15.03.1950
Neðri deild: 67. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er slæmt, að hv. 3. landsk. skuli ekki vera staddur hér í salnum, því að það er einmitt vegna ummæla hans, að ég kveð mér nú hljóðs. Hann vék að brtt. minni og sagði, að þar væri gert ráð fyrir tvöföldu gengi. Þetta er misskilningur. Þar er sagt, að ríkisstj. heimilist að láta ákveðnum aðilum í té gjaldeyri við því verði, sem gildir við gildistöku þessara laga, en alls ekki verið að leggja bönkunum á herðar að afhenda gjaldeyri við tvöföldu gengi. Hins vegar er ríkisstj. lagt á herðar að greiða úr ríkissjóði þann mismun, sem verður á verði gjaldeyrisins fyrir og eftir gengisfallið. — Þeir ókostir, sem hv. 3. landsk. telur að séu á tvöföldu gengi, verða því varla fundnir til foráttu minni till. Hans till. gengur hins vegar allt of skammt. Þar er gert ráð fyrir, að varið verði 2 millj. á 3 árum til þess að styrkja þá, sem dvelja erlendis við nauðsynlegt nám. Samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið frá einum af meðlimum menntamálaráðs, eru nú um 200 Íslendingar erlendis við slíkt nám og teljast allir þurfandi styrks. Þegar tveim milljónum kr. er skipt niður á 3 ár í 200 staði, verður hlutur hvers 3 þús. kr. á ári. En 3 þús. kr. duga námsmanni skammt. Ég las áðan upp lista, þar sem gerð var grein fyrir námskostnaði í ýmsum löndum, og tilgreindi jafnframt heildartölur yfir þann kostnaðarauka, sem þessi gengisbreyting íslenzku krónunnar hefði í för með sér fyrir námsfólk. Í Noregi yrði kostnaðaraukinn minnstur, en þó næmi hann 5.300 kr., og yrðu því 3 þús. kr. strax þar harla lítil hjálp í vandanum, sem af þessu leiðir fyrir námsfólkið. Í Sviss yrði kostnaðaraukinn um 13 þús. kr., en þar af eru 3 þús. kr. tæpur fjórði partur, en mestur yrði hann í Bandaríkjunum, líklega ekki undir 17 þús. kr., og má teljast líklegt, að 3 þús. kr. yrðu litlar sárabætur þeim, sem þar nema.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta á þessu stigi málsins. En á það vil ég þó benda, að í brtt. hv. 3. landsk. þm. er hvergi gert ráð fyrir hjálp handa þeim, sem eru sjúkir erlendis eða hafa leitað þangað til lækninga; erfiðleikar þeirra eru að sönnu miklir, en verða nú sízt minni. Í brtt. minni er hins vegar, eins og ég áður sagði, leitazt við að skipa þann veg málum, að lækningin við hættulegum sjúkdómum, sem hinar ófullkomnu aðstæður hér heima fyrir fá ekkert við ráðið, en fullkomnari aðstæður á erlendum sjúkrahúsum gætu aftur á móti snúið til bata, skuli fleirum veitast en þeim einum, sem auðs eiga not í ríkustum mæli.