07.02.1950
Sameinað þing: 23. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (4146)

16. mál, Evrópuráðið

Forseti (StgrSt) :

Ég vil leyfa mér að taka fram, að það er nú hálfur mánuður síðan þetta mál var tekið á dagskrá fyrst. Þá var því frestað vegna veikinda hv. 7. landsk., og fyrir viku var það aftur á dagskrá og enn frestað vegna veikinda hv. frsm. Ég lét í gær hafa samband við hv. frsm. minni hl. og taka fram, að ég vildi ekki setja þetta mál á dagskrá fyrr en víst væri, að unnt væri að afgr. það. Hv. frsm. minni hl. lét svo um mælt, að hann mundi taka til athugunar, hvort einhver gæti mætt hér fyrir sig og talað fyrir till., en hann lét ekki frekar til sín heyra. Og þar sem málið var tekið á dagskrá í gær, þá var ákveðið, að það yrði afgr. hér í dag, ef fundartími leyfði. Út af því, sem ég hef tekið fram, þá sé ég ekki ástæðu til að fresta afgreiðslu málsins, en orðið er laust, ef einhver vill taka til máls.