07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (4144)

16. mál, Evrópuráðið

Frsm. meiri hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þegar tók að líða að lokum síðustu heimsstyrjaldar og ekki hvað sízt eftir að henni var lokið, þá var það mál margra manna og þjóða, að gera þyrfti ráðstafanir, sem kæmu í veg fyrir það, að slík óhamingja skylli yfir mannkynið aftur, og einnig til að hafa samtök um það að bægja frá þeim hættum og þeim voveiflegu afleiðingum, sem urðu af síðustu heimsstyrjöld.

Þegar sýnt þótti, hvernig síðustu heimsstyrjöld lyki, var gerður undirbúningur að alþjóðasamtökum þeirra þjóða, sem áttu í stríði við einræðisríkin, ríki nazismans og ríki fasismans. Og það leiddi til stofnunar hinna Sameinuðu þjóða, er undirbúin var áður en stríðinu lauk. En það kom bráðlega í ljós, að nauðsynleg væru og eðlileg samtök þjóðahópa um ýmis málefni, sem voru þess eðlis, að nauðsyn væri á, að þeim yrði unnið í sameiningu. Af því hafa risið upp ýmis þjóðasamtök, sem eiga fullan rétt á sér og fá vissulega staðizt og eru ekki óeðlileg, miðað við sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Áður en síðasta heimsstyrjöld hófst, höfðu nokkur ríki í Vestur-Evrópu stofnað til samkomulags með sér, þ. e. ríkin, sem venjulega eru kölluð Benelúxríkin, svo að Bretland og Frakkland. Og fljótlega mynduðust samtök á milli þessara þjóða í Vestur-Evrópu. En áður höfðu einnig verið mynduð samtök í samráði við Bandaríki Norður-Ameríku um það, á hvern hátt væri bezt hægt að vinna að efnahagslegri endurreisn Evrópu. Og það varð niðurstaðan, að þau samtök urðu til með samvinnu milli Vestur-Evrópuríkjanna margra og Bandaríkjanna í Norður-Ameríku, og hafa þau samtök venjulega verið nefnd Marshall-samtökin. Upp úr því og nokkuð í sambandi við það risu einnig upp og voru að mörgu leyti endurreist hin gömlu samtök á milli smáríkjanna þriggja hér á meginlandi Vestur-Evrópu, Benelúxlandanna, og Frakklands og Bretlands, og hafa þau samtök starfað um hríð.

Eins og alkunnugt er, hafa slík samtök verið einnig og samstarf milli Norðurlandanna, ýmist þriggja skandinavísku landanna eða þá allra fimm Norðurlandaríkjanna. — Þá þótti sýnt, að það gæti verið heppilegt að mynda allsherjarsamtök á meginlandi Vestur-Evrópu og með Bretlandi, Írlandi og Norðurlöndum að auki, bæði til þess að vinna að því að tryggja, að friður yrði í framtíðinni, og eins til þess að efla félagslegt öryggi og bæta efnahagsástand þessara þjóða. Það má því segja, að Evrópuráðið sé eins konar framhald af þeirri fyrstu samvinnu, sem hófst fyrir síðustu heimsstyrjöld og ég nefndi áðan og tókst upp fljótt að lokinni þessari síðustu heimsstyrjöld, einnig í nánu sambandi við Marshall-samtökin eða efnahagslega endurreisnarstarfsemi Vestur-Evrópu. Og það eru þessi samtök, sem nú hefur verið stofnað til, Evrópuráðið. — Þetta eru þau sögulegu rök, hvað þetta snertir, allt frá því fyrir síðustu heimsstyrjöld og einnig upp úr henni, á margþættan hátt.

Áður en stofnað var beinlínis til þessara skipulögðu samtaka, höfðu ýmsir merkir stjórnmálamenn í Vestur-Evrópu mjög látið til sín heyra um eins konar bandaríki Evrópuríkjanna. Það var gömul skipulagshugsjón franskra hugsjónamanna. Var að vísu tekinn upp þráðurinn í mörgum af ræðum Churchills í lok síðustu heimsstyrjaldar. Þetta þurfti nokkuð að meltast meðal þjóðanna, sem hlut áttu að máli, en fékk fljótt hjá hverju ríki fyrir sig heima fyrir það form, sem nú hefur verið upp tekið með Evrópuráðinu.

Því miður auðnaðist ekki að hafa þessi samtök víðar, þannig að löndin í Austur-Evrópu væru einnig með í þessum samtökum. Þau höfðu því miður bundizt öðrum samtökum, sem þau héldu sér fastar að heldur en lýðræðisþjóðir Vestur-Evrópu töldu heppilegt.

