01.03.1951
Efri deild: 78. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (1523)

2. mál, hlutatryggingasjóður bátaútvegsins

Jóhann Jósefsson:

Það þyngist undir fótum fyrir málinu, þegar form. fjvn. fer að gefa yfirlýsingu um afstöðu sína og spár fram í tímann um það, hvernig þessu yrði tekið, og mér finnst veðurspáin ekki sérlega glæsileg. En hv. þm. verður að viðurkenna það með okkur, að það er síldveiðideildin, sem hefur orðið fyrir árásinni, ef svo má að orði komast, þetta eru hennar peningar, en ekki hinnar deildarinnar, og það hafa ekki verið gerðar kröfur til að bæta annað en það, sem brotið hefur verið. Þetta er sannast að segja ekki stærra atriði en það, að það væri leikur á borði að heita því, ef ríkisstj. hefði nokkurn vilja í þessu efni, að þetta yrði gert, ef hægt væri. Ég fór fram á það við hæstv. fjmrh., að hann gæfi fast fyrirheit um þetta, en það var ekki einu sinni hægt að toga út úr honum, að hann mundi mæla með því. En það vita allir, að fjári. eru þannig útbúin nú, að tekjuöflunarvonir ríkissjóðs eru a.m.k. betri en þær hafa verið undanfarið, og þegar þess er gætt, að mikið á að rýmka til um verzlunina, þá er ekki útlit fyrir, að svo hart sé á, að vegna þeirra hluta verði ómögulegt fyrir ríkisstj. að bæta sjóðnum þessa tiltölulega litlu upphæð. En ég hef enga löngun til þess að fella þetta frv. og vildi því gera tilraun til þess að fá það bundið fastmælum, að sjóðnum verði bættir þessir peningar, og ég hef ekki getað fengið, hvorki fyrirheit né heldur loforð um, að hæstv. ráðh. mundi mæla með því á sínum tíma. Ég mun þess vegna ekki greiða atkv. um þetta mál, — það getur verið að ég greiði ekki atkv. á móti því, en þegar svo dauft er tekið í svona hluti eins og gert er, þá liggur opið fyrir að fara millileið, eins og hæstv. ráðh., sem segir, að þetta sé æskilegt, en vill engu lofa, hvort það verði gert.