03.03.1950
Neðri deild: 59. fundur, 69. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

43. mál, jarðræktarlög

Ásmunduur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. frsm. Iandbn. hefur tekið fram, að ég hef sérstöðu um nokkrar brtt. á þskj. 361. Ég flyt brtt. á þskj. 389. Þarf ég ekki langt mál til þess að mæla fyrir þeim. — 1. brtt., sem ég flyt, er um að setja í fastara form þá leiðbeiningarstarfsemi, sem gert er ráð fyrir í frv., heldur en bæði í frv. er tiltekið og aðrir hv. nm. í landbn. leggja til. Í sambandi við það vil ég byrja á að geta þess, að þegar þessi breyt. á l. var undirbúin í fyrstu, þá var það gert af fimm manna nefnd, sem skipuð var af landbrh. 11. júní 1947 og í voru þeir Pálmi Einarsson landnámsstjóri, form., Árni G. Eylands stjórnarráðsfulltrúi, Gunnlaugur Kristmundsson fyrrv. sandgræðslustjóri, Hafsteinn Pétursson bóndi og Ólafur Jónsson tilraunastjóri. Þessir menn allir voru kunnugir landbúnaði, og fjórir þeirra höfðu beinlínis verið leiðbeinandi starfsmenn sem ráðunautar fyrir landbúnaðinn um fjölda ára.

Þessi n. lagði einróma til, að leiðbeiningarstarfsemin yrði sett í það form að skipta landinu niður í ákveðin svæði, þar sem gert var ráð fyrir, að héraðsráðunautar í jarðrækt skyldu vera 10 á landinu, og n. lagði til ákveðna skiptingu í þessu efni, og það er sú skipting, sem ég hef leyft mér að taka hér upp í brtt. mína. — Ein af þeim röksemdum, sem færðar hafa verið fram gegn því að fara þessa leið, en með því að fara þá leið, sem gert er ráð fyrir í frv., er sú, að í búfjárræktarl., sem samþ. voru hér fyrir ég held tveimur árum, þá er gert ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi eins og í þessu frv. hvað snertir héraðsráðunauta í búfjárrækt. Ég hygg, að megi fullyrða, að það hafi komið í ljós, að það fyrirkomulag sé ekki heppilegt. Fyrst vil ég benda á, að það virðist nokkuð óeðlilegt að hafa slík ákvæði í l., sérstaklega eins og það er í frv. sjálfu, þar sem gert er ráð fyrir, að það sé á valdi búnaðarþings að segja til um það, hve margir starfsmenn séu settir í þessa grein, þar sem þeim þó eru greidd laun úr ríkissjóði að hálfu leyti. Að vísu er lagt til, að þessu verði breytt í brtt. þeirra 4 nm., hv. meiri hl. n., sem stendur að brtt. á þskj. 361, þar sem gert er ráð fyrir, að landbrh. skuli þó þurfa að samþykkja tölu þessara manna. En það eru einnig fleiri atriði í sambandi við þetta. Mér virðist mjög mikið ósamræmi vera í því að gera ráð fyrir, að næstum því hvað lítið svæði sem vera skal, aðeins ef það nær samþykki búnaðarþings og landbrh., geti ákveðið að hafa þarna starfsmann, jafnvel þó að gengið sé inn á þá braut, að sami starfsmaður hafi báðar þessar greinar leiðbeiningarstarfseminnar með höndum, búfjárræktina og jarðræktina. Það hefur komið mjög fram í okkar landbúnaðarfélagsskap á síðari árum, að það hefur verið á það sótt að skipta landinu í mjög smá og mörg búnaðarsambandssvæði. Það virðist t.d. furðu lítil ástæða til að skipta Húnavatnssýslu í tvö búnaðarsambandssvæði, og þar er ekki um neinar sérstakar landfræðilegar ástæður að ræða, sem geri slíka skiptingu nauðsynlega. Og ég hygg, að samkv. þessu, eins og gert er ráð fyrir því í till. hv. meiri hl. n., sé hætta á, að það skapist ósamræmi, hvað þessa starfsemi snertir. Samkv. þeim getur farið svo, að sums staðar verði einn ráðunautur fyrir tiltölulega lítið svæði, en annars staðar getur farið svo, að ráðunautur geti haft allmiklu stærra svæði til að gegna leiðbeiningarstörfum á, þannig að þarna skapist mikið misræmi. Þess vegna tel ég heppilegra, að með l. sé landinu skipt í slík svæði, og hef ég þess vegna haldið mér við þá till. í þessu efni, sem hin stjórnskipaða nefnd, er ég gat um, setti fram í þessu efni og rökstuddi í sínu nál.

