18.12.1950
Efri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

41. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það er alveg hrein unun að hlusta á þessa kómidíu hér. Það er sagt, að það fari einhverjir andar hér um salina, þegar líður að því að slíta þingi, og geri menn eitthvað skrýtna, og maður rekur sig á það í afdrifaríkari málum en þessu. Þessi dómari er orðinn svo heilagur, að hann hefur a.m.k. allan rétt sem hæstaréttardómari hefur. En það er þá rétt að upplýsa, hverju sem um er að kenna, að hann hefur tekið fyrir eitt mál, sem aldrei varð neitt úr, allan tímann. Hvað mikið er búið að greiða, get ég ekki fullyrt, en það er mikið. Í annan stað er sagt, að það sé bersýnilegt, að landbrh. hafi útbúið þessi l. og sett mann í þetta starf til þess, öðrum þræði, að skattsvikarar fengju að leika lausum hala, og þá má ímynda sér, hverja hann helzt hugsar um. En aftur á móti segir hv. 6. landsk.: Nú leika skattsvikararnir lausum hala, eftir að hann er farinn. En hann var settur til að gæta þess, að þeir fengju að leika lausum hala, segir hinn. Finnst ykkur þetta ekki standast vel? Ég ætla ekki að fara inn á umr., sem þetta gefur tilefni til, en það er rétt, sem hv. þm. Barð. sagði, að ég hafði áður en l. voru staðfest lofað því að veita manni þetta starf og venjulega er staðið við slík loforð ráðh., og ég býst við, að hv. þm. haldi því ekki fram, að ég hafi sett þennan mann í embættið til þess að láta skattsvikara leika lausum hala, því að ég setti í þetta ágætan, ungan og duglegan mann, en fékk því ekki ráðið, vegna þess að þeir, sem á eftir komu, ógiltu það og settu í þetta mann, sem tekur fyrir eitt mál. Ætli það geti ekki skeð, að þetta höggvi nær einhverjum heldur en núv. landbrh. og þáv. dómsmálarh.? En einkennilegt má það sýnast, ef þessi dómari, sem ekkert er nema gott um að segja, álítur nú, að þjóðfélagið sé í mikilli hættu vegna þess að flestir Íslendingar séu skattsvikarar, þá hefur honum tekizt undarlega illa að ná í skottið á þeim öll þessi ár. Það mætti þykja furðulegt, að nú fyrst, þegar verið er að leggja embættið niður, þá skuli vera kvartað undan því, að l. séu ekki þannig, að hægt sé að njóta sín við starfið. Hvers vegna benti skattdómari ekki á þetta fyrir 1 eða 2 árum, meðan hann starfaði? Ég held það sé eðlilegt að láta þetta frv. ganga sína leið, og ég held við gerum engum greiða með því að ræða um það frekar, a.m.k. er áreiðanlegt, að fyrrv. dómsmrh. þarf ekki neitt að óttast í þeim umr., því að það var ekki hann, sem setti þennan dómara í starfið, sem situr í starfinu, heldur setti hann dómara í starfið, sem vissulega hefði rækt það mjög vel.