01.02.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (4051)

99. mál, fólksflutningabifreiðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held, að ekki þurfi að deila um, hvernig framkvæma eigi þessa grein. Þar segir, að 20% skatt eigi að taka af matsverði seldra bifreiða innanlands alveg undantekningarlaust. Hlýtur þetta alveg eins að gilda um nýja bíla óskráða og þá, sem hafa verið í umferð úti á vegunum undanfarið, enda væri það í fyllsta máta undarlegt, ef þeir, sem selja gamla bíla, eiga að greiða 20% söluskatt, en þeir, sem fá nýja bíla og selja þá á svörtum markaði fyrir 3–4-falt verð, eiga engan skatt að borga. Ég beindi engum persónulegum ásökunum til hæstv. fjmrh., en ég hélt því fram, að ef þessi mál hafa verið framkvæmd með þeim hætti, sem raunar er upplýst, að enginn skattur hafi verið tekinn af söluverði óskráðra bifreiða, þá er það stórlega ámælisvert, því að auðvelt er að ná skatti af óskráðum bifreiðum sem skráðum, því að ef sá, sem vill fá bifreiðina skráða, er annar en sá, sem fékk innflutningsleyfið, þá hafa eigendaskipti orðið og ber að greiða skatt. Hv. 1. þm. N-M. hefur upplýst, að ekki hafi verið tekinn skattur af óskráðum bifreiðum, þótt seldar væru, og verð ég að átelja þetta harðlega, og úr því að hæstv. fjmrh. segir, að sér sé ókunnugt um framkvæmdina, þá vil ég eindregið beina því til hans, að hann láti athuga, hvernig framkvæmdin hafi verið, og væri æskilegt, að Alþingi fengi frá hæstv. ráðh. skýrslu um það að þeirri athugun lokinni, hve mikið af bifreiðum hafi sloppið við skatt, og eins, hvort hann ætlar að láta framkvæma þetta á sama hátt og undanfarið hefur við gengizt, því að vafalaust er eftir að flytja inn eitthvað af þeim bifreiðum, sem þegar er búið að veita leyfi fyrir.