Hv. frsm. meiri hl. landbn. vildi telja öruggt, að í sambandi við þessi ákvæði frv. væri engin aukaútgjöld um að ræða fyrir ríkissjóð. Ég tel nokkuð hæpið að fullyrða það, þar sem hér er alls ekki neitt ákvæði sett fram um það, hversu margir þessir starfsmenn skuli vera.

Þá vil ég enn fremur minnast ofurlítið á stærð sambandssvæðanna, og vil ég í sambandi við það gefa upplýsingar um það, hversu mörg býli muni liggja á hverju sambandssvæðanna eftir þeirri skiptingu, sem ég legg til. Búnaðarsamband Kjalarnesþings hefur innan sinna vébanda 448 jarðir, samkv. skýrslum, sem að vísu eru birtar í öðru sambandi, þ.e. í grg. fyrir frv., sem hin stjórnskipaða n. sendi frá sér á sínum tíma. Búnaðarsamband Mýra- og Borgarfjarðarsýslu hefur 424 býli, Búnaðarsamband Dala- og Snæfellsnessýslu 480 býli. Það er fullt samræmi í stærð þessara þriggja búnaðarsambanda, hvað býlatöluna snertir. Búnaðarsamband Vestfjarða og Strandasýslu, sem er um það bil tvöfalt býla fleira, en hvert hinna þriggja nefndu búnaðarsambanda fyrir sig, það hefur 884 býli. Og svo eru tvö önnur búnaðarsambönd með svipaða býlatölu og hin fyrst nefndu sambönd, Búnaðarsamband Húnavatnssýslu með 440 býli og Búnaðarsamband Skagafjarðarsýslu með 490 býli. Þá kemur Búnaðarsamband Eyjafjarðarsýslu ásamt Siglufirði með 523 býli, Búnaðarsamband Þingeyjarsýslu með 708 býll, Búnaðarsamband Austurlands með 908 býli og Búnaðarsamband Suðurlands, sem er langstærst, því að innan þess eru 1.511 býli. Það liggur ljóst fyrir, að hér er um að ræða þrjú búnaðarsambönd, sem eru sérstaklega stór, og þess vegna mætti telja, að þeim væri ekki gert eins hátt undir höfði með þessum till. eins og öðrum búnaðarsamböndum. Það eru Búnaðarsamband Austurlands, Suðurlands og Þingeyjarsýslu. En í till. hinnar stjórnskipuðu n. í upphafi og í till. hv. meiri hl. landbn. er gert ráð fyrir því, að þau búnaðarsambönd, sem ná yfir meira, en tvö sýslufélög, skuli hafa sérstakan mælingamann til aðstoðar auk héraðsráðunautanna, þar sem gert er ráð fyrir, að starf þeirra sé svo mikið, að einn ráðunautur geti ekki annað því. Það eru þrjú sambönd, sem koma undir þau ákvæði, og tel ég, að þar með sé skapað nokkurt samræmi í þessu. En hvað snertir Vestfjarðasambandið, þá munu þar vera örðugastar samgöngur á landinu. Hins vegar verður Búnaðarsamband Suðurlands vitanlega með mestan fjölda býla á hvern starfsmann, ráðunaut og aðstoðarmann hans. En þar er þess að gæta, að þar eru samgöngur beztar og þess vegna öll leiðbeiningarstarfsemi auðveldust að því leyti.

