nöldra út af vondri kjallaraboru, sem er ekki eins nærri spítalanum, þó að hann sé ekki fjarri, sem nú er leigður fólki, og verið að bera víurnar í, að stj. skuli ekki hafa brotið á því lög og rétt. En flutningur mannsins úr kjallaranum og upp á hæðina skeði með fullu samþykki fjmrh., og þá lá engin krafa fyrir að fá húsið til annarra hluta. Presturinn var fluttur úr því í nýtt hús, og þá var ekki að sjá, að það væri nein goðgá, að fólk, sem lengi hafði búið í vondu plássi í kjallaranum, fengi að flytja í þetta.