17.12.1949
Neðri deild: 16. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. taldi það merkilegt, að ég skyldi lýsa undrun minni yfir því, að ekki skyldi vera komið fram frv. um þetta mál nú þegar af hendi hæstv. ríkisstj., þ. e. vandamál sjávarútvegsins. Ég benti á það áðan, að það eru aðeins 6 dagar til jóla. Og ef dagurinn í dag er ekki notaður, þá eru aðeins tveir vinnudagar eftir, ef það ætti að veita þinghlé með venjulegum hætti, svo að utanbæjarþm. gætu verið heima hjá sér um jólin. Og við vitum, að fiskábyrgðin og lög um tekjuöflun hennar vegna, þessi ákvæði renna út um áramótin n. k., ef ekkert verður sérstakt ákveðið þar um fyrir þann tíma. Og þegar tekið er tillit til þess, að á undanförnum árum hefur yfirleitt verið hafður sá háttur á að afgreiða þessi mál fyrir jól, — og hefur ekki þótt seinna mega vera, — þegar þetta er athugað, þá finnst mér það bera vott um einkennilegan hugsunarhátt hjá hæstv. ráðh., að honum skuli þykja það frekja, þó að þm. láti í ljós undrun sína yfir því, að ekki skuli hafa komið fram frv. um þetta frá hæstv. ríkisstjórn. Því að það er ekki svo, þó að frv. um þetta væri komið fram frá hæstv. ríkisstjórn, þá væri málið til lykta leitt, því að þá á þingið eftir að fjalla um málið. Og mætti gera ráð fyrir, að það þyrfti að eðlilegum hætti sízt minni tíma til þess að fjalla um málið, þegar það er undirbúið af stjórn, sem aðeins styðst við minni hluta þingsins.

Ég verð þess vegna að leggja hina allra ríkustu áherzlu á, að hæstv. forsrh. og hans ríkisstjórn hafi brugðizt skyldu sinni með því að vera ekki búin nú þegar að leggja fyrir þingið till. sínar í þessu máli um það, hvað skuli gera til þess að gera það líklegt, að vertíðin geti hafizt á þeim tíma, sem venja er til. Hæstv. forsrh. er að tala um það í þessu sambandi, að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi ekki lokið fundi sínum fyrr en um kl. 6 einhvern morguninn nú nýverið og sjálfur sé hann ekki enn búinn að heyra frá eigendum hraðfrystihúsanna um óskir þeirra eða kröfur. Þetta kemur þessu máli ekkert við. Skylda hæstv. forsrh. og hans ríkisstj. var, um leið og þeir tóku við, að kynna sér af eigin frumkvæði, hvernig ástatt væri fyrir bátaútveginum og fyrir hraðfrystihúsunum, og athuga, hvað ríkisstj. teldi, að þyrfti að gera til þess að útgerðin færi af stað. Ríkisstj. hafði ekkert leyfi til þess að láta líða dag eftir dag í aðgerðaleysi, þó ekki væri kominn saman einhver fundur útvegsmanna eða ekki væri komið eitthvert bréf frá hraðfrystihúsunum. Þetta var ástand, sem við vitum og hæstv. ríkisstj. vissi vel, hversu vandasamt var eins og líka hæstv. forsrh. gat um í þeim boðskap, sem hann flutti, þegar stjórnin tók við. Og þá hefði mátt vænta þess, þegar hæstv. ríkisstjórn var þetta fullljóst, að hún hefði gengið til þess með fullri atorku — hvað sem öllum fundahöldum líður — að ræða við útvegsmenn og segja við þá: Við verðum að keppa að því að koma þessum till. sem fyrst fyrir þingið, og þess vegna verðið þið að segja, hvert ykkar álit er, ef þið viljið hafa áhrif á málið. Og hvernig sem þau svör hefðu orðið, sem fengizt hefðu við þessu, þá þurfti að fara fram af hendi ríkisstj. rannsókn á þessu.

Ég ætla ekki að þreyta kappræður við hæstv. forsrh. um þetta og tefja hann með því frá undirbúningi frv., heldur vil ég aðeins, að gefnu tilefni, sem hann gaf áðan, þegar hann talaði, taka það fram, sem ég hef nú sagt. Því að hann sagði áðan, að sér þætti skrýtið, að ég, sem hefði nokkurn kunnugleika á undirbúningi svona mála, skyldi láta í ljós undrun mína yfir því, að ekki væru komnar fram till. í þessum efnum. Ég tel sem sagt þennan drátt aðfinnsluverðan, sem hefur orðið í þessu efni, og að þetta sé komið í mesta óefni, ekki sízt fyrir það, hve áliðið er orðið tímans. Og ég verð að segja það, að ég gerði ráð fyrir því — og minnist þess, að í þeim boðskap, sem hæstv. forsrh. flutti, þegar ríkisstj. tók við, talaði hann um troðnar leiðir í þessum efnum og bráðabirgðaráðstafanir — og ekki sízt vegna þess, að hann ræddi um það, þá gerði ég, og sjálfsagt aðrir fleiri. ráð fyrir því, að hann mundi flýta sér einmitt að leggja fram þær bráðabirgðaráðstafanir, til þess að engin töf yrði á framleiðslunni.

Hæstv. ráðh. segir, að ástandið sé slæmt. Og ég dreg ekki í efa að ástandið er mjög slæmt.

Hitt vil ég nú ekki álíta, að hæstv. forsrh. hafi verið svo ókunnugt fyrir nokkrum dögum síðan um afkomu- og rekstrarhorfur sjávarútvegsins í höfuðdráttum þeirra mála, að ástæða sé til þess að taka það alvarlega, að hann hafi í því efni gert einhverjar nýjar uppgötvanir um eitthvað verulegt í því efni. sem hann hafi ekki vitað um áður. Enda væri stórvítavert, ef svo væri, þar sem hann tók að sér þann vanda að standa að minnihlutaráðuneyti á þessum tímum, ef hann hefur gert það án þess að vita í allra stærstu dráttum, hvernig ástatt var um landsmálin.

Ég vildi láta þessi fáu orð falla út af því, sem hæstv. forsrh. sagði hér. En það lakasta finnst mér það, að hann hefur ekki treyst sér til að gefa upplýsingar um það, hvenær frv. um þessi mál muni koma fram af hendi hæstv. ríkisstj. Það var aðalatriðið, ef hann hefði getað gefið upplýsingar um það, og hvenær hægt væri að hefja þinghlé. Geri ég ráð fyrir, að hann hafi þær upplýsingar ekki á reiðum höndum á þessu stigi, því að annars hefði hann látið þær þinginu í té. Verður auðvitað við það að sitja, þó að það sé óneitanlega slæmt og komi sér sjálfsagt illa fyrir marga.