2. brtt. á þskj. 389 var nokkuð rædd í n., og gátu hv. meðnm. mínir ekki fallizt á að taka það atriði inn í frv. Hv. 1. þm. Skagf., frsm. n., gat einmitt í framsöguræðu sinni um þá breyt., sem gert er ráð fyrir í frv. og líka í till. þeirra 4 hv. nm. um að fella niður það hámark á styrk til einstakra býla, sem gert er ráð fyrir í jarðræktarl., eins og þau eru í gildi nú. Og þar er að ræða um tvenns konar hámark. Í fyrsta lagi árshámark, sem ákveður, að hvert býli megi ekki fá nema 600 kr. á ári, sem er 1.800 kr. með vísitöluuppbót, og svo er í öðru lagi í 13. gr. ákveðið, að hámarksstyrkur til hvers býlis megi nema: a. Til byggingar safngryfja og haughúsa samtals kr. 1.500,00, b. Til byggingar þurrheyshlaða kr. 500,00, c. Til byggingar votheyshlaða kr. 350,00 og d. Til jarðræktar á ári kr. 600,00. Hér er um að ræða atriði, sem mjög mikið var um deilt á sínum tíma. Og ég vildi taka fram, að þó að ég sé út af fyrir sig fylgjandi hámarksstyrk á býli, þá tel ég, að eins og þessu er nú fyrir komið í núgildandi jarðræktarl., þá séu þetta ákvæði, sem ekki geti staðizt. Í fyrsta lagi er það svo, að þegar gert er ráð fyrir hámarksupphæð á býli sem styrk í þessum efnum, þá er verið að gefa mönnum misjafna aðstöðu. Hér er í nál. stjórnskipuðu n., sem undirbjó í fyrstu þessar breyt., skýrsla, sem sýnir, hversu mikill hluti af býlum landsins hefur verið búinn að fá ákveðnar upphæðir á árabilinu 1925 til 1946, og sýnir hún, að í árslok 1946 hafa um 53% af öllum býlum á landinu verið með innan við eitt þús. kr. grunnstyrk. En þetta sýnir, að á þessum um það bil helming af öllum býlum á landinu er tiltölulega mjög stutt komið á þeirri braut að færa búskapinn í viðunandi horf. Ég tel, að þessi mikli munur stafi mjög mikið af því, hversu aðstaðan er mismunandi á einstökum býlum í þessum efnum. Og að mjög verulegu leyti mun þetta vera vegna þess, að þar, sem ekki er nema mýrlendi til ræktunar, sem þarf að kosta miklu til, áður en hægt er að rækta það, hafa framkvæmdirnar orðið minni en þar, sem ekki þarf slíks við. Það er ekki hvað sízt það, sem ég tel rétt að leggja sérstaka áherzlu á, að gera mönnum hægara fyrir í framkvæmdum þessara nauðsynlegustu ræktunarframkvæmda, framræslunnar. Einmitt þetta atriði, aðstöðumunurinn til ræktunar vegna þess, að sums staðar þarf miklu meir að ræsa fram en annars staðar fyrir ræktunina, gerir það að verkum, að það virðist vera mjög óeðlilegt ákvæði að miða hámarksstyrk á býli við krónufjölda, en ekki flatarmál eða stærð ræktaðs lands og stærð þeirra bygginga, sem ætla má, að þurfi fyrir bæði áburð og fóður og gripi.

En þessi skýrsla sýnir okkur annað og þessar tölur, sem hún hefur inni að halda, sem sé það, að við þurfum að leggja hina mestu áherzlu á að fá þessar jarðir, sem gert er ráð fyrir, að verði framtíðarbýli, þannig bættar með ræktun, að með ræktuninni komist stærðin á búum á þeim upp í það, sem viðunandi megi teljast fyrir meðalbú, eins og við þurfum að hugsa okkur það í framtíðinni. Meðalbú á Íslandi er svo ákaflega lítið, að það er ekki hægt að telja viðunandi til lengdar. Út frá þessu virðist mér líka vera rétt að halda hámarki á styrkveitingu til hvers býlis og miða það við það, að lögð sé fyrst og fremst áherzla á að koma búskapnum í það horf, er telja megi viðunandi búskap á býli, svo að búið sé orðið það stórt, að það megi teljast nægilegt verkefni fyrir eina fjölskyldu, með þeim vélakosti, sem eðlilegt er, að sé í vinnu við búskapinn. Í samræmi við þá hugmynd hef ég lagt til, að hækkað verði það hámark framkvæmdanna, sem styrkja beri. Það er mjög athyglisvert við okkar búskap, að hann er nú fyrst á síðustu áratugum að færast úr því að vera rekinn í miðaldaformi, og alls staðar, hvar sem er, þykir sú þensla sjálfsögð, að búskapurinn komist upp úr því. Það eru tiltölulega fá bú hér á landi, sem ekki þykir sjálfsagt að þenja út. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um það, hvaða bústærð sé heppilegust, til þess að búin skili fullum arði, miðað við fjármagnið, sem í þeim er, og það erfiði, sem við þau er haft. Og mér finnst, að það ætti að vera um tvenns konar búskap að ræða, sérstaklega þar sem mjólkurframleiðsla er mest stunduð og eingöngu rekin með ræktunarbúskap, þannig að í fyrsta lagi sé miðað við það um stærð ræktunarlands og bústærðina, að þar sé hæfilegt verkefni um að ræða fyrir eina fjölskyldu, og hins vegar sé annað fyrirkomulag búanna, þar sem búin eru rekin að verulegu leyti með aðkeyptu verkafólki, og þá þarf búskapurinn að vera miklum mun stærri.

