22.01.1951
Efri deild: 53. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

56. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af hæstv. menntmrh. og lagt fyrir Nd. Felur það í sér þá breyt. frá gildandi l., að námsbókagjald á að hækka úr 7 kr. í 15 kr. fyrir hvert heimili, þar sem skólaskylt barn er; en það hefur verið óbreytt síðan 1940, enda þótt útgáfukostnaður námsbóka hafi á þeim tíma nær fimmfaldazt. N. ræddi málið á allmörgum fundum, og barst henni erindi frá ritnefnd ríkisútgáfu námsbóka, afrit af álitsgerð skólaráðs barnaskólanna. Enn fremur mættu að eigin ósk á fundi í n. þeir Helgi Elíasson fræðslumálastjóri og Jónas Jósteinsson, formaður ritnefndar ríkisútgáfu námsbóka. Var það skoðun þessara aðila, er þeir gerðu grein fyrir, að hækkun sú, er ráðgerð væri í frv., væri ófullnægjandi, og nauðsyn væri að hækka gjaldið upp í 25 kr. á ári. Nokkra tilhneigingu hafði n. til að verða við þessum tilmælum; en hún ræddi einnig við hæstv. menntmrh., og tók hann þannig í málið, að hann taldi, að þetta mundi bjargast, þótt gjaldið yrði ekki hærra en 15 kr., og sá n. sér ekki fært að ganga lengra í þessu efni en ráðh. lagði til.

Kostnaðurinn við ríkisútgáfu námsbóka nam á s.l. ári 163500 kr., en tekjurnar af gjaldinu aðeins 70 þús. kr., og er hallinn því um 90 þús. kr. á s.l. ári. Með 15 kr. gjaldinu yrðu tekjurnar um 150 þús. kr., og yrði þá enn nokkur halli; en ráðh. telur, að hægt muni verða að sjá ráð við því. Hins vegar var n. ljóst, að bráðlega þarf að endurskoða meginhlutann af námsbókum barnafræðslustigsins, sem flestar eru orðnar um 10 ára gamlar og svara ekki auknum kröfum vegna hinna nýju fræðslulaga, og hníga þau rök vitanlega að réttmæti hins hærra gjalds.

Í 12. gr. l. um ríkisútgáfu námsbóka er heimild til að hækka gjaldið með það fyrir augum að mæta auknum útgjöldum vegna unglingastigsins, og í 2. gr. frv. er heimilað, að ráðh. megi hækka gjaldið samkv. 12. gr., en þó ekki nema sem svarar 20 kr. á hvert heimili, þar sem unglingur er á þessu stigi.

Þetta féllst n. einnig á, og er till. hennar, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Nd.

Hv. 2. þm. Árn. og hv. 7. landsk. voru á fyrstu fundum n., en voru fjarstaddir sökum veikinda, er málið var afgr. af meiri hl. n., sem leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt.