01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (4042)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Mig langar til að undirstrika eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Rang.

Mér kom á óvart, þegar ég heyrði þau ummæli hæstv. viðskmrh., að frá 1. jan. 1948 til miðs árs 1949 hefðu aðeins verið veitt innflutningsleyfi fyrir 41 bifreið. Innflutningsskýrslur hagstofunnar sýna, að á þessu tímabili hefur innflutningurinn verið miklu meiri, mér er óhætt að segja margfalt meiri. Ég athugaði þetta fyrir nokkrum vikum. Ég man því miður ekki töluna og hef hana ekki við höndina, því að ég gerði ekki ráð fyrir að taka hér til máls, en ég man það þó, og eftir því hefur hv. 2. þm. Rang. einnig tekið, að hér skakkar allmiklu. Skýringin á þessu mun vera sú, að innflutningurinn á sér ávallt stað nokkrum mánuðum seinna en hann er heimilaður. Tölur ráðherrans taka aðeins til nýrra innflutningsheimilda. Þó hygg ég, að framkvæmdin sé þannig, að veitt leyfi séu endurnýjuð um það leyti, sem bifreiðin er flutt til landsins, og mér hefði fundizt eðlilegt, að þessari fyrirspurn væri svarað þannig, að skýrt væri frá því, hversu margar bifreiðar hefðu verið fluttar til landsins á þessum tíma, þar sem benda má á, að úrslitaheimildin í þessu efni, tollskrá tollstjóra, sýnir, að innflutningurinn er þetta mikill.

Hæstv. ráðh. upplýsti, að 150 bílar hefðu verið fluttir inn samkvæmt þeim reglum, sem gefnar hefðu verið út á síðasta ári. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann viti, hvort þessar bifreiðar hafi þegar verið fluttar til landsins og hvort þessar reglur séu í gildi enn eða hvort hann hyggist að afnema þær og þá, ef til stendur að afnema þær, hvort leyfi, sem hafa verið veitt samkvæmt þeim, gildi áfram. Ég taldi þessar reglur óheppilegar, miðað við ástandið í gjaldeyrismálunum, eins og það hefur verið og er enn þá, og ég held, að þau varnaðarorð, sem þá voru um þetta mælt, séu enn í fullu gildi.

Fyrst ég er staðinn upp, langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort nokkurn tíma hafi verið gert heildaryfirlit um bifreiðainnflutninginn síðan hann var hafinn aftur. Á síðustu árum stríðsins og eftir það hafa verið fluttar inn þúsundir bifreiða, og er ekki of mikið sagt að, að sumu leyti hafi þessi bifreiðainnflutningur verið hreinasta hneykslissaga. Væri ekki ástæða til að athuga, hvort það geti verið, að sömu mennirnir hafi fengið gjaldeyrisleyfi oftar en einu sinni, en mér er ekki grunlaust um, að slíkt hafi átt sér stað?