Ég hef lagt til í minni brtt., að þegar rúmmál áburðar og heygeymslna svo og flatarmál ræktaðs lands á býli hefur náð vissu hámarki, þá skuli styrkveitingar til býlisins falla niður, þ.e. þegar áburðarhús og safnþrær ná 250 rúmmetrum, þurrheys- og votheyshlöður 1.000 rúmmetrum og flatarmál ræktaðs lands 20 ha. Ég hygg, að það megi með nokkrum rökum fullyrða, að hér sé um að ræða aðstöðu til að reka það bú, sem sé einni fjölskyldu nokkurn veginn hæfilegt verkefni, með viðunandi tækni, sem þar til heyrir, og það muni einnig vera nægilega stórt til þess að bera þann vélakost, sem nauðsynlegur er hverju sinni. En það, sem þjáir okkar smábúskap, er, að hann ber ekki þann vélakost, sem hann þarf að gera, þannig að það fjármagn, sem í vélunum er fólgið, verður svo mikið, að það ber smábúskap ofurliði. Þetta ræktaða land, sem hér um ræðir, getur gefið af sér um eitt þúsund hesta heys, og það verður nægilega mikið fóðurmagn til þess að fóðra 20 kýr og auk þess nokkur hross. Ég álit, að það beri að stefna að því að koma búunum upp í þessa stærð, en hins vegar álit ég, að það sé ekki ástæða til að styrkja menn til þess að hafa búskapinn meiri, en þetta. Það eru röksemdir þeirra manna, sem vilja fella niður hámarksákvæðið úr l. í þessum efnum, að ef það er ekki fellt niður, muni það draga úr því, að menn vildu rækta jarðir sínar meir og skipta þeim milli barna þeirra. Ég vil síður en svo koma í veg fyrir þá þróun, ég tel hana æskilega. Þó tel ég eðlilegra, að jörðunum sé ekki skipt, heldur sé aukinn búskapur á jörðunum á þann hátt í fyrsta lagi, að samvinnubúskapur sé rekinn á þeim, þar sem fleiri heimili stæðu að og hefðu tekjur sínar af. Þess vegna hef ég gert ráð fyrir í minni brtt., að þær jarðir, sem hafa náð fyrrnefndu hámarki, skuli verða styrktar áfram í hlutfalli við þau býli, sem jörðinni er skipt í, eða hvern meðeiganda í búrekstrinum, ef um samvinnubúrekstur er að ræða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till.

Þá er 3. brtt., sem ég flyt á þskj. 389, sem hv. 1. þm. Skagf. minntist á og getið er um í nál. Ég gat ekki orðið sammála hv. meðnm. mínum um stjórn vélasjóðs.

Þess var getið af hv. frsm., að samkvæmt l. frá 1942 þá var, þegar vélasjóður var stofnaður, stjórn hans falin verkfæranefnd ríkisins. Rökin, sem eru sérstaklega færð nú fram fyrir því, að rétt sé að kljúfa þessa starfsemi sundur, eru í fyrsta lagi þau, að stjórn þessara mála hafi verið þannig, að það hafi verið stofnuð sérstök skrifstofa utan Búnaðarfélagsins, skrifstofa vélasjóðs, sem hafi haft þessa starfsemi með höndum, en þessi starfsemi hafi verið tvískipt, því að Búnaðarfélagið eigi að sjá um undirbúning þessara framkvæmda allra, en vélasjóður um framkvæmdirnar sjálfar, og þá geti orðið ósamræmi í því. Mælingamenn Búnaðarfélagsins eigi að mæla fyrir þessum framkvæmdum, en síðan sé það stjórn vélasjóðs, sem eigi að hafa framkvæmdirnar með höndum. Ég vil leyfa mér að benda á, að sú till., sem ég flyt hér í sambandi við þetta, er sú sama og hún miðar að því að taka upp sama fyrirkomulag og það, sem hin upprunalega stjórnskipaða, n. lagði til, að yrði viðhaft. Og ég verð að segja, að þau rök, sem ég hef heyrt á móti þessu fyrirkomulagi, hafa ekki sannfært mig um, að það sé svo nauðsynlegt að breyta hér um eða trygging sé fyrir, að það yrði breytt um til batnaðar.