Það varð að ráði, að fyrrv. ríkisstj. íhugaði það, þegar komu tilmæli eða tilboð frá nágrannaríkjunum á Norðurlöndum um það, að Íslandi gæfist kostur á að taka þátt í Evrópuráðinu; og fyrrv. ríkisstj. kynnti sér þetta mál. Komst hún að þeirri niðurstöðu, að hún fyrir sitt leyti vildi með því mæla. Hún gat ekki annað gert, þar sem þá stóðu kosningar fyrir dyrum, en að tilkynna þeim aðilum, sem eftir höfðu spurt, að hún vildi mæla með því við þingið, sem kæmi saman að afstöðnum þessum kosningum, að Ísland yrði þátttakandi í Evrópuráðinu. Nú hefur þetta verið gert á þann veg, að hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram till. til þál. um þátttöku Íslands í Evrópuráðinu, sem hér liggur fyrir til umr., eftir að athugun á þessu máli hefur fram farið í utanrrn.

Eins og tekið er fram í nál. meiri hl. utanrmn. á þskj. 239, þá ræddi utanrmn. nokkuð um þetta mál og leitaði upplýsinga um það hjá utanrrn. og hafði málið til meðferðar á þremur fundum, sérstaklega fyrir þá sök, að einn nefndarmanna óskaði eftir tækifæri til nánari athugunar á málavöxtum, áður en hann tæki afstöðu til málsins. Vitað var strax, að meginþorri utanrmn. væri með málinu, og sérstaklega þeir, sem athugað höfðu málið áður, höfðu lýst yfir að þeir mundu verða fylgjandi málinu. Áður en málið kom fyrir hæstv. Alþ., höfðu þeir lýst yfir, að þeir mundu verða málinu fylgjandi. — Eftir að málið hafði verið rætt á þremur fundum í utanrmn., lauk því á þann veg, að við allir í utanrmn. vorum með því, að undanskildum einum, sem gefið hefur út sérstakt nál. á þskj. 254.

Það þykir ekki ástæða til þess af meiri hl. utanrmn. að fara um málið mörgum orðum í nál. Svo ljóst lá málið þá fyrir af þeim gögnum, sem fylgdu till., sem fram var lögð, þar sem þar var að finna stofnskrá Evrópuráðsins, bæði á ensku og íslenzku, og einnig skýrslu um nokkur drög til stofnunar þessara samtaka, og nokkuð er þar farið inn á, hvert sé hlutverk samtakanna og ætlunarverk. Og, eins og segir í nál. meiri hl. utanrmn., þá var meiri hl. n. fyrir sitt leyti á því, að það væri beinlínis í samræmi við þá mörkuðu utanríkismálastefnu, sem fylgt hefur verið af miklum meiri hl. Alþ. og ríkisstj. nú undanfarin ár, að Ísland eigi þátt í þessu samstarfi Evrópuríkjanna. — Markmið samstarfsins er að koma á nánari einingu þátttökuríkjanna til tryggingar friði, sem byggist á réttlæti og alþjóðasamvinnu, svo og það að stuðla að framförum á sviði efnahags- og félagsmála. Þetta allt hlaut að vera og er óvefengjanlega í fullu samræmi við þá utanríkismálastefnu, sem íslenzka lýðveldið hlýtur að fylgja og mikill meiri hluti þjóðarinnar og Alþingis stendur á bak við.

En þá kunna menn að segja, að hér sé aðeins um fögur orð og fagrar yfirlýsingar að ræða, sem að litlu gagni komi og nái ekki þeim tilgangi, sem um er talað, auk þess sem kostnaður af þátttöku Íslands í þessum samtökum yrði svo mikill, að það yrði þungur baggi á íslenzka ríkinu.

Eins og segir í nál. okkar í meiri hl. utanrmn., verður það sjálfsagt aldrei fullyrt fyrir fram, hversu virða megi þau heit, sem slík samtök hafa gefið í öndverðu. En ég ætla, að þau heit séu af einlægum hug mælt af þeim, sem að þessari stofnun standa og vilja vinna að því í sameiningu, að þau geti orðið að veruleika. Þó að margt skilji þjóðir Evrópuráðsins og ágreiningur sé þar innan hvers ríkis út af fyrir sig, þá held ég, að ráðandi sé í öllum þessum löndum og meðal allra þessara þjóða sú hugsun, að að því þurfi að vinna og að því beri að vinna og starfa saman að því marki, sem ákvarðað er af Evrópuráðinu. Það verður svo seinni tíminn að leiða í ljós, hversu áhrifarík þessi samtök verða, og er ástæðulaust að vera of vongóður né of bölsýnn á það, hvort það takist allt saman. Tíminn leiðir það í ljós. En eitt er alveg víst, að þörf er slíkra samtaka, og engum þessara þjóða getur það orðið til annars en góðs, ef að því er unnið í sameiningu að efna þau heit, sem gefin voru við stofnun Evrópuráðsins. Og þó að Ísland sé langminnsta þjóðfélagið og langminnsta ríkið, sem að þessum samtökum mundi standa, þá hefur þó einnig okkar litla þjóðfélag, okkar smáa lýðveldi, sínar skyldur og sín réttindi. Það að verða fullveðja ríki, að verða fullvalda og sjálfstætt ríki, skapar skyldur og réttindi, skyldur til þess að vera með í samstarfi með öðrum þjóðum og öðrum ríkjum, og það skapar þjóðinni réttindi til þess að koma fram sem jafnrétthár aðili í samstarfi á meðal þjóðanna.

