15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 3. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið frá mér tveim brtt. á þskj. 433 og 435, og langar mig til þess að gera grein fyrir þeim með nokkrum orðum. í brtt. á þskj. 433 er lagt til að verja 2 millj. af gengishagnaðinum til þess að bæta hag námsmanna þeirra, sem stunda nám erlendis, vegna þess kostnaðarauka, sem þeir verða fyrir vegna 1. gr. frv. Þegar þeir menn, sem nú stunda nám erlendis, lögðu út á námsbraut sína, hafa þeir miðað allar áætlanir sínar við það gengi, sem á gjaldeyrinum var, er þeir hófu nám sitt. Þegar sú hækkun, sem hér er gert ráð fyrir, 74%, er komin til framkvæmda, þá hlýtur hún að hafa mikil áhrif á afkomu þessara manna og getu þeirra til þess að stunda nám sitt og ná settu marki. Það er því ekki nema eðlilegt, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að tryggja, að þessir menn verði ekki fyrir óeðlilegum erfiðleikum og að þeir geti lokið námi sínu á eðlilegum tíma, því að annars glatast mikið af dýrmætri orku, sem bæði getur orðið þeim og þjóðfélaginu til skaða. Hér er um að ræða raunhæft vandamál, sem leysa þarf með sanngirni og af réttlæti. Ég hef lagt hér til, að 2 millj. skuli fara í þennan sjóð og menntamálaráð skuli sjá um úthlutunina. Ég vil svo leyfa mér að vænta þess, að hv. d. sjái nauðsynina á þessu og samþ. till. mína.

Þá vil ég víkja að því fáum orðum, að útbýtt mun hafa verið frá hv. 10. landsk. till., sem gengur mjög í sömu átt og mín till., en þar er gert ráð fyrir tvöfaldri skráningu gjaldeyrisins eins og verið hefur, þannig, að sjúklingar og námsfólk fái hann á sama verði og áður. Reynslan, sem fengizt hefur af þessari tvöföldu skráningu, er alls ekki góð, og í kjölfar hennar hefur siglt alls konar misnotkun. Ég hygg, að allir, sem til þekkja, séu sammála um þetta. Þess vegna er það, að ég tel þá leið, sem mín till. fer fram á, mun heppilegri, en það er auðvitað matsatriði, hve stór upphæðin, sem til þessa á að ganga, skuli vera. Hér er lagt til, að hún verði ákveðin 2 millj. Mín till. gerir og ráð fyrir, að tekið sé tillit til efnahags viðkomandi, því að ekki er nauðsynlegt, að allir fái það bil brúað, sem af gengislækkuninni leiðir. Auk þess er mjög hæpið, að allir námsmenn eigi skilyrðislaust að fá þennan styrk, því að nám og nám getur verið sitt hvað, og rétt er að gera á því greinarmun, hvort það er gagnlegt og nauðsynlegt eða ekki, og skal menntamálaráð skera úr um það.

Hin brtt. mín, sem er á þskj. 435, er um breytta tilhögun á sparifjáruppbótunum. Það kom í ljós, er fjhn. þessarar hv. d. fór að kynna sér þetta mál, að það var ekki nægilega vel athugað. Uppbæturnar fyrir fyrra tímabilið áttu að nema 13%, en fyrir það seinna 2%, og er það auðvitað mjög mikill óþarfi að stofna til skrifstofubákns fyrir þessi 2%. Þess vegna sendi Landsbankinn fjhn. till. um nýja tilhögun á þessu, sem allir fjhn.-menn samþ., nema hv. þm. V-Húnv. Nú hefur hins vegar komið í ljós, á þskj. 431, að stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj. hafa samið um nýja skipan á greiðslu uppbótanna, og tel ég hana sízt til bóta. Ég hef því leyft mér að taka upp till. Landsbankans í höfuðatriðum, en þær tel ég mun heppilegri en bæði till., sem í frv. eru, og einnig þær, sem eru, á þskj. 431. Í till. Landsbankans er gert ráð fyrir, að bótatímabilið sé aðeins eitt og að uppbætur séu ekki greiddar á minni upphæðir en 100 kr. Það er alveg nýmæli í till. meiri hl. fjhn. að ætla að greiða uppbætur á „inneignir einstaklinga í verzlunarreikningum, sem venjulegir innlánsvextir sparisjóða hafa verið greiddir af, enda liggi fyrir yfirlýsing skattanefnda um innstæðuna og skattgreiðslu af henni.“ Þetta er ekki skynsamlegt, ekki vegna þess, að það sé vanþörf á slíkum uppbótum, heldur vegna hins, að þetta krefst mikillar skriffinnsku og hér opnast leið til mikillar misnotkunar á sparifjáruppbótunum. Ég vil líka benda á, að hæpið er að stíga þetta spor, þegar þess er gætt, að uppbætur eru ekki greiddar t.d. á verðbréf og þess háttar, sem almenningur hefur þó af ríkisvaldinu verið hvattur mjög til að kaupa, t.d. verðbréf stofnlánadeildarinnar fyrir þrem árum, og ekki stóð á, að almenningur brygðist vel við þeirri þjóðarnauðsyn. Er vitað, að þá muni hafa verið tekið mjög mikið fé út úr lánsstofnunum til að kaupa þessi vaxtabréf, en það fé á ekki að bæta. Þetta er hið mesta ranglæti. En ef till. Landsbankans í þessu efni verða samþ., má segja, að nokkur bót sé á þessu ráðin, því að þar segir, að bæta skuli allt það fé, sem stóð inni til ávöxtunar frá árslokum 1940 til júníloka 1946, og koma þá uppbætur á það fé, sem notað var til kaupa á stofnlánadeildarbréfunum. Aftur á móti er það ekki eftir till. á þskj. 431, þar sem segir: „Skilyrði bóta er, að innstæðan hafi verið talin fram til skatts og staðið óslitið frá árslokum 1941 til ársloka 1949 til ávöxtunar í nefndum lánsstofnunum.“ Ég held því fast við till. Landsbankans, sem ég hef tekið upp og flyt á þskj. 435, því að ég tel hana mjög heilbrigða og sanngjarna. Þar að auki er það fyrirkomulag, sem hún gerir ráð fyrir, mun einfaldara í framkvæmd. Að vísu. hefur till. á þskj. 431 það í för með sér, að uppbótafjárhæðin hækkar eitthvað, en ágallinn er áfram sá, og hann verulegur, að það fé, sem notað var til kaupa á stofnlánadeildarbréfunum, verður ekki bætt.