Í fyrsta lagi þá vil ég benda á, að samkvæmt minni till. vil ég, að hér sé málum skipað í samræmi við till. hinnar stjórnskipuðu n., sem saman var sett af leiðandi mönnum, sem árum saman hafa starfað í þjónustu landbúnaðarins. Þar er gert ráð fyrir, að verkfæranefnd ríkisins sé skipuð þannig, að í henni sé verkfæraráðunautur Búnaðarfélags Íslands, hafi það slíkan mann í þjónustu sinni, ella kjósi stjórn félagsins í n. einn af jarðræktarráðunautunum. M.ö.o., einn af ráðunautum Búnaðarfélags Íslands er sjálfkjörinn í n. Annar maður er líka sjálfkjörinn í n. eftir minni till., en hann er kosinn af búnaðarþingi, og er þá sýnilegt, að það er raunverulega Búnaðarfélag Íslands, sem hefur meiri hl. í verkfæranefnd, og það er aðeins formaðurinn, sem ég geri ráð fyrir, að skipaður sé af landbrh. Ég fæ ekki skilið annað en n., þegar svona er undirbúið, að 2 af 3 í verkfæranefnd skuli skipaðir á vegum Búnaðarfélagsins, annar af stjórn félagsins eða sjálfkjörinn ráðunautur, en hinn af búnaðarþingi, þá sé ég ekki annað, en þar eigi að verða ágæt samvinna á milli. Enn fremur veit ég ekki betur en svo sé háttað yfirleitt í flestum tilfellum með undirbúning þessara framkvæmda, að þær séu undirbúnar, mælingarnar séu framkvæmdar yfirleitt sumri eða ári áður, en sjálf framkvæmd verksins er unnin. Ég veit ekki betur, en það sé svo í flestum tilfeilum, og þá sýnist mér enn fremur fallin burt sú ástæða, að það skapist ósamræmi milli aðgerða verkfæranefndar, sem stjórnar vélasjóði, og undirbúnings Búnaðarfélags Íslands.

Annað atriði, sem mjög er um rætt sem rök fyrir réttinum til að kljúfa hér í sundur, er það, að verkfæranefnd hafi ekki sinnt sínu, starfi nægilega mikið. Ég skal ekki um það dæma, en ég hygg, að ef sú ástæða er á fullum rökum reist, sem ég skal ekki fyllilega neita, þá sé það fyrir það, að verkfæranefnd hafi máske ekki átt nógu hægt með að halda sína fundi. Ég get búizt við, að það sé óheppilegt fyrirkomulag, að formaður verkfæranefndar er jafnframt skólastjóri við annan bændaskóla landsins. Ég efast ekki um, að hann sé prýðilegur maður, en hann á engan veginn hægt með að sinna þessu starfi þess vegna. En það ætti að vera hægt að koma því svo fyrir, að bæði sá maður, sem landbrh. skipar, og sá, sem kosinn er af búnaðarþingi, ættu heima í Reykjavík eða það nærri Reykjavík, að verkfæranefnd ætti hægt með að reka sína starfsemi fullkomlega. Ég sé því ekki ástæðu til að kljúfa þetta í sundur og hygg, að það geti orðið allmikill aukakostnaður við að kljúfa hér í sundur, eins og gert er ráð fyrir í till. hv. meðnm. minna í landbn., sem vilja breyta þessu í annað form.

Ég mun svo ekki að svo stöddu segja fleira um þetta, nema ég vil geta aðeins um eitt atriði, að ég hef áskilið mér rétt til að flytja brtt. við 3. umr., brtt. við 11. gr. II b, sem er viðvíkjandi styrkveitingu á vélgrafna skurði, en ég mun láta það bíða þar til við 3. umr.