10.11.1950
Efri deild: 17. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

79. mál, ríkisborgararéttur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er lagt fram um veitingu ríkisborgararéttar, er sniðið eftir þeirri reglu, að veita þeim réttinn, sem annaðhvort eru af íslenzku eða norrænu bergi brotnir. Það hefur orðið að samkomulagi að sneiða hjá fólki af öðru þjóðerni. Ég hygg, að það sé skoðun manna, að ekki sé til góðs, að frv. verði eins og það var orðið í Nd. í fyrra, og sú meðferð sýni, að ekki sé alls kostar heppilegt að fara út í víðtæka veitingu slíks réttar sem þessa, eins og nú standa sakir. Og þegar út í slíkt er farið, er um svo marga vafasama aðila að ræða, að erfitt er að gera upp á milli þeirra eða ákveða, hvar takmörkin skuli vera. Ég held því, að það eina rétta sé að halda sig við menn af íslenzkum og norrænum uppruna. Öðrum, sem hér dvelja, er enginn óréttur gerður, og fólk, sem er í fastri atvinnu og hefur verið hér lengi, á ekki á neinni hættu að verða rekið úr landi. En það er erfitt að gera upp á milli þessa fólks, ef lengra er farið en hér er gert, og í fyrra var farið út í miklar öfgar í Nd., og ber að varast slíkt í framtíðinni. — Ég vænti þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.