25.02.1950
Efri deild: 62. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

123. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Með l. nr. 1/1950, í sambandi við ríkisábyrgð á útflutningsvörum bátaútvegsins, er svo ákveðið, að sú tekjuöflun, sem í frv. greinir, skuli í gildi vera til 1. marz. Nú hefur ekki getað orðið úr því, að aðrar varanlegri ráðstafanir væru settar fyrir þann tíma, sem tækju við af þeim, eins og í öndverðu var gert ráð fyrir. Því er nú farið fram á, að þessi heimild gildi einn mánuð í viðbót. Að vísu virðist vafi á því, hvort 14. gr. nefndra l. gefur þessa heimild, en það er enginn vafi á því, að þegar l. voru til umr., þá var það greinilegur vilji þingsins, að þessi heimild gilti ekki lengur en til 1. marz, og þess vegna þykir ríkisstj. sjálfsagt, að þessarar heimildar sé leitað. — Hv. þm. er kunnugt, hvað um er að ræða. Í fyrsta lagi er það söluskatturinn, sem er í þessum kafla og á að standa undir öðrum og meiri greiðslum, en þeim styrkgreiðslum, sem gert er ráð fyrir í frv. Þá er í öðru lagi viðbótargjöld fyrir innflutningsleyfi fyrir kvikmyndum, gjald af gjaldeyrisleyfum til utanferða og gjald af innflutningsleyfum fyrir fólksbilum. Enn fremur er samkvæmt 31. gr. 20% af matsverði bifreiða, sem ganga kaupum og sölum, og að lokum er í 32. gr. heimild til tekjuöflunar fyrir fjárhagsráð, sem er gjald af innflutningsleyfum, og á sú fjáröflun að standa undir rekstri þeirrar stofnunar. Meðan ekki hafa verið gerðar neinar ráðstafanir um það, hvernig þessum málum skuli skipað til frambúðar, virðist ekki vera hægt að komast hjá því, að þessar heimildir séu framlengdar enn þá í einn mánuð, til þess að tími vinnist til að ljúka þessu og ákveða til frambúðar, hvort þessa tekjuöflun skuli nota.