15.01.1951
Neðri deild: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Við hv. þm. Snæf. eigum hér brtt. við þetta frv. á þskj. 445, sem er við 9. gr. frv., og er brtt. eingöngu um tekjuöflun fyrir sjóðinn.

Hv. þm. Snæf., sem var frsm. sjútvn. um þetta mál, gerði grein fyrir frv. og afstöðu sjútvn. til þess. Þetta eru, eins og hann gerði grein fyrir, bráðabirgðal., sem ríkisstj. hafði sett og voru í raun og veru komin til framkvæmda, þegar málið var í meðferð n. Þessi bráðabirgðal. fólu í sér að breyta l. þannig, að heimilt yrði að ráðstafa stofnfé sjóðsins þá þegar, eða á s.l. ári. En stofnfé sjóðsins var 21/2 millj. kr., og var þá til ráðstöfunar á síðasta ári stofnféð, 21/2 millj. kr., og tekjur sjóðsins, þ.e. gjald af síldarútflutningi á árinu, sem mun hafa numið upp undir 300 millj. kr. útflutningurinn. Hann var 285 millj. kr. orðinn í nóvemberlok s.l. Sakir sjóðsins standa þá þannig nú fyrir áramótin, að í þessari deild hans, síldveiðideild hlutatryggingasjóðs, er ekkert fé. Og er náttúrlega ekki efnilegt að leggja út á þetta ár viðkomandi framtíðarstarfsemi sjóðsdeildar þessarar þannig, að í henni sé ekkert fé fyrir hendi og ekki séu heldur gerðar ráðstafanir til fjáröflunar þessari deild sjóðsins til handa, aðrar en þær, sem í l. felast, sem eru, að greiða skuli hálfan af hundraði af útflutningi síldar og síldarafurða, sem ekki var þó á s.l. ári fyrir meira en um 300 millj. kr., og í þeim útflutningi átti ekki svo lítinn hlut sú síldveiði, sem varð á síðasta hausti hér við Faxaflóa. — Nú hefur þessu fé, sem sagt, öllu verið ráðstafað, og nam það þó ekki nema um 30% af því, sem síldveiðideild sjóðsins hefði átt að inna af hendi á s.l. ári, miðað við þann grundvöll, sem starfsemi þessarar sjóðsdeildar er reist á.

Snemma á þeim tíma, er mál þetta var í meðförum nefndar, bárust n. till. frá stjórn Fiskifélags Íslands um tekjuöflun handa sjóðnum. Og það eru einmitt þessar till., sem við hv. þm. Snæf. höfum tekið upp og flutt hér á þskj. 445. Og breyt., sem í þessum till. felast frá því, sem er í gildandi ákvæðum, eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi, að útflutningsgjald af öllum útfluttum síldarafurðum skuli verða aukið um hálfan af hundraði, — úr hálfum af hundraði í einn af hundraði. Svo eru ákvæði um það, að helmingsframlag komi þar fram frá ríkinu, óbreytt frá því, sem nú er í gildandi l. um þetta efni.

Í öðru lagi leggjum við til, að lagt verði á innflutningsgjald, einn af hundraði af öllum innfluttum vörum, og reiknist það á sama hátt og verðtollur og af sömu vörum. — Ég hef aflað mér upplýsinga um það, að innflutningur á árinu 1950 nam í nóvemberlok 458 millj. kr. Og gert var ráð fyrir því, að á árinu mundi allur innflutningurinn ekki verða undir 500 millj. kr. Og miðað við það, þá mundi þetta gilda fyrir hlutatryggingasjóðinn í heild um 5 millj. kr., og gert ráð fyrir því, að þetta skiptist jafnt á milli tveggja deilda sjóðsins, þ.e. síldveiðideildar og þorskveiðideildar sjóðsins.

Ég vil aðeins skírskota til þess, að tilætlunin með þessum l. um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins var vitanlega sú að reyna að efla sjóðinn þannig, að hann gæti gert bátaútveginum kleift að komast nokkurn veginn klakklaust yfir, þó að nokkurt misræmi yrði í aflabrögðum. Það var náttúrlega vitað, að til þess að mæta verulegum skakkaföllum í þessum efnum, þurfti sjóðurinn að eflast verulega frá því, sem til hans var stofnað í upphafi. Og þess vegna var. það, að við setningu l. voru þau ákvæði sett í 1., að ekki mætti skerða stofnfé sjóðsins. En það hefur nú orðið að grípa til þess ráðs, að í fyrsta skipti, er til útborgunar kom úr sjóðnum, þá hefur stofnfé síldveiðideildarinnar ekki aðeins verið skert, heldur eyðzt að öllu leyti. Með tilliti til þess mikla hlutverks, sem sjóðnum er ætlað að gegna, og hins vegar með hliðsjón af því, hversu ástatt er um síldveiðideild sjóðsins, þá leggjum við flm. þessarar brtt. til, að þessar breyt. verði gerðar á l., sem ég hef greint, og þannig sýnd viðleitni til þess, að sjóðurinn geti orðið verulegur þáttur í framtíðinni í því að inna af hendi það hlutverk, sem honum er ætlað að vinna.

Þegar frv. að þessum l. lá hér fyrir Alþ. 1949, þá voru bornar fram í hv. Ed. till., sem gengu í þá átt, að nokkurt gjald til sjóðsins yrði tekið af innflutningnum. En ekki var þó horfið að því ráði í meðferð hv. Ed. á málinu, heldur eingöngu lagt gjald til sjóðsins á útfluttar sjávarafurðir, sem svo kom jafnmikið framlag á móti frá ríkissjóði. En eins og þessi mál horfa nú við, erum við flm. þessarar brtt. sammála stjórn Fiskifélagsins í, að ekki séu önnur ráð líklegri til þess að efla sjóðinn en þau, sem í þessum brtt. felast. En nauðsynin á því, að sjóðurinn verði efldur, getur ekki dulizt neinum. Því að það að skilja við síldveiðideild sjóðsins í því ástandi, sem hún nú er í, án þess að sýna viðleitni í að ráða þar á nokkra bót, teljum við, að ekki sé fært fyrir hæstv. Alþ. að gera. — Að svo mæltu leggjum við þessa till. okkar, sem er tilraun til þess að efla sjóðinn, á vald hv. þd.