16.10.1950
Neðri deild: 3. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (1494)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég ber ekki á móti því, að þeir sjómenn, sem síldveiðar hafa stundað, eru illa staddir, og hv. þm. Ísaf. veit, að það greinir ekki á um það, að hér þarf úrbóta við. Ég fellst í verulegum efnum á þá skoðun hv. þm., að þeim, sem hefur gert hlut þeirra verri, beri skylda til að greiða vandann. En af því leiðir, að sá, sem þessi lög setti, á að greiða vandann. Mér er ekki kunnugt um, hver á hér hlut að máli. Ef til vill er það sjútvn., en þar hefði hv. þm. verið í lófa lagið að koma í veg fyrir þetta misrétti, þar sem hún starfar undir alsjáandi auga hans. Og sé svo, á sú nefnd að eðlilegum hætti að taka á sig ábyrgðina.

Annars vakir það ekki fyrir okkur að leita upp ágreiningsatriði, heldur leiðir til úrbóta. Málið er í rannsókn hjá skilanefnd bátaútvegsins og stjórn hlutatryggingasjóðs er að athuga möguleika til úrbóta og hve brýna nauðsyn ber til að létta hlut þeirra, sem verst hafa orðið úti, og á hvern hátt það er hægt. Og ég fyrir mitt leyti er hlynntur því, að slík athugun fari fram.