17.03.1950
Neðri deild: 68. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

125. mál, gengisskráning o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er sérstaklega út af niðurlagi ræðu síðasta ræðumanns. Hann ítrekaði sín alvarlegu varnaðarorð, sem ég með mínum fáu orðum sagði um: Hvaðan kemur þessum hv. þm. vald til þess að taka svo mikið upp í sig sem hann hefur gert í kvöld og við fyrri umr., til að vara þingið við þeim afleiðingum, sem lagasetning þessi kynni að hafa, ekki sízt vegna aðgerða launasamtakanna. — Ég sagði þetta ekki ófyrirsynju og meinti þetta ekki út í bláinn. Þegar fjhn. fékk þetta frv. til meðferðar, var óskað eftir að senda það til umsagnar nokkrum aðilum, m.a. fulltrúum Alþýðusambands Íslands. Þess var m.a. óskað af fulltrúa Alþfl. í fjhn. Ég hélt, að alþýðusambandsstjórnin mundi taka þetta mál til alvarlegrar meðferðar. Ég hafði samband við fulltrúa í alþýðusambandsstjórninni, sem tilheyrir að vísu ekki flokki hans. Við áttum viðræður um þetta mál. Hann hafði ekki fengið fundarboð um, að fundur yrði um þetta mál í alþýðusambandsstjórninni. Þetta var um 4-leytið. En þegar ég kem niður í þing til þess að mæta á fundi fjhn., þá bregður mér í brún, því að þá liggur þar fyrir svar frá stjórn Alþýðusambandsins. Svo þykist þessi hv. þm. þess umkominn að flytja varnaðarorð. Ég vil flytja hv. þm. varnaðarorð. Má þá ekki hlýða í stjórn Alþýðusambandsins á orð annarra en þeirra, sem eru Alþýðuflokksmenn? Mér brá kynlega við, þegar ég sá, að tekin hafði verið afstaða til málsins, án þess að nokkur væri við nema flokksmenn Alþfl. Fyrst hann finnur ástæðu til að margendurtaka sín varnaðarorð, vil ég flytja honum varnaðarorð, þegar hann telur sína flokksmenn lýðræðissinnaða menn í alþýðusamtökunum, að hugsa ekki eingöngu um sína flokksmenn, en taka einnig tillit til annarra, sem fylgja ekki sama flokki, en hafa fengið umboð í alþýðusamtökunum til að láta þar til sín taka. Ég vil með þessu láta frá mér fara varnaðarorð til þessa hv. þm. og biðja hann og hans flokksmenn í þessum samtökum að líta í sinn eigin barm.

Hv. þm. segir, að það sé sízt til bóta að búta niður það fé, sem ætlað er til byggingarframkvæmda samkvæmt 1. tölulið 3. gr. Ég verð að segja, að það hefur oft minni fjárhæð verið bútuð niður, því að mér skilst, að hún sé hæfilega áætluð 6–7 millj. kr., og ég er á þeirri skoðun, að það megi búta minni upphæð, en þar er um að ræða.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að ég hef lagt áherzlu á, að tekin verði upp aftur framkvæmd 3. kafla l. nr. 44 1946, þótt í smáum stíl væri. Læt ég svo útrætt um þetta að sinni.