Ég efast ekki um, að sjálfstæði Íslands kostar drjúgan skilding í utanríkisþjónustunni og alþjóðasamtökum. En ég held, að enginn Íslendingur muni eftir þeim aurum sjá, sem fara í útgjöld, sem eru bein afleiðing af því, að Ísland hefur gerzt sjálfstætt og fullveðja ríki. Og ég held einnig, að enginn Íslendingur hafi þá minnimáttarkennd, að hann álíti, að við eigum sérstaklega að draga okkur í hlé gagnvart samstarfi með öðrum ríkjum fyrir þær sakir, að við séum allra þjóða og allra ríkja minnstir. Skyldur og réttindi fullveðja þjóðar skapa stolt hinnar sjálfstæðu þjóðar. Og það stolt hennar, sem knýr hana til þess að setjast á bekk með öðrum fullvalda ríkjum, og vilji hennar til þess að vinna að lausn vandamálanna með öðrum þjóðum og ríkjum, þótt miklu stærri séu og voldugri, er sjálfsagt og eðlilegt.

Þá kunna menn að segja, að hér sé um svo mikinn kostnað að ræða, að lítil ástæða sé til að leggja út í það, af því að árangurinn sé óviss eins og sakir standa. Það hefur verið lauslega reiknað út af utanrrn., að eftir reynslunni af starfi Evrópuráðsins mundi framlag Íslands verða um 40–50 þús. kr. á ári. Þar að auki er að geta þess, að hluti af þessu gjaldi er hugsaður sem eins konar stofnkostnaður, er ef til vill kynni síðar að falla niður, og yrði þá ársgreiðslan minni. Auk þess verður að ganga út frá því sem gefnu, að þátttaka Íslands í fundum Evrópuráðsins sjálfs mundi hafa nokkurn kostnað í för með sér. En þó má ætla, að skynsamleg ástæða sé til að álykta sem svo, að kostnaðurinn ætti aldrei að verða meiri en álíka og sjálft tillagið, þannig að heildarkostnaðurinn yrði ekki sem nokkru næmi yfir 100 þús. kr. á ári. Mönnum kann að vaxa í augum að verja 100 þús. kr. af fé íslenzka ríkisins til þessa þjóðasamstarfs. En við, sem skipum meiri hl. utanrmn., erum þeirrar skoðunar, að ekki sé ástæða til þess að horfa í þessa upphæð, þegar um er að ræða jafneðlileg samtök og jafneðlilegt og er, að Ísland taki þátt í þeim samtökum.

Það er aðgætandi við Evrópuráðið, að í því eru stærstu stórveldi Vestur- og Norður-Evrópu annars vegar og minnstu ríki álfunnar hins vegar. Minnstu ríkin, eftir að Ísland er orðinn aðili, eru Ísland sjálft og Luxemburg, og tiltölulega lítil ríki eru einnig Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Holland og Belgía. Hin stóru ríki má nefna Stóra-Bretland og Frakkland, og líkur benda nú til þess, að áður en langt um líður, verði Vestur-Þýzkaland einnig þátttakandi í þessum samtökum, en í Vestur-Þýzka ríkinu munu nú búa um 60 millj. manna. Og þó að Ísland sé litli bróðirinn í þessum leik, þá er hann ekki miklu minni á almennan mælikvarða en smáríkin, sem ég nefndi áðan. Rödd Íslands getur eins heyrzt í ræðum á þingum eins og raddir annarra smáþjóða, og við höfum ástæðu til að ætla, að við getum lagt eins gott til málanna og aðrar þjóðir, ef við höfum áhuga fyrir þeim málefnum, sem tekin verða þar til umr., og teljum þau einhvers virði fyrir framtíð okkar og annarra þjóða í Vestur-Evrópu.

Þetta vildi ég segja sem rök fyrir þeirri till. meiri hl., að sú till., sem hér liggur fyrir, verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja að nál. minni hl., en hv. frsm. er að vísu fjarverandi og hefur verið það í tvö skipti, þegar málið hefur áður fyrir komið, og hefur því ekki þótt annað fært en taka málið fyrir, þar sem það hefur tvívegis áður verið tekið af dagskrá, jafnvel þó að frsm. sé fjarvistum. En þau rök, sem flutt eru fram í nál. minni hl., virðast mér frekar veigalítil og benda til þess, eins og vitað var, að frá þeim flokki, sem á bak við stendur, mundi stafa andúð á því að gerast aðili að þessum samtökum. Flokkur sá á Íslandi, sem ég á þar við, er þar engin undantekning. Afstaðan er sú sama. Landsflokkar og heimsflokkur hafa þar eins og í svo mörgu öðru tekið sömu afstöðu hvorir um sig.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Ég vil þó benda á það út af nál. minni hl., að þar er reynt að koma að þeirri skoðun, að kostnaðurinn sé miklu meiri en skynsamleg ástæða er til að ætla og þær upplýsingar. sem fyrir liggja, benda til.

Ég vil svo að lokum fyrir hönd meiri hl. utanrmn. leggja það til, að sú till., sem hér liggur fyrir, verði samþ. óbreytt.